Gúrmé í Grindavík - Salthúsiđ

  • Gúrme Grindavík
  • 18. júlí 2020

Gúrmé í Grindavík er umfjöllunarliður matseldar í bænum og hvetjum við alla bæjarbúa til þess að kynna sér alla þá fjölbreyttu staði sem Grindavík hefur upp á að bjóða. Staðurinn að þessu sinni sem við kynnum er Salthúsið. Við hittum Láka og fengum að spyrja hann nokkra spurninga. 

 

Bjálkahús frá Eistlandi

Salthúsið var reist árið 2001 af þeim Guðmundi Karli Tómassyni rafvirkjameistara og Einari Bjarnasyni sjómanni. Húsið er bjálkahús innflutt frá Eistlandi og var sett upp á þeirri staðsetningu sem að það er í dag, Stamphólsvegi 2 við hliðina á sundlauginni. Guðmundur og Einar reka veitingahúsið til ársins 2005 en þá kaupir Hjálmar Erlingsson húsið og rekur staðinn í 3 ár. Eftir það kaupa Þórður og Kristín húsið í eitt ár en í janúar árið 2009 kaupir Þorlákur Guðmundsson eða Láki eins og við þekkjum hann staðinn. Láki hafði þá rekið veitingastaðinn Lukku Láka frá árinu 2005 en tók þá við Salthúsinu og stendur enn vaktina þar í dag. 

 

Fjölbreyttur matseðill

Á Salthúsinu er boðið upp á fjölbreyttan matseðil. Seðilinn býður upp á heillandi forrétti eins og súpu dagsins, humarsúpu og djúpsteikan camembert. Því má fylgja með bragðgóðum grillréttum, fiskiréttum eða kjötréttum. Þar er hægt að panta allt á milli djúsí hamborgara, nauta ribeye eða vinsæla saltfiskréttin með sellerírótastöppunni. Fyrir þá sem hafa sæta tönn eru ljúffengi eftirréttir líka á matseðlinum eins og djúpsteiktur banani með karamellu og vanillu ís eða volg eplakaka. Salthúsið býður einnig upp á barnamatseðil. 

 

,,Hver hefur verið áherslan hjá ykkur?”

Láki segir að áherslan síðustu ár hafi snúist mikið í kringum innlenda og erlenda hópa. Hann segir að þá sé fiskurinn gríðarlega vinsæll. ,,Við höfum alltaf haldið okkur við það að bjóða upp á góðan mat á góðu verði” segir Láki. Á Salthúsinu má finna veitingasal, hópasal og stóra efri hæð sem hægt er að leigja út fyrir allskonar tilefni. Það sem af er sumri hafa það aðalega verið íslendingar sem eru að koma og þá hafa lambakótiletturnar verið mjög vinsælar segir Láki. 

 

Öðruvísi sumar í vændum

Ferðamannastraumurinn hefur tekið algjörlega nýja átt í sumar vegna veirunnar og segist Láki finna fyrir því. Hann nefnir kosti við það að vera með stað í Grindavík en hann segir það gott að vera í tengslum við bæjarbúa og finna góðvild þeirra. Í ljósi aðstæðna vegna faraldursins sjái hann upp á breyttar aðstæður og minnkandi opnunartíma með haustinu. 

Okkur langar að minna á rétt vikunnar hjá Láka en það er sígildi saltfiskrétturinn góði.

 

Staðsetning: Stamphólsvegur 2 

Heimasíða: www.salthusid.is

Opnunartími: Frá klukkan 15:00-21:00 alla daga til 30.ágúst

Sími: 426-9700

 

 

Umfjöllun og myndir eftir Láru Lind Jakobsdóttur
 


Deildu ţessari frétt