Gúrmé í Grindavík - Papas

  • Gúrme Grindavík
  • 9. júlí 2020

Nýr liður hefur gengið í garð á heimasíðunni þar sem að við ætlum að vera dugleg að heimsækja matsölustaði í Grindavík í sumar. Gúrmé í Grindavík er umfjöllunarliður matseldar í bænum og hvetjum við alla bæjarbúa til þess að kynna sér alla þá fjölbreyttu staði sem Grindavík hefur upp á að bjóða. Staðurinn að þessu sinni sem við kynnum er Papas.

 

Heimafólkið stærsti kúnnahópurinn

Papas opnaði þann 19. desember árið 2013 í gömlu Bárunni og bauð þá eingöngu uppá pizzur. Gekk það fram úr vonum og ekki var langt þar til að leitað var að öðru húsnæði. ,,Það gekk mjög vel í Bárunni og það var mikið að gera alla daga og má segja að við höfum sprengt utan af okkur húsnæðið þar” segja Gylfi og Þormar eigendur Papas. Eftir þessa góðu velgengni þar var því ákveðið að flytja reksturinn yfir í stærra húsnæði í mars árið 2015. Þá opnaði Papas í hjarta Grindavíkur að Hafnargötu 7 þar sem staðurinn er ennþá í dag. Á seinustu árum hafa orðið skemmtilegar breytingar á Papas en þar er hægt að sjá alla helstu íþróttaviðburði á skjánum á barnum en einnig er hægt að spila pílu og pool. Heimafólkið er þeirra stærsti kúnnahópur en einnig kemur mikið af ferðafólki við hjá þeim.

 

Happy hour alla daga

,,Pizzurnar eru fyrirferðamestar og svo seljum við mikið af fish´n chips en einnig eru hamborgararnir og steikarlokurnar mjög vinsælar hjá okkur” segja Gylfi og Þormar. Það nýjasta hjá Papas er að bjóða uppá happy hour frá klukkan 17:00 – 19:00 alla daga og hefur það lagst mjög vel í heimamenn. Þá bjóða þau uppá bjór af krana eða léttvínsglas á 700 kr. 

 

Hægt að sækja eða senda

Þriðjudagstilboðið er gríðarlega vinsælt hjá Papas en það inniheldur miðstærð af pizzu með tveimur áleggjum á 1.000 kr. Svo eru önnur tilboð alla daga eins og stór pizza með tveimur áleggjum, sem er sótt á 1.850 kr. ,,Það hefur alltaf verið stefnan hjá okkur á Papas að bjóða sambærileg tilboð og eru í gangi í höfuðborginni” segja eigendurnir. Einnig hefur verið mjög vinsælt meðal heimamanna að panta sótt tilboð á djúpsteiktum þorskhnakka með frönskum og meðlæti. Einnig segja Gylfi og Þormar að kjúklingasalötin hafa ávallt verið mjög vinsæl hjá Grindavíkingum. Alltaf er hægt að sjá tilboðin og matseðilinn hjá Papas á heimasíðunni þeirra. Þar er hægt að panta og velja um að sækja eða fá sent heim á milli 17:00-21:00. Einnig er alltaf hægt að hringja fyrir pantanir.  

 

Staðsetning: Hafnargata 7

Heimasíða: www.papas.is

Opnunartími: Opið alla daga frá 11:30 - 21:00 og hægt að fá heimsendingu á milli 17-21. Happy hour er frá 17-19.

Sími: 426-9955

 

 

Umfjöllun og myndir eftir Láru Lind Jakobsdóttur


Deildu ţessari frétt