Íþróttamannvirki Grindavíkurbæjar hlutu þá viðurkenningu fyrir viku síðan að vera fyrsti vinnustaðurinn í Grindavík sem formlega hefur tekið það skref að vera hjólavænn vinnustaður. Íþróttamannvirkin fengu bronsvottun við þetta fyrsta skref. Þá hlaut tjaldsvæðið í Grindavík vottun sem hjólavænt tjaldsvæði. Tjaldsvæðið er annað tjaldsvæðið á Íslandi sem hlýtur þessa vottun.
Með vottuninni er verið að vinna að bættu umhverfi fyrir fjölbreyttar ferðavenjur. Í ávarpi Sesselju Traustadóttur framkvæmdastýru Hjólafærni á Íslandi kom m.a. fram að reynt væri að gera öllum auðveldara að velja hjólið til samgangna eða hvetja gesti og starfsmenn til að ferðast með strætó, koma á rafmagnsreiðhjóli/skútu eða hreinlega bara að ganga leiða sinna. Annar ferðamáti en einkabíllinn, léttir mjög á bæjarbrag Grindavíkur.
Með Hjólavottuninni styðjum við amk 5 atriði úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna:
Hjólavottunin var hluti af Hjóla- og göngudögum í Grindavík sem fram fóru 24.-27. júní. Fleiri vinnustaðir í bænum hafa hafið sína vegferð að rýna aðstæður fyrir reiðhjól á vinnustaðnum.
Hjólavottun vinnustaða varð til upp úr vinnustofu fyrirtækja, stofnanna og félagasamtaka sem komu saman til að leggja á ráðin um uppbyggingu í efldri reiðhjólamenningu á Íslandi í febrúar 2015. Það voru fulltrúar Vínbúðarinnar, Rio Tinto Alcan, Landsvirkjunar, Reykjavíkurborgar, Varðar, TRI, Landsbankans og Hjólafærni á Íslandi sem unnu áfram undir merkjum Hjólum.is og Hjólavottunin er eitt þeirra verkefna sem varð til í verkefninu og samfélagið nýtur góðs af.