Draumur ađ sjá eigin sýningu á sviđi

  • Fréttir
  • 1. júlí 2020

Unnur Guðrún Þórarinsdóttir er 18 ára Grindavíkingur sem undanfarið hefur stundað nám á listabraut í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Hún fékk tækifæri á að vera aðstoðarleikstjóri með Karli Ágústi Úlfssyni og vinna með Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni að verkinu Reimt sem sýnt var við skólann í vetur. Unnur Guðrún var í viðtali í síðasta tölublaði Járngerðar sem lesa má í heild sinni hér. 

Hefur uppgötvað sitt áhugasvið

„Fjölbrautaskólinn í Garðabæ er með frábæra listabraut, þar er fókuserað á að öllum gangi vel og líði vel. Til þess að útskrifast þurfum við að fara í ellefu leiklistaáfanga og eru þeir allir lærdómsríkir, vel uppsettir og kenndir af frábærum kennurum sem eru einar af mínum fyrirmyndum. Eftir áfangana Samsköpun, Leikstjórn og Skapandi skrif þá uppgötvaði ég mitt áhugasvið virkilega vel, sem er að skrifa og leikstýra og er ég mikill stjórnandi í mér,“ segir Unnur. Hún segir að í kjölfarið hafi hún ákveðið að skrifa sitt eigið verk sem sé ennþá í vinnslu. „Ég hætti í fótbolta og þá opnuðust aðrar dyr, að vera aðstoðarleikstjóri og sýningastjóri. Að fá að vinna með Karli Ágústi, Brynhildi Karlsdóttur og Þorvaldi Bjarna var gott tækifæri og ég gat auðvitað ekki hafnað því.“ 

Stökkpallur að fá að taka þátt í sýninguni

Unnur segist ekki hafa vitað út í hvaða laug hún væri að hoppa nema hún vissi að þetta væri ákveðin stökkpallur. „ Ég fann þá keiminn af því sem mig langar að gera í framtíðinni og núna í lok ferlis, þá er það virkilega skýrt að ég á heima á þessu sviði. Ég hef alltaf verið mikil listakona í mér, ávalt með tónleika heima og leikrit frá unga aldri, ég hef alltaf haft gaman að því að skrifa og semja, enda er það nú í ættinni,“ segir Unnur.

Sýningin Reimt fjallar um tvo heimsfræga skemmtikrafta sem plata sig til þess að fjárfesta í gömlu sveitahóteli, sem má muna fífil sinn fegurri. Á sama tíma finnst eldgömul beinagrind í grennd við hótelið, en hauskúpuna vantar. Í kjölfarið gerast rosalegir atburðir og það er deginum ljósara að á hótelinu er reimt. Þegar allt virðist vonlaust kemur hins vegar í ljós að reimleikar geta haft vissa kosti í förum sér, sérstaklega á tímum harðnandi samkeppni í ferðaþjónustu. 

Vann með miklu fagfólki

„Karl Ágúst auðvitað meistari í sínu fagi og hvað hann er alltaf opinn fyrir öllum hugmyndum. Hann leyfði krökkunum svo mikið að skapa sjálf. Þorvaldur Bjarni var með sturlaða tónlist og hvað þá texta sem nær manni í hvert sinn, gæsahúðin og tárin sem renna niður þegar lögin eru spiluð. Brynhildur Karlsdóttir er síðan með svo gott auga á öllu, dansarnir hjá henni eru ólýsanlegir, þú bara verður að koma og sjá hvað ég er að tala um, en að fá að vinna með þessu fagfólki hefur verið algjör draumur.“ 

Framundan að halda áfram að skapa

„Eftir Reimt þá sýni ég lokaverkefnið mitt í leiklist ásamt félaga mínum og síðan er það bara að halda áfram að skrifa, skapa og bíða eftir rétta tækifærinu og þróa listina áfram. 

Ef það væri einhver einn draumur eða draumaverkefni sem ég ætti að segja ykkur frá þá væri það að sjá mína eigin sýningu uppi á sviði, fulla af stolti og að gera mína nánustu stolta það væri nóg. 
Að lokum vil ég þakka fyrir tækifærið, fólkið mitt og REIMT. 


…...RÉTT EINS OG VATNIÐ SEM

AFTUR OG AFTUR

Í ÚTHAFIÐ HEFUR STREYMT

OG STREYMT

EINS RENNUR TÍMINN Í HRING

EFTIR HRING

ÞESS VEGNA ER HÉR REIMT.....


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 18. janúar 2021

Gym heilsa opnar aftur í dag 18. janúar

Fréttir / 14. janúar 2021

Rökkurró í Grindavík

Fréttir / 11. janúar 2021

Útveggir viđbyggingar Hópsskóla rísa

Fréttir / 5. janúar 2021

Ađstođarmatráđur óskast í Miđgarđ