Göngur í sumar - Ţorbjörn 

  • Gönguferđir
  • 23. júní 2020

Þá er komið að því að fjalla um bæjarfjall okkar Grindvíkinga.  

Þorbjörn er móbergsfell fyrir ofan Grindavíkurbæ. Fallegt útsýni er á toppnum yfir Grindavík, út að sjó og yfir stóran hluta Reykjaness. Mikil jarðhitamyndun er norðan fyrir við fjallið en þar er stórt jarðhitasvæði þar sem Bláa Lónið er til staðar og Svartsengi. Í norðurhlíð fjallsins er skógrækt og útivistarsvæði sem nefnist Selskógur. 

Fjallið varð til á ísöld við gos undir jökli og stendur á gosbelti en við það myndaðist mikill sigdalur á toppnum. Í seinni heimstyrjöldinni setti breski herinn upp bækistöð í sigdalnum og var þá lagður vegur upp á fjallið. Ennþá sjást einhver ummerki frá þeim tíma í dalnum. Efst á fjallinu eru einnig möstur og það hæsta um 40 metra hátt. 

Þjófagjá er nafn á sprungu uppi á miðjum Þorbirni en hún er nefnd eftir 15 þjófum sem höfðust við í gjánni og stálu féi Grindavíkinga. Voru þeir síðar meir plataðir til og hengdir í Gálgaklettum fyrir þjófnaðinn. 

Í janúar árið 2020 kom fjallið mikið fyrir í fréttum landsmanna vegna óvissustigs. Óvenjulega mikið landris var við fjallið og hækkaði það um allt að 12 sentímetra. Landrisið var talið vísbending um mögulega kvikusöfnun á svæðinu.  

Göngutími: 1-2 klst

Hæð: 243 m

Göngubyrjun: Bílastæði er við austanvert fjallið fyrir gönguleiðina upp veginn. Annað bílastæði er við Selskóg fyrir gönguleiðina þar.  

Gönguendir: Margir enda á sama stað. Einnig er hægt að ganga hring, byrja þá að ganga upp veginn og enda norðanmegin við fjallið  hjá Selskógi. 

Leiðarlýsing: Frekar auðfær og auðveld leið á skemmtilegt fjall. Hægt er að labba á Þorbjörn bæði að norðanverðu frá Selskógi og að austanverðu upp veginn. Einnig er hægt að labba Gyltustíginn á vesturöxl fjallsins.

 

Hér má nálgast upplýsingar um þær gönguleiðir sem þegar hafa verið kynntar á vef bæjarins. 


Deildu ţessari frétt