Undanfarið ár hefur verið unnið að breytingum á Kvikunni, menningarhúsi Grindvíkinga. Á síðasta ári var ráðist í ítarlega stefnumótunarvinnu fyrir húsið og er nú unnið út frá niðurstöðu þeirrar vinnu. Í byrjun árs fóru m.a. fram fjölmargir viðburðir í Kvikunni og á þriðja tug viðburða voru skipulagðir í húsinu í mars, apríl og maí.
Vel sóttir viðburðir
Það er í eðli menningarhúsa að leitast við að skapa umgjörð og aðstöðu fyrir hvers kyns menningarstarfsemi. Hvort heldur sem það eru fyrirlestrar, fundir, listsýningar, tónlistarviðburðir eða uppsetning á sviðslistaverkum.
Frá seinni hluta síðasta árs hefur markvisst verið unnið að því að fjölga viðburðum í Kvikunni. Má þar nefna barnaleikrit í desember, vel heppnaða þrettándagleði, opið hús vegna jarðhræringa, opna fundi, fyrirlestra, pólskar samverustundir og jógakvöld. Á sama tíma voru grunnsýningar hússins auðvitað opnar almenningi.
Nýr verkefnastjóri og vörumerki
Þó svo ekki fari fram viðburðir í húsinu og sýningarnar eru lokaðar er áfram unnið að næstu skrefum. Í byrjun árs tók til starfa verkefnastjóri framtíðarþróunar Kvikunnar líkt og áður hefur komið fram hér á síðunni.
Í vetur var Guðmundur Bernharð Flosason grafískur hönnður fenginn til að leiða vinnu við endurmörkun hússins. Kvikan hefur fengið nýtt vörumerki en litirnir og letrið tengjast stærri verkefni sem felst í endurmörkun viðburða. Grái liturinn er áberandi í allri hönnun hússins á meðan sá guli er áberandi á hafnarsvæðinu sem sést vel úr Kvikunni. Litir og letur tengjast stærra verkefni sem felst í endurmörkun sjávartengdrar ferðaþjónustu og viðburða í Grindavík.
Skemmtilegur fjölskylduratleikur um páskana
Kvikan mun á morgun gefa út skemmtilegan fjölskylduratleik á grindavik.is sem ungir sem aldnir geta tekið þátt í og notið í leiðnni útivistar innanbæjar yfir páskana. Við minnum auðvitað fólk að fara að öllu með gát og halda sig í 2ja metra fjarlægð frá öðrum.