Byrjum á okkur sjálfum og lesum meira

  • Fréttir
  • 8. janúar 2020

Sigríður Etna Marinósdóttir er 28 ára Tálknfirðingur sem nú í haust gaf út sína aðra barnabók um tvíburana Etnu og Enok. Í þessari bók hitta þau jólasveinana. 

Sigríður Etna Marinósdóttir er gift Grindvíkingnum Ingólfi Ágústssyni. Saman eiga þau dæturnar Ingibjörgu Etnu og Heklu Margréti. Etna hefur búið í Grindavík í sex ár og segir hún að henni og fjölskyldunni líði vel í Grindavík.  
Það er óhætt að segja að Etna hafi sett svip sinn á samfélagið í Grindavík því ekki aðeins hefur hún unnið mikið með unga fólkinu í Grindavík í gegnum félagsstarf Þrumunnar og Ungmennaráð Grindavíkur heldur lét hún nokkuð að sér kveða síðasta vor þegar hún stofnaði Rödd unga fólksins fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar ásamt hópi ungs fólks  Skemmst er frá því að segja að framboðinu gekk mjög vel og fékk næst flest atkvæði í kosningunum. 
Í dag er Etna í fæðingarorlofi en samhliða því sinnir hún formennsku í umhverfis- og ferðamálanefnd auk þess sem hún skrifar barnabækur. 

En hvað varð til þess að Etna byrjaði að skrifa barnasögur?
„Ég las mikið sem barn og fannst gaman að skrifa sögur. Kennari minn í grunnskóla sagði að ég ætti eftir að verða rithöfundur þegar ég yrði stór og það var góð hvatning. Í framhaldsskóla tók ég áfanga um barnabókmenntir. Eftir það jókst áhugi minn fyrir barnabókum og var ég búin að kaupa ansi margar barnabækur áður en ég átti stelpurnar mínar.“ 

Etna átti eldri dóttur sína árið 2014 og fór hún ekki á leikskóla fyrr en hún var að verða tveggja ára.“ Við höfðum því góðan tíma saman og fórum mikið vestur á Tálknafjörð til foreldra minna. En þau fluttu í sveit fyrir átta árum. Það var svo gaman að fylgjast með dóttur minni njóta sín í sveitinni og náttúrunni í kring og mig langaði að leyfa öðrum börnum að njóta þess líka. Þá ákvað ég að láta vaða og skrifa fyrstu barnabókina mína. Það ferli gekk vonum framar og núna verður erfitt að stoppa því hugmyndirnar eru svo margar.“ 

Hvaðan sækir þú innblásturinn?
Frá barnæsku minni og öðrum bókum, bæði barna- og fullorðinsbókum. Það er ekki vandamál að fá hugmyndir. Það er erfiðara að finna tíma til að koma þeim niður á blað. 

Er ekkert mál að gefa út bók?
Það er töluvert mikið mál. En ef áhuginn er fyrir hendi þá er ferlið spennandi. Maður þarf að hafa trú á sjálfum sér og hafa þrautseigju þegar vindar blása á móti manni. 

Margir ungir og nýir barnabókahöfundar hafa áhyggjur af minnkandi lestri barna. Hvernig ættum við að þínu mati að reyna að auka hann aftur?
Ég held að við ættum öll að byrja á því að líta í eigin barm. Við sem erum fullorðin eigum að vera fyrirmyndir barnanna. Byrjum á okkur sjálfum og lesum meira. 

Sigríður Etna ásamt manni sínum Ingólfi Ágústssyni og dætrum, þeim Ingibjörgu Etnu og Heklu Margréti.

Sigríður Etna áritar fyrri bókina sína um Etnu og Enok sem fara í sveitina á Bókasafni Grindavíkur


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Tónlistaskólafréttir / 14. júlí 2021

Tónlistarskóli Grindavíkur á N4

Fréttir / 8. júlí 2021

Hvolpasveitin í Grindavík

Fréttir / 6. júlí 2021

Gamli bćrinn og sveitin í Grindavík

Fréttir / 23. júní 2021

Ađstođarmatráđur óskast í 50% stöđu

Fréttir / 1. júlí 2021

Vel heppnađar smiđjur í Kvikunni

Fréttir / 1. júlí 2021

Hekla Eik besti ungi leikmađurinn

Fréttir / 25. júní 2021

Klara Bjarnadóttir nýr formađur UMFG