Járngerđur er komin út

  • Menningarfréttir
  • 6. mars 2019

Nýtt og veglegt blað Járngerðar er komið út og verður því dreift í hús hér í Grindavík, í kvöld og á morgun. Um er að ræða fyrsta tölublað ársins 2019 og er m.a. að finna glæsilega dagskrá Menningarviku Grindavíkur 9. - 17. mars næstkomandi ásamt fjölda skemmtilegra viðtala. Jón á Skála var t.d. heimsóttur á heimili sitt í Víðihlíð rétt eftir áramótin, nýir eigendur Bryggjunnar teknir tali, fjallað er um nýstofnaðan kvennakór og vinningsmyndin í Instagram-leiknum #grindavikvetur opinberuð en myndin er eftir Berglindi Kristjánsdóttur.

Forsíðu- og baksíðumynd tók Þráinn Kolbeinsson sem hefur vakið mikla athygli fyrir ótrúlega fallegar myndir á Instagram undir notendanafninu thrainnko. Fleiri myndir eftir hann má finna í blaðinu. Forsíðan er af Festarfjalli austan við Grindavík en þar má líka sjá fjöruna og bergið. Baksíðan er sami staður, en annað sjónarhorn. 

Ritstjóri og ábyrgðarmaður Járngerðar er Kristín María Birgisdóttir, upplýsinga- og markaðsfulltrúi. Prentun.is sá um umbrot og prentun. Hönnun merkis Menningarviku er eftir Gunnar Júlíusson hjá Dínamít en hann sá einnig um framsetningu og hönnun dagskrár sem finna má í miðju blaðsins. 

Sérstakar þakkir fá allir þeir sem komu að blaðinu með einum eða öðrum hætti. Lögðu til myndefni eða gáfu sér tíma í viðtal. 

Öll tölublöð Járngerðar frá upphafi eru aðgengileg á vefsíðu bæjarins á tengli á miðri síðunni eða hér. 

Þeir sem ekki hafa þolinmæði að bíða eftir að blaðið komi inn um bréfalúguna eða í póstkassann geta nálgast það á tengli hér fyrir neðan.

1. tbl. Járngerðar 2019 - netútgáfa

 

 

 


Deildu ţessari frétt