Kæru Grindvíkingar og aðrir sem heimsóttu hátíðina Sjóarann síkáta fyrstu helgina í júní!
Hátíðin í ár var vel sótt og heimamenn lögðust allir á eitt við að gera hátíðina sem glæsilegasta. Hátíð eins og Sjóarinn síkáti er samstarfsverkefni alls samfélagsins þar sem framlag hvers og eins glæðir gleðina lífi.
Skrúðgangan á föstudagskvöld var glæsileg, öll hverfin áttu sína fulltrúa í göngunni og framlag þeirra appelsínugulu á sviðinu var einkar vel heppnað. Bláir, rauðir og grænir láta það nú ekki gerast aftur að þeir appelsínugulu fái of mikið pláss á sviðinu og verða tilbúnir með sín atriði þegar við hittumst á ný að ári. Þið látið þá appelsínugulu ekki komast upp með að stela sigrinum án harðrar samkeppni!
Í ár tók Litabæjarstjórinn við völdum dagana fyrir hátíðina, fór á milli hverfa og hvatti íbúa til dáða. Sjóarinn síkáti vill þakka Litabæjarstjóranum fyrir sín störf og vonar að Litabæjarstjórinn sé tilbúinn áframhaldandi samstarf að ári.
Þátttaka Litabæjarstjórans glæddi undirbúninginn miklu lífi og ljóst að bæjarstjórinn er kominn til að vera en allt snýst þetta um þátttöku bæjarbúa – ungir sem aldnir taka þátt í að skapa skemmtilegan viðburð þar sem við skemmtum okkur saman og njótum alls þess góða sem bærinn okkar hefur uppá að bjóða. Litabæjarstjórinn var duglegur að nýta sér samfélagsmiðlana og hleypti þannig lífi í skreytingagleði bæjarbúa og metnað þeirra fyrir litfögrum og frumlegum útfærslum.
Fjöldi fyrirtækja aðstoðar við undirbúning og framkvæmd hátíðarinnar og þakkar Sjóarinn þeim fyrir stuðninginn. Án fjárhagslegs stuðnings fyrirtækja í Grindavík og þrotlausa hjálp við að framkvæma, er ekki hægt að bjóða heimamönnum og gestum til þeirrar veislu sem Sjóarinn síkáti er.
Grindavíkurbær og starfsmenn hans hafa veg og vanda að skipulagningu hátíðarinnar en samstarf við fyrirtæki og félagasamtök í Grindavík er forsenda þess að hægt sé að standa jafn myndarlega að hátíðinni og gert er. Opnir fundir voru haldnir í aðdraganda hátíðarinnar og hvetur Sjóarinn íbúa til þátttöku komandi á undirbúningsfundum auk þess sem fundir voru haldnir með þeim aðilum sem helst koma að skipulagi og framkvæmd þeirra viðburða sem eru á hátíðinni.
Miklar breytingar urðu á dagskrá hátíðarinnar í ár. Á föstudagskvöld voru atriði hverfanna og þátttaka íbúa í aðalhlutverki en á laugardagskvöld fengum við að hlusta á helstu tónlistarmenn þjóðarinnar á mögnuðum Bryggjutónleikum þar sem íslensk lög í bland við vel þekkt sjómannalög ómuðu. Í ár var sviðið mun stærra en verið hefur, hljóðkerfið hefur örugglega ýtt við jarðskjálftamælum og Sjóaranum sýndist heimamenn kunna vel að meta þessa breytingu.
Sjóarinn síkáti vill þakka öllum þeim fjölmörgu sem tóku þátt í hátíðarhöldunum, heimamönnum fyrir sinn þátt og að halda á lofti þeirri miklu fjölskyldustund sem Sjóarinn er og á að vera.
Að þessu sögðu býður Sjóarinn þeim sem áhuga hafa á að mæta á rýnifund fimmutdaginn 28. júní kl. 12:00 á bæjarskrifstofunum þar sem farið verður yfir framkvæmd hátíðarinnar, það sem vel gekk og það sem þarf að bæta.