Íslandsmeistaramótið í kasínu verður haldið á Sjóaranum síkáta annað árið í röð, og fer mótið fram á morgun, laugardag, kl. 13:00. Líkt og í fyrra verður keppt á Salthúsinu þar sem Láki tekur vel á móti keppendum af sínum alkunna höfðingskap.
Sigurbjörn Dagbjartsson, ríkjandi Íslandsmeistari, verður fjarri góðu gamni þetta árið þar sem hann er upptekinn við dúntekju og leitir í Svefneyjum á Breiðafirði. Þetta er því algjört dauðafæri fyrir kasínuspilara landsins að krækja í Íslandsmeistaratitilinn. Alls óvíst er þó hvort að Íslandsmeistaratitillinn tryggi þátttökurétt á Heimsmeistaramótinu.
Sigurbjörn sigurreifur með sigurlaun síðasta árs á Salthúsinu. Hvað eru mörg s í því?