Menningarvika 2018 gerđ upp

  • Menningarfréttir
  • 23. mars 2018

Menningarviku 2018 lauk síðastliðinn sunnudag eftir viðburðaríka viku. Fjölmargir viðburðir og sýningar stóðu Grindvíkingum og gestum þeirra til boða og voru sýningar, viðburðir og tónleikar mjög vel sóttir. Dagskráin var fjölbreytt að vanda og vonandi að flestir hafi fundið eitthvað við sitt hæfi. 

Menningarvikan hófst með opnun sýningar á verkum leikskólabarna á Laut og Heilsuleikskólanum Króki en sýningin HJARTSLÁTTUR – FÓLKIÐ SEM BYGGIR JÖRÐINA, var í Kvikunni. Börn, foreldrar og starfsmenn leikskólanna fjölmenntu á opnunina og börnin voru dugleg að heimsækja Kvikuna þá daga sem sýningin var opin og þá oftar en ekki með foreldra og afa og ömmu með sér í ferð og sýndu stolt afrakstur vinnu sinnar. Leikskólabörnin unnu sýninguna í samstarfi við Önnu Sigríði Sigurjónsdóttur, myndhöggvara, en hún var útnefnd bæjarlistamaður Grindavíkur á opnunarhátíðinni sem fram fór á laugardeginum 10. mars. 

Ungir listamenn í Grindavík voru í stóru hlutverki á opnunarhátíðinni en þátttakendur á námskeiði Söngskóla Emilíu sáu um tónlistarflutning á opnunarhátíðinni auk þess að halda tónleika í Kvikunni. 

Í Kvennó og húsnæði Framsóknarflokksins á Víkurbraut voru áhugaverðar sýningar. Í Kvennó sýningin SÖGUSLÓÐIR – Sá einn veit er víða ratar og á Víkurbraut sýning Sólveigar M. Jónsdóttur, ljósmyndara, ÞORPIÐ – Þórkötlustaðarhverfið. Í Kvennó lögðu margir leið sína og stoppuðu flestir lengi við enda eitt og annað forvitnilegt að skoða auk þess sem skemmtilegar umræður urðu oft og frásagnir og sögur voru sagðar af gestum sem margir hverjir þekktu til ævistarfs þeirra einstaklinga sem sjónum var beint að á sýningunni.  

Saga Grindavíkur í kringum 1930 var skoðuð með aðstoð sögu fjögurra einstaklinga, Sigvalda Kaldalóns, Einars Einarssonar í Krosshúsum, séra Brynjólfs Magnússonar og Ingibjargar Jónsdóttur. Gestir sýningarinnar ÞORÐIÐ fengu áhugaverða innsýn í líf íbúa Þórkötlustaðahverfis í samtímanum og létu gestir vel af því sem fyrir augu bar. 

Tónlistarskólinn í Grindavík og veitingahús bæjarins stóðu fyrir fjölbreyttum tónleikum og voru fjölmargir viðburðir á Fish House Bar&Grill, á Bryggjunni og Salthúsinu. Nemendur Tónlistarskólans héldu nokkra tónleika, Valgeir Guðjónsson, Grafík, Tríó Ómars Einarssonar, Blítt og létt og SSSól auk The Sunday Boys og Eyjólfs Ólafssonar héldu tónleika og höfðu íbúar tækifæri á að hlýða á fjölbreytta og vandaða tónlistardagskrá. 

Í Gjánni var málþing um ofþjálfun eða ofurþjálfun barna og unglinga og þeir Gauti Grétarsson sjúkraþjálfari og Sveinn Þorgeirsson, íþróttafræðingur fluttu áhugaverð erindi. Á Bryggjunni voru kynntar tvær nýjar bækur sem tengjast Grindavík órofa böndum og í Kvennó var boðað til málþings um Járngerðarstaðahverfi, skipulag og hugmyndir um framtíðar skipulag svæðisins. Í Kvennó voru sýnd myndbönd frá Viðari Oddgeirssyni en hann var um árabil starfsmaður RÚV og eftir hann liggur gott safn myndbrota frá ýmsum viðburðum í Grindavík á níunda og tíunda áratugum síðustu aldar. Myndböndin verða aðgengileg á heimasíðu Grindavíkurbæjar með tíð og tíma. 

Ólafur Ingi Jónsson, forvörður og Lilja Árnadóttir, fornleifafræðingur gáfu Grindvíkingum góð ráð um varðveislu muna og málverka, Stjörnu Sævar og Leikhópurinn Lotta heimsóttu unga fólkið en leikhópurinn sýndi verkið Galdrakarlinn í Oz við mikla ánægju gesta. 

Lokadag Menningarviku bauð Eyjólfur Ólafsson tónlistarkennari gestum á tónleika í Grindavíkurkirkju, þar sem hann flutti lög sín við góðar undirtektir og fleiri góðir gestir heimsóttu kirkjuna því karlakórinn The Sunday Boys fór með tónleikagesti í leiðangur um heima tónlistarinnar á mögnuðum tónleikum. 

Lokaviðburður Menningarviku var svo hið sívinsæla páskabingó Kvenfélags Grindavíkur þar sem yngri spilarar kepptu sín á milli um miðjan dag og þeir eldri um kvöldið. Þessi upptalning er ekki tæmandi fyrir þá fjölbreyttu viðburði sem voru á Menningarvikunni 2018. Vonandi hafa sem flestir fundið eitthvað við sitt hæfi og ef þú lumar á góðri hugmynd fyrir næstu Menningarviku sem verður að ári, er um að gera að koma henni til sviðsstjóra frístunda- og menningarsviðs á bjorg@grindavik.is

Að lokum viljum við koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem lögðu hönd á plóg við að fylla dagskrá Menningarviku af glæsilegum og fjölbreyttum viðburðum og um leið þakka öllum þeim gestum sem lögðu leið sína á téða viðburði fyrir komuna. Við sjáum ykkur vonandi aftur að ári. 
 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 10. apríl 2024

NIE ZAPOMINAJMY O OKAZJACH DO RADOSCI

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!