Að byrja í leikskóla er stórt skref ekki bara fyrir barnið heldur einnig fyrir foreldrana. Undanfarin ár höfum við haft Þátttökuaðlögun sem hefur reynst mjög vel bæði fyrir barnið,fjölskylduna og leikskólann. En hvað er Þátttökuaðlögun :
Þátttökuaðlögun
Leikskólinn er samfélag þar sem fullorðnir og börn byggja upp þekkingu saman og er staður námstækifæra. Barnið tekur virkan þátt í að móta umhverfi sitt og þekkingu. Í þeim anda er hin nýja aðlögun sem nefnd er þátttökuaðlögun. Hún byggist á því að ekki er verið að venja barnið við að vera skilið eftir í leikskólanum, heldur er það að læra að vera í nýjum aðstæðum.
Þátttökuaðlögunin byggir m.a. á þeirri trú að foreldrar yfirfæri eigin öryggiskennd og forvitni í þessum nýju aðstæðum, á börnin sín. Með því að foreldrar séu þátttakendur frá fyrsta degi öðlist þeir öryggi um dagskipulagið og það nám og starf sem fram fer á leikskólanum. Þeir kynnast kennurum, öðrum börnum, foreldrum og starfinu í leikskólanum.
Foreldrar eru inni á heimastofu með barninu allan tímann (nema þegar þau sofa). Foreldrar sinna barni sínu, skipta á, gefa barninu að borða, leika með og eru til staðar fyrir barnið. Kennarar eru virkir þátttakendur í aðlöguninni, þeir skipuleggja daginn og deila verkefnum. Á fjórða degi koma börnin um morguninn og kveðja foreldrana fljótlega. Einstaka börn þurfa að hafa foreldra sína með sér í lengri tíma en reynslan sýnir að þau eru fá.
Yfirleitt stendur aðlögun yfir í fjóra daga en einstaka barn þarf aðeins lengri tíma, það er einstaklingsbundið og metið í hvert sinn. Sama á við ef um eldri börn er að ræða þá er það metið út frá hverjum einstaklingi.
Gagnlegar upplýsingar: