Smellið hér til að tilkynna um einelti
Skilgreining á einelti
Einelti er endurtekið ofbeldi, sem stýrt er af einstaklingi eða hópi og beinist að ákveðnum einstaklingi.
Einelti getur verið beint eða óbeint. Með beinu einelti er átt við líkamlegt ofbeldi eins og spörk, högg, blótsyrði, niðurlægjandi og háðslegar athugasemdir eða hótanir. Óbeint einelti er þegar einstaklingur er útilokaður frá félagahópnum, verður fyrir illu umtali, óviðeigandi augngotum og/eða svipbrigðum. Rafrænt einelti er notað yfir þá tegund eineltis þegar internetið, GSM símar og hverskonar rafrænir miðlar eru notaðir til að koma á framfæri niðrandi og oft á tíðum meiðandi ummælum um annan einstakling.
Ekki er um að ræða einelti ef atvikið á sér stað einu sinni. Stríðni verður hins vegar að einelti þegar um endurtekið áreiti í langan tíma af einum eða fleiri er að ræða.
Stefnuyfirlýsing Grunnskóla Grindavíkur
• Einelti er ekki liðið í Grunnskóla Grindavíkur.
• Í Grunnskóla Grindavíkur á að segja frá einelti.
• Starfsfólk skólans telur mjög mikilvægt að öllum líði vel í skólanum.
• Starfsfólk telur mjög mikilvægt að sá grundvallarréttur að fá að vera óáreittur sé virtur.
Forvarnir til varnar einelti:
Þættir sem er unnið með á stigi eða í öllum skólanum.
1) Vinaliðar á yngsta og miðstigi.
2) Nemendafulltrúaráð (Stuðboltar) í öllum bekkjum.
3) Uppeldi til ábyrgðar í öllum bekkjum.
4) Bekkjarfundir í öllum bekkjum.
5) Unnið með jákvæð samskipti í öllum bekkjum.
6) Tengslakannanir lagðar fyrir eftir þörfum.
7) Unnið verði að bekkjarsáttmála í öllum bekkjum
8) Vinabekkir til að styrkja tengsl yngri og eldri nemenda.
9) Skólapúlsinn lagður fyrir 6.-10. bekk
Bekkur | Markmið: | Hvað er gert: |
1. bekkur | Að byrja vel í skóla. | Í samvinnu við heimilið er unnið með líðan í byrjun skólagöngunnar. Núvitund á bekkjarvísu 1x í viku á sal í upphafi skóladags. Jákvæðniverkefni. |
2. bekkur | Að efla bekkjarandann. | ART í smiðjum, allir taka þátt. Vinaliðar skipuleggja leiki í frímínútum. Núvitund á bekkjarvísu 1x í viku á sal í upphafi skóladags. Jákvæðniverkefni. |
3. bekkur | Að geta sýnt umburðarlyndi. | Vinaliðar skipuleggja leiki í frímínútum. Unnið með færslu á milli skóla. Nemendur í núvitund í smiðjum. Núvitund á bekkjavísu 1x í viku á sal í upphafi skóladags. Jákvæðniverkefni. |
4. bekkur | Að byrja í nýjum skóla á jákvæðan hátt. | Vinaliðar skipuleggja leiki í frímínútum. „Spor 4“, lífsleikniefni. Vinna með dyggðir. Núvitund 1x í viku á sal í upphafi skóladags. Jákvæðniverkefni. |
5. bekkur | Að allir geti tekið þátt í leikjum. | Vinaliðar skipuleggja leiki í frímínútum. Unnið með þarfirnar, mitt og þitt hlutverk og samskipti almennt. Lýðræðisvinna. Núvitund 1x í viku á sal í upphafi skóladags. Jákvæðniverkefni. |
6. bekkur | Að þekkja eigin líðan. | Vinaliðar skipuleggja leiki í frímínútum. Unnið með örugga netnotkun og samskipti á netinu. Núvitund 1x í viku á sal í upphafi skóladags. Jákvæðniverkefni. |
7. bekkur | Að vera jákvæður unglingur. | „Ég er bara ég.“ Hver og einn á að fá að vera hann sjálfur. Jákvæðniverkefni. |
8. bekkur | Að verða fullorðinn. | Sjá um dag gegn einelti (8.nóvember). Jákvæðniverkefni. |
9. bekkur | Að eiga vini. | Þá er áhersla á vinnu með uppbyggingarstefnuna að leiðarsljósi. Auka víðsýni og skilning á mismuni einstaklinga. Jákvæðniverkefni. |
10. bekkur | Að efla vellíðan, jákvæða félagslega hegðun og tilfinningalegt jafnvægi bæði nemenda og kennara. | Að gera sér grein fyrir hlutverki hvers og eins þegar kemur að vináttu og ábyrgð. Jákvæðniverkefni. |
Fleiri fyrirbyggjandi aðgerðir
• Jákvæð, uppbyggileg samskipti starfsfólks og nemenda.
• Forvarnir með áherslu á jákvæðan skólabrag.
• Unnið í anda uppbyggingastefnunnar í samskiptamálum.
• Starfsfólk fylgist vel með samskiptum nemenda og gerir umsjónarkennara viðvart ef það hefur grun um einelti.
• Nemendur eiga öruggt skjól hjá starfsfólki.
• Umhyggjusamt viðmót starfsfólks og góð framkoma við nemendur myndar góðan skólabrag.
• Nemendafulltrúaráð og nemendaráð funda um mikilvægi jákvæðra samskipta og skólabrags.
• Deildarstjórar og námsráðgjafi fara í bekki á haustin og ræða samskipti og jákvæðan skólabrag.
• Tryggt skal að gæsla sé í frímínútum og á þeim stöðum þar sem nemendur dvelja utan kennslustunda.
• Unnið með ART í öllum árgöngum á einstaklingsnótum.
Fræðsla um samskipti, vináttu og einelti - Vanda Sigurgeirsdóttir.
Grunnskóli Grindavíkur er í samstarfi við Vöndu Sigurgeirsdóttur sérfræðing á Menntavísindasviði HÍ.
Á hverju ári heldur Vanda fræðslufundi um samskipti fyrir nemendur og foreldra sem hér segir:
1) Á árlegum kynningarfundi fyrir foreldra/forráðamenn væntanlegra 1. bekkinga heldur Vanda fræðsluerindi um samskipti, vináttu og einelti. Þessir fundir fara fram í júní eða ágúst og eru fastur liður í undirbúningi fyrir skólastarfið.
2) Nemendur 4. bekkja fá á hverju hausti fræðslu um samskipti og leiðbeiningar um hvernig þeir eiga að bregðast við í erfiðum aðstæðum. Einnig fundar Vanda með umsjónarkennurum 4. bekkja eftir að hún hefur frætt nemendur.
3) Sama dag og 4. bekkingar fá fræðslu heldur Vanda fræðsluerindi fyrir foreldra 4. bekkinga um samskipti, vináttu og einelti.
4) Reglulega (annað hvert skólaár) heldur Vanda fyrirlestra fyrir starfsfólk þar sem hún fjallar um hvernig við getum fundið þá einstaklinga sem þurfa sérstakan stuðning, hvað hægt er að gera með þeim til að breyta hegðuninni. Einnig fjallar hún um vináttu, vináttuþjálfun, félagsleg samskipti og hvernig hægt er að kenna börnum að leysa sjálfum úr vandamálum. Einnig býður Vanda upp á ráðgjöf þá daga sem hún dvelur í Grunnskóla Grindavíkur.
Eineltisteymi
Í skólanum starfar hópur sem sameiginlega leitar leiða þegar grunur um einelti kemur upp. Hlutverk eineltisteymis er að taka til meðferðar mál, sem ekki hefur tekist að leysa hjá umsjónarkennara og deildarstjóra. Þá tekur teymið einnig upp mál sem eru tilkynnt á hnappi á heimasíðu GG eða er vísað beint til teymisins. Teymið hefur umsjón með vinnu eineltismála innan skólans og veitir kennurum, nemendum og foreldrum leiðsögn. Í eineltisteymi Grunnskóla Grindavíkur eru þrír fulltrúar. Þessir fulltrúar eru þroskaþjálfi og/eða kennarar sem eru ekki umsjónarkennarar. Einn af þessum þremur aðilum er verkefnastjóri og heldur utan um störf teymisins, mál og fundi. Þegar mál eru unnin eru tveir úr teyminu sem stýra fundi/viðtali
Eineltisteymi fundar einu sinni í viku eða eftir þörfum og fer yfir stöðu mála í skólanum. Eineltisteymi fer reglulega yfir niðurstöður Skólapúlsins.
Tilkynning vegna gruns um einelti
Tilkynning um grun um einelti eða ábendingar geta borist skólanum með ýmsum hætti.
• Á heimasíðu Grunnskóla Grindavíkur er tilkynningahnappur þar sem hægt er að tilkynna grun um einelti.
• Tilkynningin berst beint til skólastjóra.
• Tilkynning til umsjónarkennara og/eða alls starfsfólks skóla eða skólaskrifstofu.
Í kjölfar tilkynningar vegna gruns um einelti er unnið eftir vinnuferli eineltisteymis og vinnureglum.
Vinnureglur eineltisteymis
Þegar talið er að um einelti sé að ræða fer eftirfarandi ferli í gang:
• Aðilar úr eineltisteymi taka viðtal við meintan þolanda og foreldra hans.
• Aðilar úr eineltisteymi taka viðtal við meintan geranda/gerendur ásamt foreldrum.
• Gögnum safnað s.s. skráningar úr Mentor, tengslakannanir, upplýsingar frá kennurum, starfsfólki og nemendum.
• Eineltisteymi kemur saman, metur stöðuna og gerir aðgerðaáætlun.
• Umsjónarkennari ber ábyrgð á eftirfylgni s.s. skráningu.
• Ef um einelti er að ræða leggja aðilar úr eineltisteymi fram aðgerðaáætlun á fundi með geranda og foreldrum hans.
• Starfsmönnum skólans ásamt starfsmönnum íþróttamannvirkja tilkynnt um eineltið (með tölvupósti sem ber að eyða að loknum lestri eða á starfsmannafundi) og þeir hvattir til að fylgjast með og skrá í Mentor ef ástæða er til. Þeir sem ekki hafa aðgang að Mentor nota skráningarblöð.
• Reglulega eru haldnir fundir með þolanda og geranda/gerendum og foreldrum þeirra
• Þegar þolandi og foreldrar hans segja að eineltinu sé lokið, er það tilkynnt öllum starfsmönnun skólans.
• Æskilegt er að strax sé gripið til aðgerða þannig að eineltið stoppi og ekki líði meira en mánuður þar til niðurstaða hefur fengist í vinnslu máls.
• Áætlunin er endurskoðuð í maí ár hvert og kynnt kennurum á hausti á deildarfundum.
Ábyrgð kennara
• Vinna með góð samskipti, umburðarlyndi, kenna nemendum að setja sig í spor annarra og bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Kennarar vinna með grunnþætti uppbyggingastefnunnar skv. áætlun.
• Reglulegir bekkjarfundir.
• Fræðsla um einelti og eineltisáætlun kynnt fyrir nemendum og foreldrum.
• Tengslakönnun og eftirfylgni - Kynna niðurstöður bæði foreldrum og nemendum.
Ábyrgð heimila
Grunnur að góðum samskiptum er lagður á unga aldri og eru foreldrar bestu fyrirmyndir barna sinna. Foreldrar eru hvattir til að ræða reglulega um samskipti og líðan við börn sín. Ef þeir hafa áhyggjur af líðan barnanna er mikilvægt að hafa strax samband við umsjónarkennara og einnig ef þeir hafa grun um einelti í bekknum eða skólanum. Gott samstarf og upplýsingaflæði milli heimila og skóla er grundvöllur þess að vel gangi að sporna við einelti.