Seltjarnarnes er draumarsveitarfélagið árið 2015, samkvæmt ítarlegri úttekt Vísbendingar á fjárhagslegum styrk sveitarfélaga. Seltjarnarnes fær ágætiseinkunn, 9.0, á skalanum 0 til 10. Á eftir Seltjarnarnesi kemur Garðabær með einkunnina 8.1 og Grindavíkurbær þar á eftir með einkunnina 8.0. Grindavík fer upp um eitt sæti. Grindavík var í 10. sæti árið 2013 þannig að bærinn okkar hefur farið hratt upp listann.
Langsamlega stærsta sveitarfélag landsins, Reykjavíkurborg, er í 22. sæti með einkunnina 5,5 en í neðsta sæti í úttektinni á fjárhag 36 stærstu sveitarfélaganna er Hafnarfjörður með einkuninna 3.0.
Í úttektinni, sem byggð er á útreikningum upp úr ársreikningum sveitarfélaga, sem Samband íslenskra sveitarfélaga tekur saman, kemur fram að einkunn hafi hækkað hjá meira en helmingi sveitarfélaganna milli ára, en samt séu blikur á lofti í rekstrinum, meðal annars vegna þess að fyrirsjáanlegt sé að launakostnaður muni hækka.
Þá er á það bent að nauðsynlegt sé fyrir sveitarfélög að ná fram stærðarhagkvæmni í rekstri með sameiningum.