Í gær var haldinn sameiginlegur vinnufundur bæjaryfirvalda og íþróttahreyfingarinnar í Grindavík.
Í viðauka við samning Grindavíkurbæjar og UMFG um eflingu íþróttastarfs sem undirritaður var á gamlársdag kemur eftirfarandi fram:
I. Fulltrúar allra deilda (formenn) taka þátt í vinnu með frístunda- og menningarnefnd um stefnumörkun íþróttamála fyrir samfélagið í heild sinni. Það felur í sér;
a. Vinnufund í upphafi árs með frístunda- og menningarnefnd þar sem komist verði að sameiginlegum markmiðum Grindavíkurbæjar og UMFG um íþróttastarf.
b. Skoðunar- og vinnuferð í byrjun febrúar. Farið verði í heimsókn til tveggja sambærilegra sveitarfélaga og fræðst um samstarf þeirra við íþróttahreyfinguna og skoðuð íþróttamannvirki. Í framhaldi verði unnið að gerð stefnumótunar.
Sambærilegt ákvæði hefur verið sett inn í viðauka sambærilegs samnings við Golfklúbb Grindavíkur.
Þar sem hér er talað um stefnumörkun fyrir samfélagið í heild sinni samþykkti frístunda- og menningarnefnd á fundi sínum þann 3. janúar sl. að til þessa fundar yrðu boðaðir fulltrúar allra íþróttafélaga í Grindavík þó svo ekki væri um það neinn samningur eins og í tilfelli Hestamannafélagsins.
Á fundinum var Sævar Kristinsson ráðgjafi hjá Netspor með innlegg/erindi um stefnumótunarvinnu og í framhaldi stýrði hann vinnu þar sem fulltrúar bæjarins (bæjarstjórn og frístunda- og menningarnefnd) og fulltrúar íþróttahreyfingarinnar komu með tillögur að sameiginlegum markmiðum með íþróttastarfi í Grindavík.
Niðurstöður þessa vinnufundar verða síðan notaðar til að gera gott íþróttastarf enn betra. Fundurinn þótt mjög góður og jákvæður andi ríkti.