Listaverk

  • Frístunda og menningarmál
  • 18. mars 2009

Minnisvarði sjómanna - Vonin
Á sjómannadaginn 1980 var afhjúpaður minnisvarðinn Von, reistur eftir verki Ragnars Kjartanssonar, myndhöggvara. Minnisvarðinn „Von" sýnir sjómannsfjölskylduna horfa út á hafið í von um að fjölskyldufaðirinn komist heill í höfn. Á minnisvarðanum stendur ritað: ,,Í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera; Jes. 30.15"
Eftir hörmulegt sjóslys í janúar 1952 þar sem Grindvíkingur GK 39 fórst með fimm manna áhöfn við Hópsnes í ofsaveðri, ákvað Kvenfélag Grindavíkur að stofna sjóð til minningar um drukknaða sjómenn og var tekna aflað með ýmsu móti, m.a. með sölu minningarkorta. Sjómannafélag Grindavíkur, Útvegsmannafélag Grindavíkur og bæjarstjórn komu einnig að undirbúningi og framkvæmd málsins. (Heimild: Sjómannadagsblað Grindavíkur árið 2000).

Orka
Árið 2008 efndi Grindavíkurbær til samkeppni um listaverk á þremur hringtorgum í bænum.

Listaverkin þrjú sem valin voru vísa sterkt til umhverfis Grindavíkur og bera nöfnin Orka, Afl og Segl.

Fyrsta listaverkið, Orka, sem er eftir listakonuna Lindu Oddsdóttur, var sett á hringtorgið við innkomuna í bænum og var vígt formlega í febrúar 2009.

Afl hafsins og Dans seglanna

Listaverkin Afl hafsins og Dans seglanna eftir Guðbjörgu Hlíf Pálsdóttur listakonu voru vígð við hátíðlega athöfn á hringtorgunum við Hópsbraut fimmtudaginn 4. júní 2009. 

Listaverkin setja mikinn svip á hringtorgin líkt og listaverið Orka eftir Lindu Oddsdóttur á Víkurbrautinni sem var afhjúpað í febrúar.

 Við vígsluna sagði Guðbjörg frá hugmyndum sínum á bak við listaverkin en þau tengjast undirstöðu atvinnuvegi þjóðarinnar. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir bæjarstjóri þakkaði listakonunni fyrir þessu frábæru verk og sagði þau vera sannkölluð bæjarprýði.

Sigvaldi Kaldalóns
Minnismerki um lækninn og tónskáldið Sigvalda Kaldalóns var vígt 10. nóvember 1996 en það er staðsett við Kvennó. Af því tilefni flutti Gunnlaugur A. Jónsson, barnabarn Sigvalda, ávarp í Kvenfélagshúsinu:

Góðir áheyrendur!
Fyrir hönd Kaldalónsfjölskyldunnar vil ég af heilum hug þakka þá ræktarsemi sem þið Grindvíkingar sýnið minningu afa míns, Sigvalda S. Kaldalóns, læknis og tónskálds, með því að reisa honum fagran minnisvarða og boða af því tilefni í dag til þessarar ánægjulegu samkomu nú á 50. ártíð Sigvalda.

Þessi ræktarsemi ykkar og trúfesti við minningu Sigvalda Kaldalóns er í fullu samræmi við hlýhug Grindvíkinga og velvild í hans garð alveg frá byrjun, og raunar í takt við aðdragandann að því að hann settist að hér í Grindavík þegar hann var skipaður héraðslæknir í Keflavíkurhéraði árið 1929 í óþökk Læknafélagsins. Sú saga er kunnari en svo að hana þurfi að rifja upp.

En óhætt er að segja að Grindvíkingar hafi tekið hinum nýskipaða lækni opnum örmum með Einar í Garðhúsum í broddi fylkingar sem tók Sigvalda og fjölskyldu hans inn á heimili sitt meðan verið var að reisa honum læknisbústað hér í Grindavík.

Það fer vel á því að minnisvarðinn um Sigvalda skuli reistur hér við Kvenfélagshúsið því með því félagi starfaði Sigvaldi mikið enda lét hann jafnan mikið til sín taka á sviði menningarmála í Grindavík og hefur Einar Einarsson skólastjóri í Grindavík komist þannig að orði að ár Sigvalda hér hafi verið eins og „menningarleg vígsla í héraðinu" og að áhrifin af veru hans hér verði aldrei þurrkuð út, og víst er um það að lögin "Suðurnesjamenn" og "Góðan daginn Grindvíkingur" munu seint gleymast Suðurnesjamönnum.

Í Grindavík bjuggu þau hjónin Sigvaldi og Margrete Kaldalóns í fimmtán ár og voru árin hér að mörgu leyti frjóustu ár Sigvalda á tónlistarsviðinu þrátt fyrir að hann ætti lengst af við heilsuleysi að stríða. Margir hafa orðið til að vitna um þá miklu gestrisni sem einkenndi menningarheimili þeirra hjóna.

Margir af kunnustu listamönnum þessarar þjóðar dvöldu á heimili þeirra lengri eða skemmri tíma. Má þar nefna Gunnlaug Scheving listmálara, Stein Steinarr skáld og Ríkharð Jónsson myndhöggvara að ógleymdum bróður Sigvalda, Eggerti Stefánssyni rithöfundi og söngvara.

Í sumum tilfellum var dvöl þessara kunnu listamanna á heimili Sigvalda ekki aðeins lyftistöng fyrir menningarlíf í Grindavík heldur fyrir alla þjóðina. Þannig hafa Grindavíkurár Gunnlaugs Scheving hlotið þann sess að vera sérstakur kapítuli í sögu íslenskrar myndlistar, eins konar óður til íslenskra sjómanna með svipuðum hætti og lag Sigvalda Kaldalóns „Suðurnesjamenn".

Móðir mín, Selma Kaldalóns, hefur lýst því hvernig faðir hennar samdi lög sín: "Hann samdi þegar hann var í stemmningu," hefur hún sagt og bætir við: "Hann samdi stundum úti á göngu, raulaði þá fyrir sér lagstúf og spilaði strax, þegar hann kom heim. Oft samdi hann líka seint á kvöldin eða á nóttunni. Það kom líka fyrir, að hann reis frá matborðinu og gekk að hljóðfærinu til þess að leika það, sem þá sótti á hann. Hann hafði þörf fyrir að láta aðra njóta með sér og stundum fór hann út á götu og mætti kannski sjómanni, sem var að koma upp úr skipi, og sagði við hann: - Komdu snöggvast inn með mér, ég ætla að spila fyrir þig lag, - það er nýtt lag."

Sigvaldi varð snemma mjög heilsuveill, og þegar þar við bættist að hann gat aðeins lagt stund á tónsmíðar í hjáverkum frá annasömum læknisstörfum er með ólíkindum hve miklu hann fékk áorkað. Það er þó ekki magn tónsmíðanna sem mun halda nafni hans á lofti um ókomin ár heldur sú staðreynd að fjölmörg laga hans urðu svo að segja á svipstundu þjóðareign og eru það enn þann dag í dag.

Jóhanns skáld úr Kötlum komst þannig að orði um tónlist Sigvalda í minningargrein:

„Vart mun finnast sú sál á Íslandi, að hún hafi ekki einhverju sinni orðið snortin af söngvum hans, vart sú rödd, sem ekki hefur reynt að taka undir þá. Eins og mild kveðja vorboðans hafa þeir borizt efst upp í dali, yzt út á nes, bóndinn hefur raulað þá yfir fé, sjómaðurinn á vaktinni, heimasætan á meðan hún beið unnustan síns. Þetta eru tónar alþýðunnar í upphafningu norræns blóma, yljaðir af hjartaglóð snillingsins. Þetta eru tónar, sem allir skilja og eiga og þess vegna geta þeir ekki dáið."

Það var ekki ætlun mín að rekja hér æviferil afa míns, Sigvalda Kaldalóns, heldur fyrst og fremst að þakka ykkur Grindvíkingum fyrir þá ræktarsemi sem þeir hafa nú í dag með svo afgerandi hætti sýnt minningu Sigvalda Kaldalóns. Alveg sérstaklega vil ég þakka menningarmálanefnd Grindavíkur fyrir hennar þátt í þessu máli og ánægjuleg kynni af nefndarmönnum meðan á undirbúningi þessarar minningarhátíðar hefur staðið.

Af kynnum mínum af því ágæta fólki er ég þess fullviss að menningarmálin eru í góðum höndum hér í Grindavík sem fyrr.

Enn á ný: Kærar þakkir og til hamingju með minnisvarðann.


Glerlistaverk um Tyrkjaránið
Á Sjómannadaginn 2001 var afhjúpað glerlistaverk um Tyrkjaránið við Grindavíkurvirkju. Verkið er eftir listamanninn Einar Lárusson. Á því er að finna lýsingu á Tyrkjaráninu á sex tungumálum

Það var um Jónsmessuna 1927 að skip kom að Grindavíkurströndum. Íbúafjöldinn var nálægt 180 manns. Búðir kaupmannsins danska stóðu þá í Járngerðarstaðalandi.
Á Járngerðarstaðavíkinni lá danskt kaupskip. Lauritz Bentson, Grindavíkurkaupmaður, sendi átta Íslendinga að aðkomuskipinu. Þegar þeir komu um borð voru þeir umsvifalaust herteknir. Upplýst varð að fátt væri um varnir í landi. Foringi „Tyrkjanna", Amorath Reis, fór frá skipi sínu með þrjátíu vopnaða menn. Þeir byrjuðu á því að hertaka danska skipstjórann og tvo menn með honum, rændu kaupmannsbúðina, en kaupmaður flúði og með honum aðrir Danir.

Þá gerðist margt á örfáum klukkustundum. „Tyrkirnir" snéru sér að Grindvíkingunum. Þeir skunduðu eftir sjávargötunni heim að Járngerðarstöðum. „Tyrkjunum" lá á því þeir gátu alveg eins átt von á að kaupmaðurinn sneri aftur með lið manns. Í bænum gripu þeir Guðrúnu Jónsdóttur, konu Jóns Guðlaugssonar. Hún var borin nauðug frá bænum. Í götunni kom þar að bróðir Guðrúnar, Filippus. Þegar hann reyndi að koma henni til hjálpar var hann barinn og skilinn eftir hálfdauður. Annar bróðir Guðrúnar, Hjálmar, bar þá þar að ríðandi. Tóku „Tyrkir" hestinn af honum og stungu. Lá Hjálmar óvígur eftir.
„Tyrkir" rændu fé úr bænum á Járngerðarstöðum, tóku Halldór Jónsson, bróður Guðrúnar og tvo sonu hennar, Helga og Héðinn, en bróðir hennar, Jón, hafði verið einn af þeim átta, sem fóru út í skipið í upphafi. Jón Guðlaugsson, bónda á Járngerðarstöðum ráku „Tyrkir" til strandar með sonum hans og Halldóri, en vegna þess að Jón var þá orðinn aldraður maður og veikur gáfu þeir hann lausan er hann féll við í fjörunni. Stúlku eina, Guðrúnu Rafnsdóttur, tóku þeir með húsfrúnni og færðu til skips.
Þennan örlagaríka morgun var 12 Íslendingum, þarf af helmingur Grindvíkingar, og þremur Dönum, rænt í Grindavík.

Á útleið ginntu „Tyrkir" hafskip á leið til vesturs til sín með fölsku flaggi. Þeir hertóku það skip. Áður en „Tyrkir yfirgáfu Grindarvíkursjó gáfu þeir tveimur mönnum, sem höfðu verið um borð í skipsbátnum, burtfararleyfi. Þeir náðu bát sínum og réru til lands. Eftir þetta fóru ræningjarnir burt frá Grindavík. Loks héldu þeir til heimahafnar í borginni Salé í Marokkó.
Afdrif Grindvíkinganna, sem rænt var, urðu með ýmsu móti. Þau Guðrún Jónsdóttir og Halldór bróðir hennar voru aðeins skamma hríð í þrældómi í Alsír. Komust þau til Danmerkur 1628 og heim til Íslands með vorskipunum sama ár. Halldór samdi rit um Tyrkjaránið. Um afdrif Guðrúnar Rafnsdóttur er ekki vitað. Árið 1630 skrifuðu þeir bræður Jón og Helgi foreldrum sínum bréf og voru þeir þá þrælar. Helgi varð frjáls eftir fjársöfnun 1636. Komst hann heim setti ásamt eiginkonu sinni saman bú á Járngerðarstöðum.
Jón bróðir hans, Héðinn og Jón Jónsson, móðurbróðir þeirra, hvíla sennilega í afrískri mold. Sama gildir um bátsverjana fimm, sem reru út að ræningjaskipinu þennan morgun 1627.

Þótt sjóræningarnir hafi jafnan verið nefndir „Tyrkir", sem var þá samheiti yfir alla múslima í grennd við Miðjarðarhafið, hafa þeir að öllum líkindum verið Evrópubúar. (Heimild: www.ferlir.is)


Minnisvarði um sr. Odd V. Gíslason
Minnisvarði um sr. Odd V. Gíslason var afhjúpaður í kirkjugarðinum á Stað í Grindavík 22. september 1990. Sr. Oddur var prestur í Grindavík og Höfnum 1878-1894 og var mikill forvígismaður um slysavarnir og fræðslu í þeim efnum. Sr. Oddur stofnaði bjargráðanefndir um allt land sem voru undanfarar slysavarnadeilda sem voru stofnaðar seinna.
Minnisvarðinn var gerður af listamanninum Gesti Þorgrímssyni, steyptur í brons og stendur á áletruðum steini. Hann var reistur að frumkvæði sóknarnefnda Grindavíkur og Hafna auk ættinga sr. Odds og Slysavarnarfélags Íslands. Ragnheiður Jóhannesdóttir, ekkja Odds Ólafssonar læknis að Reykjalundi, afhjúpaði styttuna af sr. Oddi. Oddur var dóttursonur sr. Odds.
Við athöfnina tóku til máls Svavar Árnason, formaður sóknarnefndar, og herra Ólafur Skúlason, biskup yfir Íslandi, sem minntust sr. Odds og starfa hans. Eftir athöfnina í Staðarkirkjugarði bauð bæjarstjórn Grindavíkur til kaffisamsætis í félagsheimilinu Festi. Þar rakti Gunnar Tómasson, varaforseti Slysavarnarfélags Íslands, æviferil Odds. Þar kom m.a. fram að hann fór ekki alltaf troðnar slóðir og var orðinn þjóðsagnarpersóna í lifanda lífi. Fræg er sagan af Oddi þegar hann rændi brúði sinni, Önnu Vilhjálmsdóttur, frá Kirkjuvogi í Höfnum, á gamlársdag árið 1870 til að giftast henni. (Heimild: Sjómannadagsblað Grindavíkur 1991).


Deildu ţessari frétt

AĐRAR SÍĐUR