Međferđ trúnađarupplýsinga

  • 23. mars 2009

Reglur Grindavíkurbæjar um meðferð trúnaðarupplýsinga og viðskipti innherja.
Settar á grundvelli laga nr. 13/1996

1.0 Markmið og tilgangur
Reglunum er ætlað að veita leiðbeiningar fyrir þá aðila sem eftir þeim eiga að fara til þess að uppfylla þær kröfur sem lög og reglur sem gilda um verðbréfamarkað gera. Jafnframt eiga þær að virka sem hvatning fyrir þessa aðila að kynna sér löggjöf á verðbréfamarkaði á almennan hátt.

Reglunum er ætlað að upplýsa þá sem eftir þeim eiga að fara um þær skyldur sem hvíla á útgefenda verðbréfa og hvernig þær hafa áhrif á stjórnendur, starfsmenn og aðra aðila. Reglunum er jafnframt ætlað að stuðla að því að starfsemi Grindavíkurbæjar taki mið af og verndi þá almennu hagsmuni sem í húfi eru á verðbréfamarkaði. Með því er m.a. átt við að reglur um upplýsingagjöf tryggi jafnræði á verðbréfamarkaði og að viðskipti innherja séu trúverðug gagnvart markaðnum.

Reglurnar stuðla að því að þeir sem eftir þeim eiga að fara geri sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir vegna tengsla þeirra við útgefanda verðbréfa, þ.á.m. um skyldu til þess að virða reglur og upplýsa brot eftir réttum leiðum.


2.0 Óheimil viðskipti
Þeim sem býr yfir trúnaðarupplýsingum sem varða skuldabréf Grindavíkurbæjar er óheimilt:
• Að eiga viðskipti eða gera aðrar ráðstafanir með skuldabréfin.
• Að miðla trúnaðarupplýsingum til þriðja aðila eða ráðleggja honum á grundvelli upplýsinganna.
• Að afla eða ráðstafa skuldabréfum eða hvetja að öðru leyti til viðskipta með skuldabréfin búi aðili yfir trúnaðarupplýsingum.


3.0 Gildissvið
Reglur þessar eru settar á grundvelli 37. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 13/1996 með áorðnum breytingum.

Reglurnar gilda um meðferð trúnaðarupplýsinga og viðskipti innherja vegna skuldabréfa Grindavíkurbæjar sem skráð eru í Kauphöll Íslands hf. Þær taka til innherja Grindavíkurbæjar á hverjum tíma sem og aðila sem eru fjárhagslega tengdir þeim.


4.0 Skilgreiningar
4.1. Almennt
Í reglum þessum skulu eftirfarandi skilgreiningar gilda.

4.2. Trúnaðarupplýsingar
Með trúnaðarupplýsingum er átt við upplýsingar um útgefanda skuldabréfa (Grindavíkurbæ), skuldabréfin sjálf eða önnur atriði sem ekki hafa verið gerð opinber en eru líkleg til að hafa áhrif á markaðasverð skuldabréfanna ef opinber væru.
Upplýsingar teljast opinberar þegar þeim hefur verið miðlað á verðbréfamarkaðinum með opinberum og viðurkenndum hætti. Tilkynningar til kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða teljast opinberar þegar þeim hefur verið miðlað þaðan, sbr. lög um starfsemi kauphalla og skipulegra tilboðsmarkaða.

4.3 Innherjar
Með innherjum er átt við:
A. Fruminnherja:
Aðilar sem búa yfir eða hafa að jafnaði aðgang að trúnaðarupplýsingum vegna eignaraðildar, aðildar að stjórn, rekstri eða eftirliti eða vegna annarra starfa á vegum útgefanda skuldabréfa (Grindavíkurbæjar) sem skráð hafa verið eða óskað hefur verið eftir að verði skráð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði sem fengið hefur starfsleyfi hér á landi.

B. Aðrir innherja:
Aðili sem ekki telst fruminnherji skv. a-lið en hefur vegna starfs síns, stöðu eða skyldna tímabundinn aðgang að trúnaðarupplýsingum.
Aðili sem ekki telst fruminnherji skv. a-lið en hefur fengið vitneskju um trúnaðarupplýsingar, enda hafi viðkomandi vitað eða mátt vita hvers eðlis upplýsingarnar voru.


5.0 Aðgæsla við meðferð trúnaðarupplýsinga
Almenna aðgæslu og varfærni skal ætíð hafa í huga við meðferð trúnaðarupplýsinga. Sem virkar aðgerðir í samræmi við það skulu eftirfarandi reglur gilda:
• Sá sem hefur trúnaðarupplýsingar undir höndum skal virða þær þagnarskyldureglur sem almennt gilda um störf hans og gæta þess að óviðkomandi geti ekki kynnt sér eða gert sér á annan hátt grein fyrir trúnaðarupplýsingum. Óviðkomandi aðilar eru allir þeir sem ekki þurfa að fá upplýsingar vegna starfs eða stöðu. Þegar sá sem býr yfir trúnaðar¬upplýsingum er ekki sveitarstjórnarmaður skal miðlun á upplýsingum vera háð samþykki framkvæmdastjóra Grindavíkurbæjar.
• Trúnaðarupplýsingum skal haldið innan eins þröngs hóps og unnt er að teknu tilliti til laga og skal miðlun á þeim einungis fara fram í tengslum við starf, stöðu eða skyldu þess sem veitir og þess sem móttekur upplýsingarnar. Í samræmi við þetta skal fjölföldun trúnaðarupplýsinga haldið í lágmarki.
• Við miðlun trúnaðarupplýsinga skal gæta þess að réttur aðili fái upplýsingarnar í hendur og að móttakandinn fái vitneskju um hvers eðlis upplýsingarnar eru, þ.á.m. hvaða réttarstaða fylgir því að búa yfir upplýsingunum s.s. um stöðu sem innherja Grindavíkurbæjar og um að misnotkun upplýsinganna sé refsiverð. Gæta skal þess að móttakandi sé bundinn af reglum sem tryggja þagmælsku um gefnar trúnaðarupplýsingar.
• Tilkynna skal regluverði þegar trúnaðarupplýsingum er miðlað og hver móttakandinn er, sem við miðlun verður jafnframt innherji. Regluvörður skal færa móttakanda trúnaðarupplýsinga á innherjalista.


6.0 Birting trúnaðarupplýsinga
Grindavíkurbæ, sem útgefanda skuldabréfa, ber að birta innhald trúnaðarupplýsinga og aðrar mikilvægar upplýsingar, s.s. ársreikninga, í samræmi við kröfur laga, reglugerða og reglna Kauphallar Íslands hf, sbr. lög um starfsemi kauphalla og skipulegra verðbréfamarkaða nr. 34/1998, reglugerð um upplýsingaskyldu kauphallaraðila og útgefanda verðbréfa sem skráð eru í kauphöll nr. 433/1999 og reglur útgefanda verðbréfa í Kauphöll Íslands hf. nr. 3/1999.

Regluvörður ber ábyrgð á miðlun trúnaðarupplýsinga til Kauphallar Íslands hf. Ef regluvörður er annar en framkvæmdastjóri skal hann við miðlunina hafa samráð við framkvæmdastjóra Grindavíkurbæjar eða tilnefndan fulltrúa hans.

Trúnaðarupplýsingar skal birta eins fljótt og unnt er og ekki skal halda þeim leyndum lengur en nauðsyn krefur. Þegar Kauphöll Íslands hf. hefur miðlað innihaldi trúnaðarupplýsinga til markaðarins hefur trúnaði verið aflétt og eiga þá ákvæði reglna þessara um trúnaðarupplýsingar ekki lengur við.

Regluvörður skal uppfæra innherjalista í kjölfar birtingar Kauphallar Íslands hf. á innihaldi trúnaðarupplýsinga.


7.0 Viðskipti innherja og rannsóknarskylda fruminnherja
Um viðskipti innherja gildir grundvallarreglan um að viðskipti séu óheimil búi aðili yfir trúnaðarupplýsingum, sbr. grein 2.0.

Til þess að tryggja að reglunni sé fylgt og að viðskipti innherja með skuldabréf Grindavíkurbæjar séu að öðru leyti í samræmi við markmið reglna þessara hvíla sérstakar skyldur á fruminnherjum.

Fruminnherjar skulu ganga úr skugga um áður en þeir eiga viðskipti með skuldabréf Grindavíkurbæjar að ekki liggi fyrir trúnaðarupplýsingar. Til þess að uppfylla þessa rannsóknarskyldu þurfa fruminnherjar að hafa samráð við regluvörð áður en þeir eiga viðskipti með skuldabréf Grindavíkurbæjar. Þessi skylda hvílir einnig á fruminnherjum ef til stendur að aðili, sem er fjárhagslega tengdur fruminnherja, eigi viðskipti með skuldabréf Grindavíkurbæjar.

Í kjölfar fyrirspurnar fruminnherja getur regluvörður heimilað eða synjað að viðskipti eigi sér stað með skuldabréf Grindavíkurbæjar. Viðskiptaheimild regluvarðar gildir þann viðskiptadag sem hún er gefin út. Regluvörður hefur vald til að synja um viðskipti án þess að ákvörðun hans sé rökstudd.

Að loknum viðskiptum fruminnherja eða fjárhagslega tengds aðila skal fruminnherji tilkynna regluverði um grunnverð skuldabréfanna og viðskiptaverð þeirra.


8.0 Regluvörður - Eftirlit og kynning
Bæjarstjórn ræður regluvörð að fenginni tilnefningu bæjarráðs og skal hann vera hlutlaus og sjálfstæður í því starfi. Regluvörður skal árlega gefa bæjarráði yfirlit yfir störf sín.

Hlutverk regluvarðar er almennt að hafa eftirlit með því að reglum þessum sé fylgt og sérstaklega að sinna þeim verkum sem honum eru falin samkvæmt reglunum.

Í þeim tilgangi að hægt sé að rekja samskipti innherja og regluvarðar skal hann skrá samskipti sín við innherja sem fram fara á grundvelli reglnanna. Skráningin skal ná til eftirfarandi atriða:
• Hvenær innherji óskar eftir viðskiptaheimild.
• Hver innherjinn er og eftir atvikum hver aðili fjárhagslega tengdur honum er.
• Hvert er grunnverð skuldabréfa sem óskað er eftir að eiga viðskipti með.
• Hvort beiðni um viðskipti var afgreidd með viðskiptaheimild eða viðskiptasynjun.

Hafi viðskiptaheimild verið veitt skal regluvörður skrá hvort hún hafi verið nýtt auk þess sem hann skal tilkynna Kauphöll Íslands hf. um viðskiptin.

Leiki grunur á að reglur þessar hafi verið brotnar eða að trúnaðarupplýsingar hafi komist til óviðkomandi skal regluvörður tilkynna slíkt til FME og Kauphallar Íslands hf. auk tilkynningar til bæjarráðs.

Regluvörður skal tryggja að reglurnar séu aðgengilegar auk þess sem hann skal annast kynningu á reglunum með það að markmiði að þær séu á vitorði þeirra sem þær eiga við um.


9.0 Mótun og viðhald innherjalista
Regluvörður ber ábyrgð á gerð og viðhaldi innherjalista. Með hliðsjón af ákvæðum verðbréfaviðskiptalaga og reglna þessara, um viðmið um hverjir skuli skráðir á innherjalista, skal regluvörður uppfylla skyldur sínar um færslu listans.

Regluvörður skal tilkynna FME og Kauphöll Íslands hf. um listann og allar síðari færslur hans. Uppfærslur á listanum skulu gerðar tafarlaust þegar breytingar verða og skulu þær tilkynntar samdægurs til FME og Kauphallar Íslands hf. Við færslu listans skal regluvörður tilkynna hlutaðeigandi færslu á innherjalista og færslu af innherjalista.


10.0 Viðurlög
Brot á reglum þessum geta varðað refsiábyrgð samkvæmt 69. gr. verðbréfaviðskiptalaga og eftir atvikum ákvæðum annarra laga.


11.0 Gildistaka
Reglur þessar öðlast gildi að fenginni staðfestingu sveitarstjórnar og FME.

Reglur þessar voru staðfestar í bæjarstjórn Grindavíkur þann 11. desember 2002, sbr. 14. tölulið í fundargerð bæjarráðs nr. 1023.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR SÍĐUR