Þeir nemendur á unglingastigi sem eru í skákkennslu í vali duttu heldur betur í lukkupottinn á dögunum þegar Björn Ívar Karlsson kom í heimsókn og stjórnaði kennslu dagsins. Björn er skákþjálfari með FIDE trainer þjálfaragráðu og er yfirþjálfari Skákdeildar Breiðabliks. Ferilskráin stoppar ekki þar en Björn er FIDE-meistari, formaður landsliðsnefndar Skáksambandsins og fyrrum landsliðsþjálfari kvennaliðsins.
Björn byrjaði tímann á því að fara yfir nokkrar opnanir og endatöfl og fylgdust drengirnir hugfangnir með og drukku í sig fróðleikinn. Björn bauð þeim svo að nýta það sem þeir höfðu lært í tímanum og tefldi við þá tvær blindskákir samtímis og er skemmst frá því að segja að hann mátaði bæði lið í nokkrum leikjum. Sumir drengjanna trúðu vart eigin augum og voru sannfærðir um að brögð væru í tafli en Björn sat allan tímann í miðri stofunni með lokuð augun og kallaði svo sína leiki og lagði leiki þeirra á minnið jafnóðum.
Tíminn endaði svo á nokkrum 1-1 einvígum þar sem Björn hafði eina mínútu til umráða en mótspilararnir fimm. Í síðustu skákunum færði hann sinn tíma niður í 40 sekúndur og að lokum 20 og vann síðustu skákina með eina sekúndu aflögu.
Við þökkum Birni Ívari kærlega fyrir komuna!