Á fimmtudag var haldin langþráð árshátíð á öllum stigum Grunnskóla Grindavíkur. Krakkarnir í 1.-4.bekk héldu sína með pompi og prakt í Hópsskóla þar sem gestum var boðið upp á fjölbreyttar sýningar þar sem nemendur létu ljós sitt skína.
1. og 3.bekkur reið á vaðið um morguninn og bauð upp á mikla skemmtun. Sýning 2. og 4.bekkjar í kjölfarið var ekki síður skemmtilegri og ljóst að allir nemendur höfðu lagt mikið á sig til að sýningarnar yrðu sem glæsilegastar. Leikmyndir höfðu verið búnar til dagana á undan og þá höfðu nemendur æft atriðin undir stjórn umsjónar- og tónlistarkennara.
Sérlega gaman var að sjá atriðin þar sem árgangarnir voru saman uppi á sviði og þá kitluðu atriði allra árganga hláturtaugar gesta. Leiksýningar, dansatriði og myndbönd voru meðal þess sem boðið var upp á og hér fyrir neðan má sjá fjölmargar myndir frá sýningunum.