Tveir verðlaunahafar frá Grindavík
Stóra upplestrarkeppni 7. bekkja árið 2023, var haldin að þessu sinni í Gerðaskóla Garði. Fjórir skólar á Suðurnesjum, Gerðaskóli, Grunnskóli Grindavíkur, Sandgerðisskóli og Stóru-Vogaskóli, standa saman að keppninni og skiptast á að halda keppnina. Frá Grunnskóla Grindavíkur kepptu þeir Heimir Karl Rafnsson, Hreiðar Leó Vilhjálmsson og Szymon Pietr Bylicki. Þeir stóðu sig allir með miklum sóma. Þeir höfðu æft stíft undir stjórn kennaranna sinna, foreldra og að lokum Valdísar Kristinsdóttur íslenskukennara. Lestrarhátíðin í Garði var vel sótt og hátíðleg. Lesendurnir tólf lásu textabrot úr sögunni Blokkin á heimsenda eftir Arndísi Þorsteinsdóttur og Huldu Sigríði Bjarnadóttur, ljóð eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson og að lokum sjálfvalið ljóð. Auk upplestursins voru flutt tónlistaratriði frá nemendum hvers skóla. Bojan Jón Balac frá okkar skóla lék á píanó. Úrslit urðu þau að í 1. sæti varð Hreiðar Leó Vilhjálmsson, í 2. sæti varð Hilmir Karl Rafnsson og í 3. sæti varð Guðjón Hjörtur Eyjólfsson nemandi úr Gerðaskóla. Hlutu þeir allir peningaverðlaun frá Landsbankanum.