Það vantaði ekki fjörið í Hópsskóla síðasta miðvikudag þegar öskudagurinn var haldinn hátíðlegur. Skóladagurinn var brotinn upp og ýmislegt skemmtilegt brallað.
Eins og vani er á öskudaginn þá var ekki um hefðbundinn skóladag að ræða. Nemendur fengu að mæta í búningum og þá var einnig dótadagur og mátti því taka dót með sér að heiman. Um morguninn fengu nemendur síðan að fara um skólann og leika sér á göngum og í skólastofum og var gaman að sjá mismunandi árganga blandast saman í alls konar leikjum og fjöri.
Í miðlotunni voru árgangar síðan í sínum stofum en Harpa Pálsdóttir danskennari fékk hópa til sín í dansfjör í salnum. Þar blönduðust árgangarnir saman og var heldur betur líf og fjör þar sem farið var í hina ýmsu dansleiki.
Deginum lauk svo með pizzuveislu í hádegismat. Hér fyrir neðan má sjá fjölmargar myndir frá skemmtilegum öskudegi í Hópsskóla.