Innan aðalstjórnar UMFG og einstakra deilda er unnið öflugt sjálfboðaliðastarf og framlag sjálfboðaliða ómetanlegt fyrir félagið, einstakar deildir og samfélagið allt. Vegna umfangsmikils starfs á vegum UMFG og einstakra deilda er nauðsynlegt að félagið fái rekstrarstyrk vegna rekstrar félagsins og deilda og því hefur Grindavíkurbær nú samþykkt að styrkja UMFG um 18.000.000 kr. pr. ár næstu tvö árin og gert samning þess efnis.
Samningurinn sem er til tveggja ára er ætlað að efla samstarf bæjaryfirvalda í Grindavík og UMFG um eflingu íþróttastarfs í Grindavík með megináherslu á öflugt íþrótta-, forvarna- og tómstundastarf fyrir börn og ungmenni á aldrinum 6 - 16 ára (árið sem barnið verður 6 ára og til áramóta þegar að það verður 16 ára)
Styrkurinn stuðlar að áframhaldandi möguleikum barna og ungmenna að stunda fleiri en eina íþróttagrein og verður aðeins innheimt eitt æfingagjald, 40.000 kr., pr. barn óháð fjölda íþróttagreina sem barnið stundar.
Samningsaðilar eru sammála um að með þessum samningi sé lögð áhersla á mikilvægi þess öfluga starfs sem fer fram innan UMFG fyrir samfélagið í heild og þátttaka barna og unglinga í íþróttastarfi verði áfram góð en hún hefur verið með því hæsta sem þekkist á landsvísu.
Samningsaðilar eru jafnframt sammála um að alhliða hreyfing og möguleiki barna til að kynnast sem flestum íþróttagreinum er af hinu góða fyrir börnin. Í ljósi þess mun UMFG starfrækja íþróttaskóla fyrir leikskólabörn þar sem megináhersla verður á aukin hreyfiþroska, fjölþættar æfingar, leikgleði og jákvæð fyrstu kynni af íþróttum. Íþróttaskólinn mun taka til starfa í ágúst/september 2011.
Aðalstjórn UMFG mun bera ábyrgð á eftirliti og framkvæmd samningsins gagnvart deildum UMFG og mun innheimta æfingagjalda fara fram á vegum aðalstjórnar.
hér er innskráning í Nóra kerfið https://umfg.felog.is/ til að skrá börnin í deildir og greiða æfingagjöld