Stefna Ungmennafélags Grindavíkur
Ungmennafélag Grindavíkur
UMFG var stofnað 1935 og er fjölgreinafélag með sjö deildir. Deildirnar eru eftirfarandi:
· Knattspyrnudeild með um 350 iðkendur
· Körfuknattleiksdeild með um 300 iðkendur
· Sunddeild með um 50 iðkendur
· Fimleikadeild með um 90 iðkendur
· Júdó deild með um 30 iðkendur
· Taekwondo deild með um 40 iðkendur
· Skotdeild með um 40 iðkendur
Einnig starfrækir UMFG íþróttaskóla fyrir börn á leiksskólaaldri.
Aðalfundur
Aðalfundur er æðsta stjórn í málefnum félagsins. Allir fullgildir félagar í UMFG hafa rétt til setu á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétt. Stjórn Ungmennafélags Grindavíkur er skipuð fimm aðalmönnum og þremur varamönnum en einnig eiga sæti í aðalstjórn formenn allra deilda UMFG. Á aðalfundi ár hvert leggja allar deildir fram ársreikninga og skýrslu.
Aðalstjórn
Aðalstjórn er æðsta stjórn félagsins milli aðalfunda. Aðalstjórn skal annast öll samskipti við UMFÍ, ÍS og Grindavíkurbæ (nema annað sé sérstaklega tekið fram). Sjá um skil á skýrslum til ÍSÍ, UMFÍ og til Grindavíkurbæjar ásamt því að sjá um innheimtu á æfingagjöldum fyrir allar deildir UMFG. Aðalstjórn UMFG raðar niður tímum í íþróttahús í samvinnu við deildir, Grindavíkurbæ og skólayfirvöld og sjá um að jafnrétti kynja sé framfylgt. Veitir viðurkenningar fyrir góð störf og hefur yfirumsjón með samræmingu fjáraflana deilda.
Aðalstjórn heldur fundi mánaðarlega og fjallar hún um meginmál félagsins og ber ábyrgð á stefnu þess.
Deildir
Allar deildir skulu sjá um eflingu viðkomandi íþróttagreinar og hafa samskipti við viðkomandi sérsamband ÍSÍ. Deildirnar skulu sjá um að haga rekstri á sem ábyrgastan hátt og eru deildir með sjálfstæðan rekstur en eru undir stefnu UMFG samkvæmt lögum.
Allar deildir UMFG skulu gefa út íþróttanámskrá.
Barna og unglingastarf, helstu markmið.
Vinna að fjölgun iðkenda með aukinni samvinnu við skólayfirvöld og fræðslu til barna og foreldra, sérstaklega í 1. til 3. bekk.
Auka ábyrgð og skilning foreldra á mikilvægi starfsins til að minnka brottfall á unglingastiginu.
Auka samstarf milli deilda svo æfingar hjá 12 ára og yngri rekist ekki á og yngstu börnin hafi möguleika að stunda fjölbreyttar íþróttir.
Að vinna að ræktum heilbrigðar sálar í hraustum líkama og góðum Grindvíking.
Deildirnar skulu leitast eftir því að ráða menntaða þjálfara til starfa og sjá um endurmenntun þeirra jafnt í kvenna og karla flokkum.
Unglingaráð
Unglingaráð eru starfandi innan körfuknattleiks- og knattspyrnudeilda.
Unglingaráð hefur umsjá með starfi yngri flokka og hefur að skipa öflugu fólki sem allt á það sameiginlegt að vilja vinna vel að uppbyggingu félagsins.
Unglingaráð sér um ráðningar þjálfara í samvinnu við stjórn viðkomandi deilda.
Ráðið skipuleggur æfingatöflur yngri flokka innan deilarinnar í samvinnu við aðalstjórn.
Foreldraráð
Innan deilda UMFG hefur foreldrastarf aukist og eru foreldraráð hjá flestum deildum. Foreldraráð er tengiliður milli foreldra, iðkenda og þjálfara.
Leggur ungmennafélagið áherslu á að auka samstarf milli foreldra og félagsins og vinna markvisst með að gera starfið sýnilegra, að aðstoða starfið innan félagsins og hafa áhrif og hvetja börn og iðkendur til framfara og skemmtunar. Mikilvægt er að hafa gott samstarf við foreldra svo að hægt sé að skapa betra umhverfi og styrkja um leið gott samstarf innan bæjarfélagsins í Grindavík.
Hver deild ber ábyrgð á því að kosið sé foreldraráð á hverju hausti, sé yngri flokka starf hjá félaginu. Deildirnar skulu setja sér nánari reglur um foreldraráð en tryggja skal að foreldrar iðkenda á fjölbreyttum aldri séu í foreldraráðinu.
Deildir skulu kalla til funda á hverju ári og þar sem kosið er foreldraráð.
Fjáraflanir
Þegar fjáraflanir eiga sér stað innan einstakra deilda skal tilkynna um slík áform tímanlega til aðalstjórnar UMFG sem sér um samræmingu milli fjárafla. Sú samræming er til að tryggja að fjáraflanir rekist ekki á og að ekki sé farið inn á fjáraflanir sem hefð er fyrir innan deilda UMFG. Aðalstjórn í samstarfi við deildir UMFG skal setja nánari reglur um samræmingu fjáraflana.
Forvarnir
UMFG er meðvitað um að forvarnir og stuðning við íþróttafólk í Grindavík. Var því stofnaður forvarnararsjóður árið 2010. Markmið sjóðsins er að styðja og styrkja forvarnarstarf deilda UMFG og aðstoða við framkvæmd forvarnarstarfs.
Öll neysla tóbaks og vímuefna er bönnuð í tengslum við æfingar og keppni á vegum félagsins.
Ef iðkandi er uppvís um slíkt og er yngri en 18 ára skulu foreldrar verða upplýstir um slíka neyslu og félagið skal taka á brotinu með tilmælum og ábendingum. Skili slík viðbrögð ekki árangri getur komið til tímabundins banns frá æfingum/keppni. Viðbrögð félagsins munu samt mótast af vilja til að aðstoða iðkandann til að bæta sín brot og að viðkomandi haldi áfram að starfa innan félagsins án vímuefna eða tóbaks. Aðalstjórn, deildirnar og forvarnarnefnd skulu setja nánari reglur um forvarnir.
Einelti
Stefna UMFG í eineltismálum er skýr. Allt ofbeldi hvort sem það er niðurlægjandi áreitni, líkamlegt eða andlegt sem er stýrt af hópi eða einstaklingum sem æfa íþróttir innan félagsins er ekki liðið. Einelti getur verið margskonar og aldrei er auðvelt fyrir barn að greina frá ofbeldi hvort sem það er félagslegt, munnlegt, andlegt eða líkamlegt.
Ef þjálfarar verða varir við að einstaklingar eða hópur sýnir niðurlægjandi áreitni eða ofbeldi, líkamlegt eða andlegt skal sýna yfirveguð viðbrögð. Mikilvægt er að einstaklingurinn sem verður fyrir eineltinu fái þau skilaboð að honum sé trúað og að hlustað sé á barnið. Aðalstjórn ásamt deildum skulu setja nánari reglur um fræðslu og viðbrögð við einelti.
Siðamál
Stjórnarmenn og starfsmenn UMFG skulu standa vörð um anda og gildi félagsins og koma fram við alla félagsmenn sem jafningja. Þeim ber að vera ávallt til fyrirmyndar varðandi hegðun og framkomu innan félagsins og ávallt taka alvarlega þá ábyrgð er þeir hafa gagnvart félaginu og iðkendum. Aldrei skal nota stöðu sína hjá félaginu til eigin framdráttar á kostnað félagsins. Aðalstjórn og deildir UMFG skulu samþykkja sérstakar siðareglur.
Framtíðarsýn
Framtíðarsýn félagsins er að aðalstjórn UMFG geti veitt deildum innan félagsins sem besta þjónstu, t.d. með því að færa bókhald fyrir deildir og ráða íþróttafulltrúa sem styður við innra starf allra deilda. Aðalstjórn skal vinna að því að stofna almenningsíþróttadeild og auka þátttöku almennings í hreyfingu og heilsusamlegu líferni. Aðalstjórn skal, ásamt Grindavíkurbæ vinna að því að búa til samkeppnishæfa keppnis- og æfingaaðstöðu fyrir deildir UMFG. Stefnt er að góðu samstarfi deilda UMFG, iðkendum til hagsbóta og deildum til framdráttar. Hver deild UMFG skal setja sér markmið og framtíðarsýn.
Samþykkt á aðalfundi UMFG þann 3. apríl 2013