Hægt er að nálgast nákvæmar upplýsingar um veðurfar og spá um veður í Geldingadölum þar sem eldgosið er. Á síðunni Blika.is sem er í eigu Veðurvaktarinnar er veðurspákerfi sem leitast við að birta spár fyrir staði eftir ákvörðun hvers og eins. Gerðar eru staðspár í þéttu reiknineti fyrir landið allt.
Leitast er við að upplýsingar séu skýrar, aðgengilegar fyrir notandann á tölvu og í síma. Einnig eins áreiðanlegar og best gerist.
Spárnar uppfærast fjórum sinnum á dag. Reiknað er í fínu neti í spákerfi á veðurtölvu Bliku, 60 klst. fram í tímann og eftir það í grófara reiknineti 10 daga fram í tímann. Spár eru reiknaðar fyrir tæplega 10.000 staði á Íslandi og sífellt eru að bætast við fleiri staðir.