Jólaundirbúningurinn er búinn að vera skemmtilegur í Kvikunni og er forsalur Kvikunnar löngu kominn í jólabúning.
Með ríkjandi og yfirvofandi samkomutakmörkunum höfum við þurft að vera skapandi og finna lausnir sem ganga upp þrátt fyrir þær. Undanfarnar vikur hafa aðeins 10 manns mátt heimsækja húsið í einu og því ekki hægt að taka á móti hópum fullorðinna eða eldri barna. Því ákváðum við að fá leikskóla bæjarins til að vinna jólaskreytingar með okkur og höfum tekið á móti öllum krökkum þaðan í hópum að undanförnu.
Á sama tíma höfum við jafnframt staðið í framkvæmdum innanhúss. Unnið er að því að flytja saltfisksýninguna á efri hæð hússins og endurnýja hana að hluta. Undirbúningur hefur staðið megnið af árinu en framkvæmdir gengið hægar en vonir stóðu til í upphafi.
Stóri salurinn á neðri hæð hefur verið tæmdur að stórum hluta og verður honum með tímanum breytt í fjölnota viðburðasal.
Sett var upp 3m jólatré í forsalnum og tóku leikskólar bæjarins að sér að skreyta tréð. Krakkarnir á Heilsuleikskólanum Króki komu til okkar með fallegt skraut úr könglum sem voru búin að útbúa og hengdu á nýja jólatréð. Eftir að börnin höfðu hengt skrauðtið sitt á tréð buðum við þeim upp á piparkökur og mandarínur úti á palli í sólinni!
Leikskólinn Laut fylgdi svo í kjölfarið en þau komu með fagurlega skreyttar jólakúlur sem fóru sömuleiðis á tréð. Þau sungu með okkur jólalög á meðan þau gæddu sér á mandarínum og piparkökum. Við hvetjum alla; ömmur og afa, mömmur, pabba og aðra bæjarbúa til að kíkja til okkar og skoða tréð og fína skrautið.
Við hlið jólatrésins er búið að stilla upp jólalegum myndavegg þar sem hægt er að taka skemmtilega fjölskyldumynd, systkina- eða vinamynd og hvetjum við fólk til að nýta sér það. Þessar myndir er svo tilvalið að nota í jólakort og í jólakveðjur á samfélagsmiðlum.
Stóra úti jólatré bæjarins er nú staðsett við Hafnargötuna, framan við Kvikuna og það setur fallegan og jólalegan svip á götuna. Kveikt var á trénu á miðvikudag með nemendum Hópsskóla. Krakkarnir nutu tilbreytingarinnar og höfðu gaman að því að hitta jólasveinana sem ráku inn nefið. Björgunarsveitin Þorbjörn bauð krökkunum upp á kakó og piparkökur.
Nú um helgina fór fram fjarsjóðsleit Þrumunnar. Kvikan bauð þátttakendum inn í kaffi, kakó og sætan glaðning í Kvikunni að leik loknum. Ekki er loku fyrir það skotið að skella sér í ratleikinn í dag og vitja vinnings í Kvikunni. Nánari upplýsingar um viðburðinn má finna á facebook og Instagram síðum Þrumunnar og Kvikunnar.
Við minnum jafn framt á að í Kvikunni er hægt að versla handverk, skart og bækur tengt Grindavík og hafinu sem passar vel í jólapakkana fyrir allan aldur. Við hvetjum bæjarbúa til að versla í heimabyggð fyrir jólin enda aldrei betra tilefni til en nú í ár!
Kvikan er opin alla daga kl 10-17 alla daga til jóla og við bjóðum bæjarbúa velkomna í heimsókn.
Jólakveðjur,
Ólöf Helga og Sunna