Búið er að færa sýningu Saltfisksetursins á efri hæð Kvikunnar. ,,Saltfiskur í sögu þjóðar“ heitir sýningin sem sett var upp árið 2003 en þá bar Kvikan heitið Saltfisksetur Íslands. Salurinn á neðri hæðinni sem nú er orðinn tómur er 650 fm. Áætlað er að þar verði fjölnota menningarsalur, svokallað blackbox sem mun nýtast til ýmissa menningarviðburða, hvort sem þeir verða á vegum bæjarins eða einkaaðila sem fá salinn leigðan.
Meðfylgjandi eru myndir úr salnum en þar er búið að taka niður sýningu sem HS orka gaf Grindavíkurbæ og bar heitið Jarðorka. Sýningunni var ætlað að fræða gesti um undirstöðuatriði íslenskrar jarðsögu og jarðfræði, skýra á einfaldan hátt eðli jarðhita, eldvirkni og jarðskjálfta.
Stóra sýningin, sem nú er komin í smærri mynd á efri hæðina er ljóslifandi saga sjómennsku og saltfiskverkunar á Íslandi. Þar fléttast saman í saga verkalýðsins, þróun skipa, veiða og vinnslu, frá lokum hefðbundinnar verbúðarmennsku til þessa dags. Björn G. Björnsson, sýningarhönnuður sá bæði um að setja sýninguna upp árið 2003 og einning núna, 17 árum síðar í smækkaða mynd sem enn nær þó að skýra söguna.
Áætlað er að bæta við sýninguna þeim tíma sem við lifum núna en eins og margir vita hefur þróun í sjávarútvegi sjaldan, ef nokkurn tímann verið jafn hröð og tæknivæðingin mikil, því fjórða iðnbyltingin er nú þegar hafin í þessum grunn atvinnuvegi þjóðarinnar.
Enn er óljóst hvenær hægt verður að opna sýninguna fyrir almenningi en lokafrágangur er eftir og úttekt á framkvæmdinni. Móttökusalurinn er þó opinn og hægt að líta við og taka jólalegar ljósmyndir við stóra jólatréð, kaupa jólagjafir eða njóta útsýnis hafnarsvæðisins.