Fjölskyldustefna

  • 23. mars 2009

Fjölskyldustefna Grindavíkurbæjar

Markmið
Með fjölskyldustefnu vill bæjarstjórn Grindavíkur undirstrika það markmið að Grindavík verði fjölskylduvænn bær. Með fjölskyldustefnu vill bæjarstjórnin skapa heildarsýn yfir þau málefni er lúta að hagsmunum og velferð fjölskyldunnar og bæjarstjórnin er að vinna að á hverjum tíma. Með fjölskyldustefnu vill bæjarstjórnin undirstrika gildi fjölskyldunnar sem einn af hornsteinum íslensks samfélags.

Inngangur
Fjölskyldan er grunneining íslensks samfélags. Fjölbreytileg sambýlisform er að finna innan samfélagsins og geta þau jafnvel tekið breytingum á lífsskeiði sérhvers einstaklings. Á undanförnum árum hafa eldri hugmyndir um kjarnafjölskylduna, þ.e. karl og kona ásamt börnum sínum þar sem karlinn er fyrirvinnan og konan hugsar um heimilið, vikið fyrir breyttum lífsviðhorfum. Þessi þróun á sér meðal annars rætur í auknum tækifærum fyrir konur og karla innan samfélagsins, til dæmis með auknu framboði á námsleiðum og spennandi atvinnutækifærum.

Í ljósi breyttra aðstæðna innan samfélagsins lítum við svo á að fjölskylda sé hópur fólks sem á sameiginlegt heimili þar sem þau deila tómstundum, hvíld, tilfinningum, efnahag, ábyrgð og verkefnum. Þau eru skuldbundin hvert öðru í siðferðilegri og gagnkvæmri hollustu.

Í nútímasamfélögum er það viðurkennt að hið opinbera sjái fjölskyldum fyrir ákveðinni þjónustu og stuðningi í því augnamiði að einstaklingarnir geti þroskast og dafnað á eðlilegan hátt.
Sveitarfélögum í landinu erum með lögum lagðar miklar skyldur á herðar í mörgum málaflokkum er varða fjölskylduna. Má þar nefna félagsleg málefni ýmiss konar, grunnmenntun og tónlistarmenntun, menningar-, æskulýðs, og íþróttamál og skipulags- og umhverfismál svo dæmi séu tekin. Viðamiklir málaflokkar eru á verksviði ríkisins s.s. heilbrigðismál, almannatryggingar, framhaldsmenntun, húsnæðislán og skattamál.

Þýðingarmikið er að stjórnvöld fylgist vel með hvernig fjölskyldum vegnar innan samfélagsins svo unnt sé að bjóða fram nauðsynlega þjónustu þegar á þarf að halda. Ýmislegt getur orðið til þess að einstaklingar þurfi á tímabundinni eða varanlegri utanaðkomandi aðstoð að halda til að geta lifað sem eðlilegustu lífi. Því er lagt kapp á að hvetja fjölskyldur til sjálfsbjargar með því að aðstoða þær við að standa á eigin fótum.

Í fjölskyldustefnunni verður lögð áhersla á þá málaflokka sem sveitarfélögum eru falin samkvæmt lögum eða sveitarfélög hafa tekið upp á sína arma.

Félagsmál - félagsþjónusta
Grindavíkurbær veitir þjónustu á þessum sviðum í samræmi við gildandi lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, lög um öldrunarmál, lög um barnavernd, lög um jafnréttismál og lög um málefni fatlaðra eins og þau eru á hverjum tíma og reglugerðum þar að lútandi.
Félagsþjónustan hefur það að leiðarljósi að stuðningur hennar við íbúa bæjarfélagsins hvetji þá til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum og til fjárhagslegs sjálfstæðis. Með þjónustunni er stefnt að því að einstaklingar og fjölskyldur geti lifað eðlilegu og mannsæmandi lífi. Í störfum sínum skulu starfsmenn félagsþjónustunnar virða sjálfsákvörðunarrétt skjólstæðinga sinna.

Félagsþjónustan stefnir að því að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar og jöfnum rétti til lífsgæða. Þetta felur í sér að þeir einstaklingar sem standa höllum fæti eiga rétt á aðstoð til að bæta lífskjör sín og til sjálfstæðs lífs og virkrar þátttöku í samfélaginu. Stefnt er að því að þjónusta sé jafnan veitt í samráði við einstaklinginn sjálfan þannig að tekið sé tillit til óska hans eftir því sem kostur er. Í því sambandi er nauðsynlegt að þjónustan sé auðskiljanleg og aðgengileg almenningi.

Stefnt er að því að félagsþjónustan þjóni öllum hópum samfélagsins. Áhersla er lögð á að hæft og menntað starfsfólk sjái um að veita sérhæfða þjónustu.
Félagsþjónustan leggur áherslu á að starfsmenn hennar leiðbeini fólki hvert það getur leitað ef í ljós kemur þörf á þjónustu á vegum annarra aðila hjá sveitarfélaginu eða ríkis. Getur aðstoð starfsmanna þá falist í því að hlutast til um að einstaklingur eða fjölskyldur fái viðeigandi þjónustu eða tryggja að viðkomandi fái aðgang að réttum aðilum.

Félagsþjónustan leggur með þessu áherslu á mikilvægi þess að önnur kerfi, svo sem almannatryggingakerfið, heilbrigðiskerfið og skólarnir, vinni með félagsþjónustunni. Slíkt getur verið forsenda þess að úrræði skili tilætluðum árangri. Starfsmenn félagsþjónustunnar skulu því vinna að því að ekki opnist glufur í velferðarkerfinu og heildarsýn haldist.

Fræðslu- og uppeldismál
Grindavíkurbær veitir þjónustu á þessu sviði í samræmi við gildandi lög á hverjum tíma, m.a. lög um grunnskóla, lög um tónlistarskóla, lög um leikskóla og vernd barna og ungmenna. Einnig er unnið eftir gildandi reglugerðum og námsskrám. Frumábyrgð á uppeldi og menntun hvílir á foreldrum og má með sanni segja að menntun hvers einstaklings hefjist innan fjölskyldunnar. Menntun og velferð barna og ungmenna er sameiginlegt verkefni heimila og skóla. Er því mikilvægt að samstarfið byggist á gagnkvæmri virðingu, gagnkvæmu trausti, samábyrgð og gagnkvæmri upplýsingamiðlun á öllum stigum skólakerfisins. Í íslenska skólakerfinu er gert ráð fyrir það foreldar taki þátt í mótun skólasamfélagsins og vinni að því með kennurum og örðum starfsmönnum skóla að koma markmiðum skólastarfs í framkvæmd.

Jafnrétti til menntunar og alhliða þátttöku í þjóðfélaginu er skylda sem hvílir á öllum sem sinna skólastarfi. Þetta felur ekki endilega í sér sömu úrræði fyrir alla heldur sambærileg og jafngild tækifæri. Starfsemi skólanna, leikskóla og grunnskóla, beinst að því að hjálpa börnum og ungu fólki að tileinka sér þekkingu og skilning, að móta sér skoðanir og viðhorf ásamt því að ná leikni og færni til að takast á við lífið. Leiðarljós Grunnskóla Grindavíkur er að skapa þannig umhverfi í samvinnu við foreldra að öllum líði vel og allir læri að bera virðingu fyrir sjálfum sér og umhverfi sínu. Og að frá skólanum fari einstaklingar sem eru tilbúnir til þess að takast á við eigin framtíð.

Stefnt að því að skapa góðan vinnuanda í hverjum skóla og einstökum bekkjardeildum. Leggja ber áherslu á auknar kröfur um námsaga og sjálfsaga nemenda, góða umgengni, jákvæð samskipti, umburðarlyndi, kurteisi og háttvísa framkomu. Spornað verður við einelti í skólum en í samvinnu við heimilin ber að leggja áherslu á það í grunnskólum að efla siðgæðisvitund og ábyrga hegðun nemenda.
Stefnt er að því að laga námið í skólunum sem best að nemendum hverju sinni og eiga nemendur rétt á viðfangsefnum sem henta námsgetu þeirra og hæfni. Skulu verkefnin höfða jafnt til drengja og stúlkna, nemenda í dreifbýli sem þéttbýli, fatlaðra og ófatlaðra, óháð uppruna, trú og litarhætti.

Húsnæðismál
Almenna húsnæðiskerfið, húsnæðislán og aðgerðir til að jafna aðstöðu fjölskyldna sem búa í eigin húsnæði er hlutverk ríkisins. Í þessum málaflokki eru sveitarfélögum einnig lagðar ákveðnar lagaskyldur á herðar.
Reynslan hefur sýnt að öflugur leigumarkaður er nauðsynlegur til að mæta mismunandi þörfum fjölskyldna á lífsleiðinni. Bærinn stefnir að því að leggja sitt af mörkum til að tryggja öryggi þeirra í húsnæðismálum er velja þennan húsnæðiskost.

Bærinn stefnir að því að auka framboð af leiguhúsnæði handa þeim fjölskyldum sem ekki eru á annan hátt færar um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra tekna, þungrar framfærslubyrgðar eða annarra félagslegra aðstæðna.

Bærinn tekur eðlilegt og sjálfsagt að aðstaða fjölskyldna sem búa í leiguhúsnæði sé jöfnuð með sama hætti og aðstaða fjölskyldna sem búa í eigin húsnæði. Bærinn mun fyllilega standa við skyldur sínar í samræmi við lög og reglugerðir með greiðslu húsaleigubóta til leigjenda.

Menningar-, íþrótta- og æskulýðsmál
Grindavíkurbær stefnir að því að uppbygginga íþróttamannvirkja sé jafnan með þeim hætti að aðstaða til íþróttaiðkunar almennings og keppnisflokka sé viðunandi. Rannsóknir hafa sýnt að stuðningur við íþróttaiðkun og tómstundastarf er talinn hafa jákvæð áhrif á líf og líðan ungs fólks.

Grindavíkurbær stefnir að því að eiga áfram gott samstarf við UMFG og önnur frjáls félagasamtök um að reka fjölbreytt barna- og unglingastarf þar sem lögð er áhersla á örvun líkamlegs, sálræns og félagslegs þroska. Bærinn leggur áherslu á að starfið feli í sér að gera börnum og unglingum grein fyrir þeim skaðvænlegu afleiðingum sem áfengis- og vímuefnaneysla hverskonar getur haft á líf þeirra og alla framtíð. Bærinn leggur áherslu a að þar gegnir fjölskyldan einnig lykilhlutverki en samvera með foreldrum, íþróttir og skipulegt frístundastarf dregur úr reykingum, neyslu áfengis og vímuefna.
Bærinn styrkir fjárhagslega starf frjálsra félagasamtaka á þessu sviði.

Félagsmiðstöðin Þruman er starfrækt af Grindavíkurbæ með aðkomu barna og ungmenna. Í Þrumunni er skipulagt þroskandi og fjölbreytt tómstundastarf í nánu samstarfi við grunnskólann. Á dagskrá Þrumunnar eru viðfangsefni á sviði menningar og lista, samskipti við aðrar félagsmiðstöðvar innanlands og erlendis og forvarnaverkefni.

Grindavíkurbær rekur einnig menningarhúsið Kvennó þar sem aðstaða er fyrir frjáls félagasamtök til ýmiss konar menningarstarfsemi.

Grindavíkurbær styður markmið stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum. Bærinn leggur áherslu á mikilvægi þess að allir sem að málum koma, ráðuneyti og stofnanir, löggæsla og tollgæsla, ásamt sveitarfélögum, samhæfi viðbrögð, aðgerðir og samstarf með það fyrir augum að uppræta fíkniefnaneyslu barna og ungmenna og draga stórlega úr áfengs- og tóbaksnotkun þeirra.

Skipulags- og umhverfismál
Skipulags- og umhverfismál hafa með margvíslegum hætti áhrif á líðan og afkomu fjölskyldna. Það er stefna Grindavíkurbæjar að haga skipulagi byggðar, atvinnusvæða, útivistarsvæða og samgöngumannvirkja þannig að eðlilegt samræmi sé á milli hagsmuna og velferðar fjölskyldunnar og annarra hagsmunaaðila.
Grindavíkurbær stefnir að því að gerast aðili að umhverfisverkefninu „Staðardagskrá 21".

Nýbúar
Á undanförnum árum hefur færst mjög í vöxt að útlendingar vilji vinna á Íslandi og setjast hér að til frambúðar. Fólkið kemur hvaðanæva að úr heiminum sem hefur leitt til þess að íslenskt samfélag er orðið að fjölmenningarlegu samfélagi. Stefna Grindavíkurbæjar er að tryggja að öllum líði vel hér á landi og að allir njóti sömu réttinda óháð kyni, trú, litarhætti eða uppruna. Grindavíkurbær stefnir að því að leggja sitt af mörkum til að útlendingar sem kjósa að setjast hér að geti orðið virkir þátttakendur í íslensku samfélagi.

Grindavíkurbær vill leggja sitt af mörkum til að stuðla að aukinni þekkingu meðal þegnanna um hagi hvers annars og menningu og efla þannig skilning á ólíkum bakgrunni fólks. Grindavíkurbær vill draga eins og kostur er úr því að tungumálaerfiðleikar verði hindrun fyrir útlendinga að tjá sig í hinu nýja samfélagi eða komi í veg fyrir að heimamenn gefi sig að hinum aðflutta til að bjóða hann velkominn. Einnig geta tungumálaerfiðleikar valdið misskilningi og alið á fordómum. Í þessu verkefni gegna leikskólar og grunnskólar bæjarins veigamiklu hlutverki.

Niðurlag
Með þessari samantekt er leitast við að gefa yfirsýn yfir þau málefni er varða hagsmuni fjölskyldunnar. Umfjöllunin er ekki tæmandi um þá málaflokka sem snúa beint eða óbeint að málefnum fjölskyldunnar.
Það er stefna Grindavíkurbæjar að styrkja fjölskylduna sem hornstein þjóðfélagsins og treysta samheldni hennar og velferð. Fjölskyldustefnunni er ætlað að hafa áhrif á að ákvarðanataka á málasviði fjölskyldunnar sé samræmd. Fjölskyldustefnan á að vera þeim sem koma að framkvæmd hennar hjá bænum hvatning til að vinna saman að því að fjölskyldan og meðlimir hennar búi við öryggi og þroskavænleg skilyrði.
Það er markmið Grindavíkurbæjar að fjölskyldustefnan sé lifandi texti sem þróist og taki breytingum með aðstæðum og viðhorfum á líðandi stund.


Samþykkt sem tillaga til bæjarstjórnar á 1000. fundi bæjarráðs Grindavíkur 13. mars 2002.

Staðfest í bæjarstjórn Grindavíkur 13. mars 2002.

Einar Njálsson, bæjarstjóri

 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR SÍĐUR