Slysavarnadeildin Ţorbjörn 90 ára í dag

  • Fréttir
  • 2. nóvember 2020
Slysavarnadeildin Ţorbjörn 90 ára í dag

Það var á þessum degi, 2. nóvember 1930 sem 56 karlar og konur í Grindavík komu saman og stofnuðu Slysavarnadeildina Þorbjörn. Fljótlega eftir stofnun sendi Slysavarnarfélag Íslands fluglínutæki til Grindavíkur, en þau voru áður óþekktur björgunarbúnaður hér á landi. Í dag eru innan Slysavarnardeildarinnar Þorbjarnar; Björgunarsveitin Þorbjörn, Slysavarnardeildin Þórkatla og Unglingadeildin Hafbjörg

Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri hjá Þorbirni hf var í mörg ár formaður Slysavarnardeildarinnar Þorbjarnar. Það var líka faðir hans heitinn, Tómas Þorvaldsson.  Gunnar spjallaði við Kristínu Maríu, umsjónarmann vefsíðu bæjarins fyrir helgi og fór yfir söguna og það sem helst hefur staðið upp úr í starfi sveitarinnar. Gunnar segir stofnun deildarinnar fyrir 90 árum hafi verið mikið gæfu- og framfararspor fyrir öryggi sjómanna en líka í skipulagi öryggismála á Íslandi yfir höfuð. 

Fluglínutæki fyrst notuð hér á landi við björgun í Grindavík

24. mars 1931 strandaði franski togarinn CAP FAGNET frá Fécamp skammt frá bænum Hrauni í suðaustan stormi. Hraðboði var sendur frá bænum Hrauni til að ræsa út hina nýstofnuðu slysavarnardeild. Björgunarmenn notuðu  nú hinn nýja björgunarbúnað og skutu línu í togarann. Tókst það í fyrsta skoti og tókst að bjarga allri áhöfn togarans, 38 talsins, til lands með fluglínutækjum og björgunarstól. Var þetta í fyrsta skipti sem fluglínutæki voru notuð til björgunar á Íslandi. 
Síðan þá hefur grindvísku björgunarfólki auðnast sú mikla gæfa að bjarga á þriðja hundrað sjómönnum úr strönduðum skipum með fluglínutækjum og sjómönnum úr sjávarháska úr skipum sem hafa strandað eða farist. 

Rétt er að geta þess að fluglínubyssan sem notuð var við þessa fyrstu björgun er á bláa þrífætinum í tækjageymslu sveitarinnar og fyrsti björgunarstóllinn þar undir og sjá má á myndinni hér til hliðar. 


Árið 1947 var stofnuð sérstök björgunarsveit innan deildarinnar og var hennar hlutverk að hafa á að skipa sérþjálfuðu fólki til björgunarstarfa. Fyrsta aðgerð sveitarinnar var björgun 15 skipverja af breska togaranum Lois sem strandaði á Hraunsfjöru 1947 en skipverji fórst. 


Fyrsta hús deildarinnar var skýlið við Múla en það var tekið í notkun 10. Desember 1933 og var það sérstaklega byggt yfir tæki og búnað deildarinnar. Á gamlársdag 1975 gaf Þorbjörn hf. deildinni verbúðina Hrafnabjörg þar sem sveitin byggði síðan tækjageymslu við. 


Árið 1987 tók sveitin formlega í notkun bátaskýlið Oddsbúð sem byggð var sérstaklega fyrir björgunarbátinn Odd. V. Gíslason. 
Árið 1999 var ný björgunarstöð sveitarinnar vígð og var sveitin nú komin með alla starfsemi sína á einn stað. 


Fyrsta bílinn eignaðist sveitin árið 1969 sem var af gerðinni Dodge Weapon. Fyrsta bátinn eignaðist sveitin 1972 þegar Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur gaf sveitinni nýjan 10 manna slöngubát af Zodiac gerð. Árið 1985 festi sveitin kaup á tæplega átta metra löngum harðbotna slöngubáti frá Bretlandi, sem nefndur var Oddur V. Gíslason til minningar um frumkvöðul slysavarna á Íslandi, en séra Oddur Vigfús Gíslason þjónaði sem prestur að Stað í Grindavík árið 1878 – 1894. Báturinn var með 165 hestafla díselvél og var ganghraðinn allt að 30 sjómílur á klukkustund. Það má segja að þessi bátur hafi verið upphafið af þeirri þróun sem varð á sveitinni síðar. 


Árið 1990 endurnýjaði sveitin Zodiac slöngubátinn og keypti öflugri bát sem skráður er fyrir 12 manns. Báturinn var vígður á sjómannadaginn 1991 og var hann nefndur Hjalti Freyr til minningar um tvo félaga sveitarinnar sem létust ungir af slysförum. 
Bátur þessi skemmdist síðar á æfingu sveitarinnar í brimsiglingu og var endurnýjaður. Árið 1993 var ákveðið að endurnýja Odd V. Gíslason og fá stærri bát. Keyptur var notaður björgunarbátur af Björgunarfélagi Vestmannaeyja. Sá bátur var 10 metra langur með tveimur vélum og mun öruggari en sá fyrsti. 

Árið 1998 er enn ráðist í endurnýjun á björgunarbáti og keyptur notaður björgunarbátur af hinu virta breska björgunarfélagi Royal National Lifeboat Institution (RNLI). Báturinn er ríflega 16 metra langur og um 43 brúttórúmlestir að stærð. Hann var líka nefndur Oddur V. Gíslason eins og fyrirrennarar hans. 

Fyrsta útkall nýja bátsins var tæplega þremur mánuðum eftir komu hans til landsins eða í febrúar 1999. Þá bjargaði báturinn netabátnum Eldhamri GK frá því að reka vélarvana upp í Krýsuvíkurberg. Báturinn hefur síðan farið í fjölmargar ferðir til aðstoðar og bjargar og má þar helst nefna björgun flutningaskipsins TRINKET var bjargað, þá var Oddur V. Kominn að skipinu 7 mínútum eftir útkall. Þá var skipið um 150 metra frá brimgarðinum en þegar búið var að koma dráttartógi á milli, sem tók skamma stund, þá voru einungis 50 metrar upp í brimið. 

Hér er aðeins stiklað á stóru í sögu Slysavarnardeildarinnar Þorbjarnar, sagan er löng og stórmerkileg en líka átakanleg og sorgleg þegar verkefnin hafa verið erfið og mannskæð. Við færum öllum þeim sem unnið hafa fyrir sveitina í gegnum árin hjartanlegar hamingjuóskir með stórafmælið. Slysavarnasveitin er ein sú öflugasta á landinu. Það verður seint hægt að fullþakka öllum þeim sjálfboðaliðum sem hafa lagt henni lið í gegnum árin með þrotlausri vinnu og metnaði. 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 23. nóvember 2020

Er von á gestum erlendis frá um jólin?

Fréttir / 23. nóvember 2020

Gefum af okkur - sýnum góđvild og samkennd

Fréttir / 19. nóvember 2020

Piss, kúkur og klósettpappír

Tónlistaskólafréttir / 18. nóvember 2020

Kennsla í tónlistarskólanum 19. nóvember

Fréttir / 18. nóvember 2020

Miklar framkvćmdir í Kvikunni

Fréttir / 17. nóvember 2020

Krakkar á Króki gleđja börn í Úkraínu

Fréttir / 10. nóvember 2020

Höldum áfram ađ lćra og komum hlutum í verk

Fréttir / 6. nóvember 2020

Axel á Bryggjunni gefur út nýtt lag

Grunnskólafréttir / 6. nóvember 2020

Ţakkir frá stjórnendum

Grunnskólafréttir / 5. nóvember 2020

Endurskinsmerki

Fréttir / 5. nóvember 2020

Megum viđ leika eftir skóla?

Fréttir / 4. nóvember 2020

Grímuskylda

Tónlistaskólafréttir / 3. nóvember 2020

Hefđbundin kennsla einkanemenda

Fréttir / 2. nóvember 2020

Einstakur félagsskapur og áhugamál

Fréttir / 2. nóvember 2020

Dzień organizacyjny w przedszkolach