Skráningar fram úr björtustu vonum

  • Fréttir
  • 8. júlí 2020

Janus Guðlaugsson, eigandi Janus heilsuefling fór síðla árs í fyrra af stað með heilsueflingu fyrir 60 ára og eldri hér í Grindavík. Kveikjan að verkefninu segir hann vera tvíþætta. Annars vegar áhugi Stefaníu Jónsdóttur hjúkrunarfræðings og deildarstjóra öldrunarþjónustu um að innleiða verkefnið í Grindavík og hins vegar góðar undirtektir og árangur verkefnisins hjá nágrönnum okkar í Reykjanesbæ. Við tókum Janus tali í nýjasta tölublaði Járngerðar sem lesa má í heild sinni hér. 


Undirtektir mjög góðar í Grindavík 
„Undirtektir hafa verið mjög góðar og skráningar í verkefnið farið fram úr björtustu vonum en mér sýnist að um 60% af aldurshópnum 65 ára og eldri hafa skráð sig til leiks og hafið æfingar. Við þurftum því miður að fresta innleiðingu verkefnis vegna Covid-19 en nú er verkefnið komið af stað og gengur mjög vel. Hópur hinna eldri er samheldinn og mjög áhugavert að vinna með hann, bæði í æfingum sem og í fræðsluerindum. Mætingin hefur einnig verið mjög góð en fræðsluerindin eru stór þáttur í því að ná þeim markmiðum sem stefnt er að með verkefninu. 

Kyrrseta hefur alvarlegar afleiðingar
Kynningarfundurinn 1. mars gekk mjög vel. Mjög góð mæting var á fundinum og skráning að honum loknum mjög góð en um 90 þátttakendur skráðu sig í verkefnið og hafa þegar hafið æfingar. Covid-19 faraldurinn setti strik í reikninginn þar sem við gátum ekki hafið æfingar fyrr en samkomubanni lauk. Þrátt fyrir það héldum við æfingum úti í gegnum fjarþjálfun, bæði með 
fréttapistlum og heilsupistlum sem við sendum þátttakendum. 
Þá erum við með lokaða Facebook síðu þar sem aðgengi þeirra að upplýsingum var til staðar auk þess sem þau fengu heimaæfingar og myndbönd með þeim til að vinna eftir. Við hringdum einnig í þátttakendur og hvöttum þau til dáða að stunda daglega hreyfingu þrátt fyrir samkomubannið. Þetta var gert þar 
sem vitað er að kyrrseta fyrir þennan aldurshóp getur haft mjög slæmar afleiðingar í för með sér, bæði andlegar, félagslegar sem líkamlegar. Þessari nálgun okkar var mjög vel tekið

Hægt að mæla árangur eftir 6 mánuði
Við komum til með að mæla hópinn á 6 mánaða fresti svo við höfum aðeins lokið svonefndri gunnmælingu. Höfum greint stöðuna hjá hópnum í heild og hverjum og einum fyrir sig en þátttakendur hafa þegar fengið niðurstöður sínar frá 1. mælingu. Þeir geta nú borið eigin niðurstöður saman við ákveðnar viðmiðanir sem við höfum látið hópinn fá m.t.t. aldurs þeirra. Við sjáum síðan í annarri mælingu, sem verður um mánaðarmótin ágúst/september, hvernig okkur hefur miðað og hvort Covid-19 faraldurinn hafi sett strik í reikninginn á þessum upphafsmánuðum. Að sex mánuðum liðnum sjáum við því hvernig til hefur tekist og hvort við náum að stemma stigum við ýmsum öldrunareinkennum eins og vörðvrýrnun, aukinni fitusöfnun, hækkandi blóðþrýsting eða kyrrsetu. 

Verkefnið er byggt upp á fjórum sex mánaða þrepum svo við höfum góðan tíma til að aðlaga okkur að heilsutengdum nálgunum og fólkið einnig að gera sér grein fyrir að lísstílsbreyting og farsæl efri ár kalla á markvissa vinnu og oft hugarfarsbreytingu hjá mörgum. Ég tel að þessi aldurshópur sé ekkert frábrugðin öðrum á landinu og sé tilbúinn til afreka á sviði lífsstíls og heilsu.

Fyrirmyndar aðstæður í Grindavík 
Það hefur verið einstaklega ánægjulegt að fá tækifæri til að innleiða verkefnið hér í Grindavík. Vil nota tækifærið og þakka fyrir okkur og þá ábyrgð sem okkur er falið að vinna með þennan aldurshóp. Aðstæðurnar allar eru til sóma í nýjum húsakynnum íþróttamiðstöðvar, annars vegar fyrirlestrasalurinn Gjáin, fjölnota íþróttamannvirkið Hópið sem nýtist ekki síst yfir vetrarmánuði og ágæt aðstaða hjá Gym heilsu til styrktarþjálfunar. Þá er náttúran einstök hér við sjávarsíðuna og fólkið hlýlegt og hefur tekið okkur vel. Ekki má gleyma góðum starfsmönnum bæjarins með Stefaníu Sirrý í broddi fylkingar en hún er okkar tengiliður við bæjarfélagið. Þá hafa forystumenn sveitarfélagins og starfsmenn íþróttamiðstöðvar og Hópsins verið einstakelga hjálplegir við að aðstoða okkur þegar þörf hefur verið á slíku. Það er von okkar að verkefnið ná að festa sig í sessi hér á svæðinu, eldri sem yngri íbúum sveitarfélagsins til sóma.

 

Janus Guðlaugsson, doktor í íþrótta- og heilsufræðum


 

 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!

Fréttir / 2. apríl 2024

Ađstođ viđ fjármál