Mikill vöxtur í Grindavík

  • Fréttir
  • 20. janúar 2020
Mikill vöxtur í Grindavík

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að Grindavíkurbær er sveitarfélag sem er í miklum vexti. Atvinnulífið blómstrar og íbúum fjölgar en sú fjölgun er umtalsvert meiri en almennt gengur og gerist á Íslandi. egar sveitarfélag er í eins miklum vexti og raun ber vitni hér í Grindavík þá fylgja því ýmsir vaxtaverkir og á sama tíma þarf að halda uppi sama þjónustustigi við íbúa. Skipulags- og umhverfissvið Grindvíkurbæjar hefur ekki farið varhluta af þessum vaxtaverkjum og eru verkefnin sem koma inn á borð deildarinnar eins fjölbreytt og þau eru mörg.

Umferðaröryggismál

Umferðaröryggi á Grindavíkurvegi hefur lengi verið ábótavant og hafa umbætur á veginum verið mikið baráttumál okkar Grindvíkinga. Grindavíkurvegur heyrir undir 
Vegagerðina en haustið 2018 var hafist handa við framkvæmdir á Grindavíkurvegi milli afleggjara að Bláa Lóninu og Seltjarnar. Á þessum vegkafla verða akstursstefnur aðskildar og vegköflum breytt í 2+1. Framkvæmdum er við það ljúka. 

Vegagerðin kom að öðru verkefni til að auka umferðaröryggi við Grindvíkurbæ en það eru undirgögn við Suðurhóp. Framkvæmdin er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar og Grindavíkurbæjar. Framkvæmdir gengu ágætlega eftir tafir í upphafi. Undirgögnin eru mikil samgöngubót hvað varðar öryggi gangandi umferðar á svæðinu, þá sérstaklega barna sem þurfa að þvera Víkurbraut til að komast til skóla, æfinga eða vina sinna.

Fyrir nokkrum árum þá var útbúin umferðaröryggisáætlun Grindvíkurbæjar sem átti að gilda milli áranna 2014 og 2017. Áætlunin hefur ekki verið uppfærð en töluvert hefur unnist af því sem sett var fram í þeirri áætlun. Á dagskrá er að uppfæra umferðaröryggisáætlunina til næstu 3-4 ára. Líta ber á umferðaröryggisáætlun sem leiðbeiningar frá stjórnsýslunni, íbúum og ráðgjöfum sveitarfélagsins. Þannig fá bæjarfulltrúar góða innsýn í stöðumatið og niðurstöður verkefna og óskir um forgangsröðun.Umferðaröryggisáætlun þarf að bera undir bæjarstjórn til samþykktar. Ábyrgðaraðili Umferðaröryggisáætlunar er sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs. Allar ábendingar um umferðar-öryggismál eru vel þegnar á netfangið atligeir@grindavik.is.   

Byggingarframkvæmdir
Bygging á nýjum íþróttasal við íþróttamiðstöð Grindvíkurbæjar lýkur núna undir lok árs 2019. Um er að ræða u.þ.b. 2.000 m2 byggingu á þremur hæðum. Á fyrstu hæð er forrými sem er hluti anddyris í íþróttamiðstöð þaðan sem hægt er að ganga inn í salinn og búningsaðstöðu. Á milli núverandi íþróttasalar og þess nýja er áhaldageymsla sem innan gengt er úr báðum rýmum. Hægt er að komast inn í báða sali úr nýrri búningsaðstöðu. Á annarri hæð er fjölnota íþróttasalur ásamt lyftuhúsi og stigagangi. Á þriðju hæð er tæknirými. 

Framkvæmdum  við breytingar á bæjarskrifstofum lýkur á árinu. Framkvæmdin er seinni áfangi af framkvæmd sem hófst árið 2015. Helstu verkþættir voru rif og förgun veggja, lofta, gólfefna og hurða og svo uppsetning milliveggja ásamt nýjum innihurðum, innréttingum, salernum og nýjum gólfefnum og loftum. 

Gatnakerfi og gatnalýsing 
Í haust var farið í malbikunarframkvæmdir (yfirlögn) á Víkurbraut, Bakkalág og Seljabót. Þá var lokið við malbikun á bílastæðum framan við Hópið. Boðin voru út efniskaup á nýjum lömpum fyrir gatnalýsingu en útboðið er liður í led-væðingu gatnalýsingar til næstu þriggja ára. 

Hafin er vinna við að uppfæra stýribúnað fyrir gatnalýsingu sem hefur verið að bila ítrekað eins og íbúar hafa orðið varir við. Á þessu ári er gert ráð fyrir að uppfæra 9 stýriliða fyrir gatnalýsinguna og 11 á því næsta. Þegar þessari framkvæmd verður lokið þá mun Grindavíkurbær sjálfur hafa stjórn á gatnalýsingunni sem áður var á höndum HS veitna.

Vinna við endurnýjun á brunahönum er hafin. Skipt hefur verið um 8 brunahana á þessu ári og gert er ráð fyrir að endurnýja nokkra brunahana á ári næstu 3-4 ár.  

Skipulagsmál
Eitt helsta verkefni skipulagsnefndar þetta árið hefur verið að ljúka við tillögu að endurskoðuðu aðalskipulagi Grindvíkurbæjar. Tillagan er nú í yfirferð hjá Skipulagsstofnun. Tillagan fer í kynningarferli í samræmi við skipulagslög eftir yfirferð Skipulagsstofnunar. Stefnt er að því að halda íbúafund um tillöguna á næstu vikum. 

Vinna vegna deiliskipulags á nýju íbúahverfi norðan Hópsbrautar (íb10) er hafin. Gert er ráð fyrir að byggja fjölbýlishús, parhús, raðhús og einbýlishús. Áætlaður fjöldi íbúa í hverfinu samkvæmt tillögu að endurskoðuðu aðalskipulagi eru um 670 íbúar. Vonir standa til að skipulagsgerðinni ljúki um mitt næsta ár. 

Deiliskipulag iðnaðarsvæðis við Eyjabakka sem staðfest var í ágúst 2011 er um 33 ha að stærð með 113 lóðum. Þegar hefur verið byggt á hluta þeirra lóða og sumum verið úthlutað. Yfirstandandi er vinna við að stækka deiliskipulagssvæðið við Eyjabakka úr 33 ha í um 60 ha á landi. Á svæðinu er gert ráð fyrir iðnaði og hafnsækinni starfsemi. 

 

Greinin birtist fyrst í jólablaði Járngerðar sem nálgast má í heild sinni hér. 
 

 


 

 


Deildu ţessari frétt