Kvenfélagskonur úr Grímsnesi í heimsókn

  • Fréttir
  • 1. nóvember 2019
Kvenfélagskonur úr Grímsnesi í heimsókn

Það er fjölmargt sem hægt er að koma og skoða og njóta í Grindavík. Því fengu kvenfélagskonur úr Grímsnesi að kynnast sl. laugardag þegar þær heimsóttu kollega sína í Kvenfélagi Grindavíkur.

Laugardaginn sl. þann 26. október komu hressar konur úr Grímsnesi í heimsókn til Grindavíkur. Það voru kvenfélagskonur í Kvenfélagi Grindavíkur sem tóku á móti þeim og sýndu allt það sem í boði er í Grindavík. Konurnar úr Grímsnesi gistu á Geo Hótel. Þær fengu að skoða aðstöðu kvenfélagskvenna í Gjánni. Þennan fallega dag fóru þær í göngu um bæinn og var víða komið við. 


Fornbíla- og dráttavélasýning hjá Hermanni Ólafsyni var skoðuð. Í kjölfarið var borðað á Bryggju kaffihúsi, komið við á Vigt, síðan tók Vignir Kristinnson á móti sínum fyrsta hóp í nýja húsnæði sínu, pakkhúsinu þar sem hann er með vinnustofu sína og vörur undir merkinu Kristinsson.


Þá var verslunarmiðstöðin heimsótt þar sem þær fóru í  Palóma föt og skart og fengu þar góða hressingu. Linda í Palóma er þekkt fyrir mikla gestrisni og góðar móttökur í verslun sína og vinsælt er fyrir hópa að koma og versla. Kíkt var í kaffi hjá höllu en þær enduðu svo kvöldið hjá Láka á Salthúsinu í dýrindis kvöldverði og dúndur balli.

Meðfylgjandi myndir eru af Facebook vef Kvenfélags Grindavíkur en þar eru mun fleiri myndir sem finna má hér. 

 

 


Deildu ţessari frétt