Margrét Kristín : Hljóp 55 km ULTRA maraţon

  • Fréttir
  • 19. júlí 2019
Margrét Kristín : Hljóp 55 km ULTRA maraţon

Margrét Kristín Pétursdóttir 37 ára , 3ja barna móðir gerði sér lítið fyrir og hljóp Laugavegshlaupið síðasta laugardag. Um er að ræða svokallað utlra maraþon þar sem hlaupið er utan vegar, um íslenska náttúru. Hlaupið hefst í Landmannalaugum og hlaupið er í Þórsmörk eða um 55 km langa leið. Margrét Kristín er Grindvíkingur og gift Jóhanni Helgasyni. Þau eiga börnin Helga Hafstein, Kamillu Kristínu og Árna Hafberg. Okkur lék forvitni á að vita hvernig bæði undirbúningurinn og hlaupið gekk hjá Margréti.

Hvað varð til þess að þú tekur ákvörðun að fara í undirbúning fyrir ultra maraþon og hlaupa 55 km langar Laugaveg?
Ætli kveikjan hafi ekki bara verið að ég var hætt að nenna í ræktina. Ég þurfti einhverja hreyfingu sem hentaði mér betur. Ég elska að fara út að hlaupa á þeim tíma sem að mér dettur í hug. Í vinnu og með stórt heimili hentar þetta fullkomlega. Ég hljóp oft eftir að krakkarnir voru sofnaðir, nokkurskonar miðnæturjogg, sem mér fannst geggjað.  Ég hef áður sett mér langtímamarkmið og náð því, síðast fórum við frænkurnar í hálfmarathon í New York í mars og æfðum útihlaup allan veturinn. Það var æðislega gaman. Mig langaði að gera eitthvað svipað og jafnvel eitthvað aðeins stærra. Laugarvegshlaupið hefur alltaf heillað. Ég á það til að vera frekar leiðigjörn og því hef ég fallið algjörlega fyrir utanvegahlaupum, þar er undirlagið og umhverfið svo fjölbreytt.  Síðan er svo spennandi að setja sér einhver hræðilega háleit markmið, þá neyðist maður til þess að æfa skynsamlega.
 
Hvað var það sem skipti mestu máli við undirbúninginn?
Mestu máli skiptir að fylgja áætlun. Ég myndi flokka mig sem byrjandahlaupara í þessum geira, ég vissi að ég hefði enga þekkingu til þess að útbúa æfingaráætlun fyrir sjálfan mig og skráði mig því á Undirbúningsnámskeið fyrir Laugarveginn hjá þeim Sigga Pé og Torfa Leifs hjá hlaup.is. Þeir eru algjörir snillingar og hafa haldið svona námskeið í fjöldamörg ár. Áætlunin var mjög persónumiðuð m.t.t líkamlegs ástands, hreyfingu í gegnum árin, meiðsl og síðan markmiðin sem maður langar að setja sér fyrir þetta tiltekna hlaup. Þetta námskeið reyndist vera algjör snilld, maður fræddist heilan helling um hlaup og hlaupalífstílinn. Maður kynntist líka fullt af æðislegu fólki sem deilir sama hlaupaáhuga. Þjálfararnir voru alltaf tiltaks og sýndu hverjum og einum mikinn áhuga og hvöttu okkur áfram fram í blálokin.
 
Hvað er það sem stendur upp úr eftir svona afrek?
 
Brálað mikið stolt, sjálfsmatið fer uppúr öllu valdi. Nú held ég í alvöru að ég geti gert hvað sem mig dettur í hug.
 
Var eitthvað sem kom þér á óvart?
Samkenndin og hvatningin sem maður fékk frá öllum á staðnum var mögnum. Sama hvort maður var fyrstur eða síðastur, það unnu allir afrek sem náðu að hlaupa þetta. Það vildu allir hjálpa hvorum öðrum að klára þetta. Stemmingin var geggjuð. 
 
Hvaða lærdóm dregurðu af því að hafa farið þetta hlaup?
Maður getur gert hvað sem maður vill, ef maður er tilbúin að setja tíma og sjálfsaga í það. Það er til leið að öllum stórum verkefnum, það er bara að finna réttu og skynsamlegu leiðina.  Lífið er of stutt til þess að fresta einhverjum leyndum draumum, það er alltaf þess virði að fara út fyrir þægindarammann og standa með sjálfum sér og sinni stefnu.
 
Myndir þú hlaupa aftur?
Allan daginn. Hugsaði það allan tímann í hlaupinu, alveg sama hversu þreytt ég var, þetta myndi ég sko gera aftur. Tilfinningin að koma í mark var síðan ólýsanleg, eitthvað sem maður verður að fá að upplifa aftur.
 

Náttúran við Hrafntinnusker

Margrét Kristín með Árna Hafberg og Ágústu Óskarsdóttur, móður sinni eftir að komið var í mark

Með frænda sínum Páli Hreinu og Svövu unnustu hans. 

Á leiðinni í mark 


Deildu ţessari frétt