Forseti Íslands heimsótti Grunnskóla Grindavíkur

  • Grunnskólafréttir
  • 3. október 2018

Forseti Íslands, Hr. Guðni Th. Jóhannesson, heimsótti í dag Grunnskóla Grindavíkur í tilefni af hinum árlega forvarnardegi forsetans. Guðni hitti nemendur 9.bekkjar í salnum og hélt þar stutta tölu ásamt því að fylgjast með öðrum fyrirlesurum dagsins og taka þátt í hópastarfi nemenda.

Í ræðu Guðna kom hann meðal annars inn á gildi þess að vera laus við fíknir og að sá hefði meira frelsi sem væri laus við t.d. tóbaksfíkn en sá sem fyndist hann þurfa að reykja. Guðni tók einnig fram að hann ætlaði sér ekki að banna neinum eitt eða neitt heldur frekar ræða um forvarnir á annan hátt. Grínaðist hann með að hann hefði einhvern tíman ætlað að banna einn ákveðinn hlut og það hefði vakið misjöfn viðbrögð og átti þar við frægt mál um ananas og pizzur.



Aðrir fyrirlesarar í dag voru Gunnar Þorsteinsson fyrirliði knattspyrnuliðs Grindavíkur, Pétur Guðmundsson markþjálfi og fyrrum köfuknattleiksleikmaður og svo þau Katrín og Skúli frá Björgunarsveitinni Þorbirni. Ræddu þau fíkn og forvarnir við nemendur frá ýmsum hliðum við góðar undirtektir nemenda.



Nemendur skiptust svo í hópa og ræddu ýmsar spurningar sín á milli tengdar forvörnum. Kynntu þau svo verkefnin fyrir hvort öðru og gestum dagsins.



Óhætt er að segja að dagskráin hafi heppnast vel og viljum við nota tækifærið og þakka Forseta Íslands og öðrum fyrirlesurum kærlega fyrir þeirra innlegg í daginn. Guðni Th. lét sér reyndar ekki nægja að hitta nemendur 9.bekkjar í salnum heldur snæddi hann einnig hádegismat ásamt nemendum á mið- og unglingastigi. 


Pétur Guðmundsson ræddi við nemendur sem voru á fullu í hópastarfi að loknum fyrirlestrum.


Guðni ásamt Guðbjörgu M. Sveinsdóttur skólastjóra og Petrínu Baldursdóttur deildarstjóra unglingastigs.






Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir