Grindavík Íslandsmeistarar í 10. fl. kvenna

  • Körfubolti
  • 15. maí 2018

Grindavík landaði Íslandsmeistaratitli um helgina þegar stúlkurnar í 10. flokki lögðu erkifjendur sína í Keflavík með töluverðum yfirburðum, en lokatölur leiksins urðu 53-36, Grindavík í vil. Þessi titill er enn ein rósin í hnappagat þessa flokks og Ólafar Helgu Pálsdóttur þjálfara þeirra en þær hafa landað ófáum Íslands- og bikarmeistaratitilum síðustu ár. Stelpurnar kórónuðu með þessum sigri fullkomið tímabil, en þær unnu 21 leik í vetur og töpuðu engum. Framtíðin hjá Grindavík er greinilega björt.

Karfan.is gerði leiknum góð skil:

Grindavík er Íslandsmeistari í 10. flokki stúlkna eftir yfirburðarsigur á Keflavík. Lokatölur voru 36-53 í leik þar sem Grindavík byrjaði hægt en keyrði sig í gang upp úr öðrum leikhlutanum. Besti leikmaður leiksins var Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir sem var örugg með 12 stig og 15 fráköst.

Gangur leiksins

Keflavík fór betur af stað í byrjun og voru fljótar að ná 11-4 forystu með góðu spili og þremur þristum. Grindavík gat þó klórað sig aftur í gang eftir leikhlé með sex stigum í röð til að loka leikhlutanum, 11-10.

Keflavík fór aftur betur af stað í öðrum leikhlutanum og skoruðu átta stig gegn aðeins tveimur hjá Grindavík. Aftur tók Ólöf Helga, þjálfari Grindavíkur, leikhlé og dæmið snerist alveg við í seinni hluta leikhlutans þar sem þær gulklæddu skoruðu átta stig gegn tveimur hjá Keflavík. Staðan í hálfleik var því 21-20, Keflavík í vil.

Grindavík átti magnaðan þriðja leikhluta þar sem að þær skoruðu 13 stig gegn sex hjá Keflavík áður en Jón Guðmunds, þjálfari Keflavíkur, tók fyrsta leikhléið sitt. Það stoðaði þó lítið þar sem að Grindavík hélt áfram og skoraði sjö stig í röð áður en Jón sá sig tilneyddan til að taka seinna leikhléið sitt í seinni hálfleik. Keflavík gat stöðvað áhlaup í leikhlutanum en gátu ekki skorað til að minnka muninn. Staðan í lok leikhlutans var því 27-40, Grindavík í vil.

Í lokaleikhlutanum hélt Grindavík áfram að rúlla og um miðjan leikhlutann í stöðunni 31-47 skipti Jón Guðmundsson mínútufærri leikmönnum sínum inn á. Þær fengu sitt tækifæri að laga stöðuna en þær gátu aðeins haldið stöðunni jafnri, 5-6. Leiknum lauk 36-53 og Grindavíkurstelpurnar eru því Íslandsmeistarar í 10. flokki stúlkna árið 2018.

Tölfræði leiksins

Grindavík átti frákasta baráttuna í leiknum enda luku þær leik með 55 fráköst (þ.a. 21 sóknarfráköst) gegn aðein 30 fráköstum (þ.a. 8 sóknarfráköst) hjá Keflavík. Þær gulklæddu tóku næstum því jafnmörg sóknarfráköst og öll varnarfráköst Keflavíkur (21 vs. 22). Keflvíkingar áttu slakan seinni hálfleik þar sem að þær skoruðu aðeins 15 stig á 16 mínútum. Þær hittu aðeins úr 7 skotum í öllum seinni hálfleiknum og þar af aðeins einum þristi (1/10, 10% þriggja stiga nýting).

Hetjan

Thea Ólafía Lucic Jónsdóttir var frábær í leiknum enda skoraði hún 12 stig, tók 15 fráköst (þ.a. 5 sóknarfráköst) og var með bestu skotnýtingu síns liðs (46.2% skotnýting utan af velli). Hún var valin besti leikmaður úrslitaleiksins og var vel að því komin. Aðrar góðar hjá Grindavík voru þær Una Rós Unnarsdóttir (9 stig, 5 fráköst, 7 stoðsendingar og 5 stolnir boltar) og Anna Margrét Lucic Jónsdóttir (12 stig, 4 fráköst og 4/8 í þristum). Hjá Keflavík voru fæstar með góðan leik en stigahæstar voru þær Sara Lind Karlsdóttir og Agnes María Svansdóttir, báðar með 8 stig.

Tölfræði leiks

Viðtal við Theu Ólafíu, Grindavík:

 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir