Dagskrá Menningarviku Grindavíkur 10.-18. mars

  • Fréttir
  • 6. mars 2018

Menningarvika Grindavíkur er nú haldin í tíunda sinn og að vanda er dagskráin fjölbreytt. Formleg setning hátíðarinnar verður í Grindavíkurkirkju laugardaginn 10. mars kl. 16:00. Að þessu sinni er áhersla lögð á það sem sameinar okkur, sama hver bakgrunnur okkar er. Dagskrá Menningarviku er að vanda að finna í Járngerði.

Nemendur leikskólanna hafa unnið með Önnu Sigríði Sigurjónsdóttur myndhöggvara undir merkjum fjölmenningar og ákváðu að í stað þess að horfa á það sem gerir okkur mismunandi á einn eða annan hátt, horfum við á hvað það er sem við eigum sameiginlegt óháð uppruna, kyni eða aldri. Sýning á verkum þeirra verður í Kvikunni og áhugavert að sjá hvað það er sem þeim finnst sameina fólk og við eiga sameiginlegt. Sýningin heitir Hjartsláttur og gott fyrir fullorðna að hlusta á skilaboð unga fólksins okkar og hlusta um leið og við skoðum.

Fjölbreyttir viðburðir verða í Grunnskólanum og nemendur Tónlistarskólans standa fyrir fjölbreyttri dagskrá. Áhersla er lögð á unga fólkið og listsköpun þeirra og á opnunarhátíðinni stíga ungir söngvarar á stokk og leyfa íbúum að njóta færni sinnar en þau hafa verið á námskeiði frá byrjun árs. Auk tónleikanna á opnunarhátíð Menningarviku halda þau tónleika í Kvikunni þar sem hóparnir fimm sem sótt hafa námskeiðið flytja dagskrá sína. 

Veitingastaðir bjóða Grindvíkingum til mikillar veislu og auk síns hefðbundna góðgætis heimsækja fjölmargir tónlistarmenn veitingin heim á Menningarvikunni. Í Kvennó verður litið til fortíðar þar sem sagt verður frá ævi og störfum fjögurra einstaklinga sem bjuggu í Grindavík á fyrri hluta 20. aldar og settu öll mark sitt á samfélagið. Stór og glæsilegur karlakór kemur alla leið frá Manchester á Englandi og flytur fjölbreytta dagskrá, Sævar Helgi skoðar himingeiminn með gestum Bókasafnsins, kynntar verða bækur sem snerta Grindavík og Grindvíkinga og á morgnana verður hægt að hlusta á áhugaverðar frásagnir á Bryggjunni. Lokatónninn er svo sleginn á sunnudag, 18. mars með tónleikum Eyjólfs Ólafssonar í Grindavíkurkirkju og á laugardeginum heimsækja félagar í leikhópnum Lottu Grindavík með sýninguna Galdrakarlinn í Oz. Allir ættu sannarlega að finna eitthvað við sitt hæfi á Menningarvikunni.

Sem fyrr er uppistaðan í Menningarvikunni framlag heimamanna auk þess sem fjöldi landsþekktra listamanna og skemmtikrafta sækja Grindvíkinga heim. Undanfarin ár hefur Menningarvikunni verið vel tekið og Grindvíkingar duglegir að taka þátt og njóta þess fjölbreytta úrvals viðburða sem í boði er. Allir leggjast á eitt við að bjóða uppá fjölbreytta og skemmtilega dagskrá og eru Grindvíkingar hvattir til að nýta sér tækifærið og fjölmenna á menningarviðburðina. Menningarvikan er skipulögð af Björgu Erlingsdóttur, sviðsstjóra frístunda- og menningarsvið en fjöldi fólks aðstoðar og leggur til hugmyndir, húsnæði og krafta sína.

Dagskrá Menningarviku 2018 - 1. tbl. Járngerðar (bls. 11 og áfram)
 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir