Ţorgrímur Ţráinsson heimsótti 5. og 6. bekk

  • Grunnskólinn
  • 7. febrúar 2018
Ţorgrímur Ţráinsson heimsótti 5. og 6. bekk

Rithöfundurinn Þorgrímur Þráinsson kom í gær í heimsókn til okkar á Ásabrautina og ræddi við nemendur í 5. og 6. bekk. Hann sagði nemendum meðal annars frá hvernig hann vinnur þegar hann skrifar bækur sínar og nemendur fengu svo í hendur ritunarverkefni sem hann aðstoðaði þau við að leysa.

Þorgrím þekkja auðvitað flestir en hann hefur gefið út fjölmargar bækur, líkt og "Henri og hetjurnar", "Henri hittir í mark", "Tár, bros og takkaskór", "Spor í myrkri", "Svalasta 7an" og fjölmargar aðrar bækur sem hafa slegið í gegn hjá börnum og unglingum.

Það var því mikil eftirvænting í gær þegar hann mætti á svæðið. Þorgrímur byrjaði á því að ræða við nemendur um sögugerð og ferlið sem hann fer í gegnum þegar hann skrifar sínar bækur. Hann tók dæmi úr bókum sem krakkarnir þekkja og hlustuðu þau af miklum áhuga og spurðu spurninga þegar færi gafst.

Að loknum fyrirlestrinum fór svo hver bekkur í sína stofu þar sem Þorgrímur lagði fyrir nemendur ritunarverkefni. Hann fór síðan á milli kennslustofanna og aðstoðaði þá sem þurftu hjálp.

Krakkarnir höfðu greinilega fengið töluverðan innblástur við fyrirlestur Þorgríms því þau byrjuðu að skrifa heilu ritverkin auk þess sem biðröð var á bókasafninu eftir bókum Þorgríms.

Hér fyrir neðan má sjá fleiri myndir frá heimsókninni.


Deildu ţessari frétt