Vel heppnuđ afmćlishátíđ Guđbergs í Kvikunni

  • Menningarfréttir
  • 14. nóvember 2017

Mánudaginn 16. október var blásið til afmælisveislu í Kvikunni. Tilefnið var 85 ára afmæli Guðbergs Bergssonar og afmælinu fagnað með kynningu á tveimur verkefnum sem verið er að vinna að og tengjast Guðbergi órofa böndum. Kynningin var haldin í samvinnu Kvikunnar, Bókasafns Grindavíkur og Bókasafns Reykjanesbæjar með styrk frá Uppbyggingarsjóði. Gestir komu sér vel fyrir á efri hæð hússins en þeirra beið svo afmæliskaffi að kynningu lokinni. 

Kynnt voru tvö verkefni sem hafa verið í undirbúningi síðustu misserin. Annað verkefnið er unnið á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Grindavíkurbær hefur ásamt nokkrum fyrirtækjum í bænum stutt við verkefnið og dr. Birna Bjarnadóttir bókmenntafræðingur, stýrir því. Um er að ræða útgáfu bókarinnar Heiman og heim en bókin er safn greina um skáldskap og þýðingar Guðbergs Bergssonar, eftir innlenda og erlenda höfunda. Bækur Guðbergs hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál en Guðbergur fæst einnig við þýðingar verka annarra höfunda.

Birna Bjarnadóttir þekkir vel til verka Guðberg, er doktor í skáldskap Guðbergs og veitti Íslenskudeild Manitóbaháskóla forstöðu um árabil. Um þessar mundir vinnur hún að verkefnum við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, þar á meðal ritstjórn bókarinnar Heiman og heim. Birna leiðir einnig sjálfstætt samstarfsverkefni lista- og fræðimanna sem ber heitið Leiðangurinn á Töfrafjallið (2013-2020). Birna hefur áður heimsótt Grindvíkinga og deilt með þeim þekkingu sinni á verkum Guðbergs og var frásögn hennar einkar fróðleg.

Guðbergur Bergsson hlaut hin íslensku bókmenntaverðlaun árið 1991 fyrir skáldsöguna Svaninn. Seinna erindi kvöldsins fjallar einmitt um það skáldverk og kvikmynd sem gerð hefur verið eftir verkinu. Ása Helga Hjörleifsdóttir, kvikmyndaleikstjóri sagði frá kvikmyndinni og því hvernig skáldverk Guðbergs hafa verið nærverandi uppvöxt hennar, samstarfi við höfundinn í undirbúningi myndarinnar og hvatninguna hans sem styrkti sjálfstæði hennar sem listamanns.

Guðbergur og verk hans hafa fylgt Ásu Helgu frá barnæsku hennar, hún er dóttir Birnu og áhugavert að heyra frásögn hennar af gerð myndarinnar og uppvextinum hjá bókmenntafræðingnum sem sérhæfði sig í verkum Guðbergs. Gestir fengu að sjá brot úr myndinni og ljóst að áhugaverð kvikmynd bíður okkar þegar hún verður frumsýnd á nýju ári.

Ása er handritshöfundur og leikstjóri, en hún lauk MFA prófi í kvikmyndagerð frá Columbia háskóla í New York vorið 2012. Hún hefur skrifað, leikstýrt og klippt fjölda stuttmynda, og ber þá helst að nefna verðlaunamyndirnar Ástarsaga og Þú og ég, en Ástarsaga komst meðal annars í lokaúrtak fyrir Óskarverðlaunin 2013 í flokki útskriftarmynda úr kvikmyndaskólum. Kvikmyndin Svanurinn er fyrsta mynd Ásu í fullri lengd. Svanurinn var frumsýnd við lofsamlegar viðtökur á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto í september síðastliðnum, og verður frumsýnd á Íslandi í byrjun janúar 2018.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 10. apríl 2024

NIE ZAPOMINAJMY O OKAZJACH DO RADOSCI

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!