Grindavík tapađi heim gegn Tindastóli í jöfnum leik

  • Körfubolti
  • 27. október 2017

Það voru tvö gríðarsterk lið sem mættust í Mustad-höllinni í kvöld en spekingarnir hafa flestir spáð þeim í toppbaráttuna í ár. Bæði lið eru afar vel mönnuð með valinn mann í hverju rúmi og má segja að leikurinn í kvöld hafi verið stál í stál frá fyrstu mínútu. Hvorugt liðið náði afgerandi forystu og um leið og annað þeirra gerði sig líklegt kom áhlaup frá hinu og þannig gekk leikurinn koll af kolli til enda þegar Stólarnir kláruðu leikinn meðan Grindvíkingar áttu í stökustu vandræðum með að kaupa sér körfu. Lokatölur leiksins Grindavík 81 - Tindastóll 88.

Áður en leikurinn hófst risu áhorfendur úr sætum og höfð var mínútu þögn til að minnast Magnúsar Andra Hjaltasonar, fyrrum formanns körfuknattleiksdeildar UMFG. Magnús féll frá í vikunni aðeins 59 ára að aldri og allur aðgangseyrir kvöldsins rann óskiptur til fjölskyldu hans.

Atvikin
Sigurður Gunnar Þorsteinsson hefur oft fengið dæmdar á sig klaufalegar villur en því var ekki að skipta í kvöld. Í staðinn fékk hann trekk í trekk dæmdar á sig villur fyrir litlar sem engar sakir, og eftir aðeins rúmar 4 mínútur var hann kominn með þrjár slíkar og settist á bekkinn. Fjórðu villuna fékk hann svo dæmda á sig þegar hann virtist ná hreinu vörðu skoti og aftur fékk hann sér sæti á tréverkinu. Fimmta villan kom svo snemma í 4. leikhluta og lauk Sigurður leik í kvöld með alls rétt rúmar 12 mínútur af spilatíma. Sigurður hefur verið einn af betri leikmönnum Grindavíkur það sem af er vetri og riðlaði þetta leik heimamanna töluvert.

Hetjan
Antonio Hester gerði Grindvíkingum lífið leitt í kvöld, og söknuðu þeir Sigurðar sárt í vörninni. Hester var stigahæstur gestanna með 25 stig og bætti við 13 fráköstum. Hann haltraði útaf og hélt um hnéð í 1. leikhluta en kom fljótlega inná aftur. Sennilega hefði það jafnað leikinn töluvert ef Hester hefði spilað jafn lítið og Sigurður Þorsteinsson.

Gamli maðurinn
Ómar Örn Sævarsson er maður á besta aldri, fæddur 1982, en engu að síður er hann lang elsti leikmaður Grindavíkur. Hann þurfti að taka á sínum stóra sínum í kvöld í fjarveru Sigga Þorsteins og lét Hester hafa töluvert fyrir hlutunum. Ómar mun sennilega taka íbúfen fyrir svefninn og aftur þegar hann vaknar í fyrramálið.

Tölfræðin lýgur ekki
Grindavík hitti illa í kvöld, og þá ekki síst undir lokin þegar Stólarnir sigu fram úr. Þeir tóku 38 þriggja stiga skot en aðeins 8 þeirra rötuðu ofan í, sem gerir 21% nýtingu. Færin voru mörg hver góð en ofan í vildi boltinn ekki.

Kjarninn
Leikurinn í kvöld var jafn og spennandi allan tímann en Stólarnir höfðu þetta á seiglunni í lokin. Grindvíkingar geta þó tekið margt jákvætt út úr þessum leik og það verður spennandi að sjá þessi lið mætast aftur seinna í vetur.

Umfjöllun og forsíðumynd: Siggeir F. Ævarsson

Tölfræði leiksins

Myndasafn - Benóný Þórhallsson

Umfjöllunin birtist fyrst á karfan.is

Viðtal við Jóhann Þór Ólafsson eftir leik:


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir