Grćnfána flaggađ viđ allar skólastofnanir í Grindavík

  • Fréttir
  • 27. janúar 2017

Allir skólar í Grindavík eru nú Grænfánaskólar. Heilsuleikskólinn Krókur vinnur nú að sínum fimmta fána og leikskólinn Laut að sínum fjórða. Að auki hóf Grunnskólinn í Grindavík þátttöku fyrir nokkrum árum og flaggaði sínum fyrsta fána síðastliðið vor. 

Grænfáninn er alþjóðleg umhverfisviðurkenning sem nýtur virðingar víða í heiminum sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Með þátttöku í verkefninu eykst vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Lögð er áhersla á að bæta daglegan rekstur skóla og draga úr sóun og neyslu.

Alþjóðlegt verkefni
Grænfánaverkefnið gengur ýmist undir heitinu Skólar á grænni grein eða einfaldlega Grænfáninn. Verkefnið er alþjóðlegt og hefur það að markmiði að að auka umhverfismennt og styrkja menntun til sjálfbærni í skólum. Umhverfisverndarsamtökin Landvernd hafa haft umsjón með þessu verkefni á Íslandi í 15 ár og taka um 230 skólar þátt í verkefninu, jafnt leik-, grunn- og framhaldsskólar.

Að baki fánanum liggur mikil vinna en hann er endurnýjaður á tveggja ára fresti. Til að fá að flagga fána þarf skóli að hafa tekið sjö skref í átt að aukinni umhverfisvitund og sjálfbærni.

Með þátttöku í Grænfánaverkefninu eru innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum og sjálfbærni innan skóla. Verkefnið hefur ekki einungis jákvæð áhrif á umhverfisvitund nemenda og starfsfólks, heldur hefur reynslan sýnt að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri.

Fjölbreytt viðfangsefni
Unnið er með fjölmörg þemu í verkefninu en öll eiga þau það sameiginlegt að tengjast sjálfbærni á einhvern hátt. En hvað merkir þetta orð sjálfbærni?

Sjálfbærni merkir að við högum lífi okkar á þann hátt að við göngum ekki svo á auðlindir jarðarinnar að við skerðum tækifæri þeirra sem á eftir okkur koma til að nýta þær. Það er ljóst að við erfum ekki jörðina frá formæðrum og forfeðrum okkar, heldur höfum við hana aðeins að láni frá afkomendum okkar.

Sjálfbærni snýst því ekki einungis um að flokka rusl, heldur tekur hún til mun fleiri þátta eins og þemu Grænfánans bera skýrt merki um. Þemun eru orka, úrgangur, átthagar, samgöngur, landslag, lýðheilsa, loftlagsbreytingar, neysla, hnattrænt jafnrétti, náttúruvernd og vistheimt (m.a. landgræðsla).

Grænfánaverkefnið er í sífelldri í þróun og hefur mikilvægi þess aukist ekki síst með innleiðingu aðalnámskrár 2011, þar sem sjálfbærni var skilgreind sem einn af grunnþáttum menntunar og með nýjum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Lýðræðisleg vinnubrögð
Verkefnið hefur jákvæð áhrif á lýðræðisleg vinnubrögð. Nemendur taka aukna ábyrgð á sínu nánasta umhverfi og taka einnig þátt í ákvarðanatöku sem snertir skólana þeirra. Áhersla á lýðræðisleg vinnubrögð minnir okkur á að við höfum öll völd til að breyta heiminum og börnin finna fyrir því að á þau sé hlustað. Það er ósk okkar að sem flestir leggi hönd á plóg, að Grænfánaverkefnið haldi áfram að blómstra og sem flestir í samfélaginu taki þátt í að gera Grindavík að umhverfisvænu sveitarfélagi.

Skrefin 7
1. Umhverfisnefnd.
2. Mat á stöðu umhverfismála.
3. Áætlun um aðgerðir og markmið.
4. Eftirlit og endurmat.
5. Verkefni og tenging við aðalnámskrá.
6. Að upplýsa og fá aðra með.
7. Umhverfissáttmáli.

Þessi grein birtist upphaflega í 3. tbl. Járngerðar 2016. Myndin var tekin þegar Grunnskólinn fékk sinn Grænfána afhentan á vorgleði hans 2. júlí síðastliðinn.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 10. apríl 2024

NIE ZAPOMINAJMY O OKAZJACH DO RADOSCI

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!