Ungmennaráđiđ fundađi međ bćjarstjórn - Lagđi fram áskoranir

  • Fréttir
  • 29. apríl 2016

Ungmennaráð Grindavíkur fer einu sinni á ári á fund bæjarstjórnar. Að þessu voru þrjú úr ungmennaráði sem ávörpuðu bæjarstjórnina. Meðal skoruðu þau á bæjarstjórn að bærinn bjóði upp á niðurgreitt Dale Carnegie námskeið fyrir nemendur í 10. bekk, að samgöngur milli Grindavíkur og Reykjanesbæjar fyrir nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja verði efldar og þá buðu þau bæjarstjórn á fund með í ungmennaráði til að ræða málefni ungs fólks. 

 

Elsa Katrín Eiríksdóttir formaður ungmennaráðs fór yfir starfsemi ráðsins. Hún sagði m.a.:

„Kæri bæjarstjóri, bæjarstjórn og góðir gestir. Nýtt Ungmennaráð Grindavíkur tók til starfa í upphafi árs og hefur nýja ráðið haldið þrjá bókaða fundi. Gerðar voru breytingar á skipan í ungmennaráðið og þurfti m.a. að kjósa hluta af ráðinu því mikill áhugi var að komast þar að. Á fyrsta fundi nýs Ungmennaráðs var kosið í embætti. Elsa Katrín Eiríksdóttir er nýr formaður, Nökkvi Már Nökkvason varaformaður en þau voru bæði í gamla ráðinu og Margrét Fríða Hjálmarsdóttir ritari.

Nýtt Ungmennaráð skipa:
Aðalmenn:
1. Kolbrún Dögg Ólafsdóttir, aðalmaður til tveggja ára, 16-18 ára
2. Elsa Katrín Eiríksdóttir, aðalmaður til eins árs ára, 16-18 ára
3. Nökkvi Már Nökkvason, aðalmaður til eins árs, 16-18 ára.
4. Karín Óla Eiríksdóttir, aðalmaður til eins árs, 13-16 ára
5. Ólöf Rún Óladóttir, aðalmaður til tveggja ára, 13-16 ára
6. Margrét Fríða Hjálmarsdóttir, aðalmaður til eins árs, fulltrúi nemenda- og Þrumuráðs
7. Veigar Gauti Bjarkason, aðalmaður til eins árs, fulltrúi nemenda- og Þrumuráðs

Varamenn (til eins árs):
1. Belinda Björg Jónsdóttir, varamaður, 13-16 ára
2. Telma Bjarkardóttir, varamaður, nemenda- og Þrumuráðs
3. Ólafur Þór Unnarsson, varamaður 16-18 ára

Nýja ungmennaráðið hefur fundað þrisvar sinnum eftir að það tók við í janúar. Við héldum áfram með þau verkefni sem gamla ungmennaráðið var með eins og Ungmennagarðinn og Grindavíkur-Appið. Einnig fórum við á ráðstefnur og lærðum hvernig stjórnkerfið virkar. Við erum bæjarstjórn þakklát fyrir að styðja við bakið á okkur með fjárframlagi á fjárhagsáætlun. Á síðasta ári fengum við 6 milljónir í ungmennagarðinn og á þessu ári 4 milljónir.
Ungmennaráð fær greitt fyrir 6 fundi á ári og fær 400.000 kr. fyrir starfsemi ráðsins sem fer aðallega í ferðalög á námskeiðin, fundina, ungmennaþing og fleira.

Ungmennagarður:
Sett var upp aparóla, kósýskýli, grillaðstaða og grillskýli á síðasta ári. Þetta nýtist vel á skólatíma og hefur aparólan verið mjög vinsæl. Einnig var keypt kósýróla sem sett verður niður í vor. Kostnaður var meiri en ráð var fyrir gert, aðallega vegna þess að jarðvegsvinna var mun meiri en áætlað var.
Í maí verður settur upp strandblakvöllur og er kostnaðar áætlaður um 3 milljónir króna. Ungmennaráðið ætlar sjálft að tyrfa í kringum völlinn og aðstoða eins og hægt er.
Stefnt er því að vígja ungmennagarðinn formlega fyrir Sjóarann síkáta og halda strandblaksmót t.d. á laugardagskvöldinu þar sem verður grillað og haft kósý.

Körfuboltatrampólínvöllur:
Ungmennaráð hefur einnig skoðað að fá körfuboltatrampólínvöll í samvinnu við fyrirtækið Krumma.
Kostnaður við slíkan völl er líklega á bilinu 15 til 20 milljónir króna. Samkvæmt bréfi frá Krumma, sem þið hafið í ykkar gögnum, sem kom í gær, fer verðið eftir stærð trampólína og hvort steypa þarf sökkul o.fl.
En trampólínvöllur af þessu tagi er okkar draumur og því munum við óska eftir því við gerð fjárhagsáætlunar í haust að fá fjárveitingu í draumavöllinn okkar. Þá yrði þetta flottasti ungmennagarður á landinu með eina trampólínkörfuboltavöllinn á Íslandi.

Grindavíkurapp:
Nýtt GrindavíkurApp var tekið í notkun í mars en hönnun þess tók mun lengri tíma en við gerðum ráð fyrir. Ungmennaráð Grindavíkur sá um undirbúnings- og hugmyndavinnu í samvinnu við Sigurpáll Jóhannsson forritara. Um grafík sá Gunnar Júlíusson.
Appið verður í sífelldri þróun og því er mikilvægt að Ungmennaráðið fái viðbrögð svo hægt sé að lagfæra vankanta og einnig ef einhverjir eru með góðar hugmyndir til að hafa þarna inni.

Ungt fólk og lýðræði:
Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði var haldin á Selfossi 16.-18. mars á Hótel Selfossi. Umfjöllunarefni ráðstefnunnar var geðheilbrigði ungmenna og staða geðheilbrigðismála á Íslandi. Ungmennaráð sendi tvo fulltrúa, Kolbrúnu og Karín Ólu og voru þær mjög ánægðar. Í lokin var samþykkt ályktun þar sem sagði m.a.:
„Ungt fólk er ekki bara framtíðin, við erum til núna og höfum áhrif í dag. Biðtími eftir þjónustu í geðheilbrigðismálum barna og unglinga hefur náð hættustigi. Í dag eru hundruðir barna og ungmenna sem hljóta skaða af þeim langa biðtíma sem úrræðaleysi stjórnvalda árum saman hefur valdið."

Skipta raddir ungs fólks máli:
Ráðstefnan Skipta raddir ungs fólks máli? fór fram á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 18. febrúar. Karín Óla, Margrét og Belinda fóru ásamt Þorsteini. Þetta var frábær ráðstefna þar sem fjallað var um hlutverk ungmennaráðs og hvernig við getum haft áhrif á samfélagið.
Ungmennaráð hefur einnig unnið að undirbúningi kosninga í ungmennaráð, breytingum á samþykktum ungmennaráðs og fleira. Þá höfum við breytt fundunum okkar þannig að við sjáum meira um þá sjálf. Formaður stýrir fundinum og ritari ritar fundargerð. Þess má geta að fundargerðirnar okkar eru aðgengilegar á heimasíðu bæjarins."

Nökkvi Már Nökkvason, varaformaður, fór yfir helstu áskoranir Ungmennaráðs til bæjarstjórnar hvað varðar málefni ungs fólks í Grindavík. Hann sagði m.a.:

„Ég er kominn hingað fyrir hönd ungmennaráðs með áskoranir til bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar frá okkur í ungmennaráðinu. Fyrst vil ég byrja á því að rifja upp áskoranir okkar síðan í fyrra:
Að samgöngur milli Grindavíkur og Reykjanesbæjar fyrir nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja verði efldar. Að næsta vetur verði opnir tímar í íþróttahúsi og Hópi fyrir þá sem vilja koma og leika sér. Að ljósin á körfuboltavellinum við Hópsskóla verði logandi til kl. 22:00 á kvöldin, eins og á sparkvellinum við Ásabrautina.
Því miður hefur ekkert gerst í samgöngumálum og ekki er boðið upp á opna tíma.

Núna í ár viljum við í ungmennaráðinu skora á ykkur að;
• bærinn bjóði upp á niðurgreitt Dale Carnegie námskeið fyrir nemendur í 10. bekk. Hugmyndin er að Grindavíkurbær greiði tvo þriðju hluta af námskeiðsgjaldinu. Við höfum sent erindi til Verkalýðsfélagsins og Sjómanna- og vélstjórafélagsins til að niðurgreiða námskeiðið enn frekar svo hlutur foreldra yrði afar lítill. Teljum við að útskriftargjöf sem þessi yrði góð fjárfesting í unga fólkinu í Grindavík því þetta námskeið eflir sjálfstraust ungs fólks.
• að samgöngur milli Grindavíkur og Reykjanesbæjar fyrir nemendur í Fjölbrautaskóla Suðurnesja verði efldar að því leyti að framhaldsskólarútan fari til Grindavíkur fyrr á daginn.
• að síðustu bjóðum við ykkur á fund með okkur í ungmennaráði þar sem væri gaman að ræða við ykkur um málefni ungs fólks.“


 
Kolbrún Dögg í Ungmennaráði fjallaði um reynslu sína af Dale Carnegie námskeiði og hvaða þýðingu hún telur að slíkt námskeið hafi fyrir ungt fólk.

„Á síðasta fundi ungmennaráðs var kynnt fyrir okkur tilboð frá Dale Carnegie um námskeið fyrir nemendur í 10. bekk í Grunnskóla Grindavíkur. Eins og kom fram hjá Nökkva Má var hugmyndin að Grindavíkurbær myndi greiða tvo þriðju hluta af námskeiðsgjaldinu. Við höfum sent erindi til Verkalýðsfélagsins og Sjómanna- og vélstjórafélagsins að niðurgreiða námskeiðið enn frekar þannig að hlutur foreldra yrði enn minni. Mig langar að segja ykkur frá reynslu minni að fara á Dale Carnegie námskeið:

Ég fór á Dale Carnige námskeið í lok september,mér fannst það ótrúlega skemmtilegt og gefandi. Þar eignaðist ég marga góða vini ,þetta er gott fyrir hópeflið. Á námskeiðinu lærir maður margt um mannleg samskipti og vera einlægur og vera þú sjálfur. Síðast en ekki síst er þetta góður undirbúningur fyrir framhaldsskóla og bara Lífið sjálft því þarna lærir maður að koma fram fyrir fullum sal að fólki, eins og ég er að gera hér, en það er eitthvað sem ég hefði ekki getað hugsað mér að gera áður en ég fór á þetta námskeið. Ég held að þetta námskeið muni getað hjálpað mörgum krökkum sem annað hvort hafa átt erfiða æsku eða þjást að kvíðaröskun, já eða bara alla unga krakka."

Bæjarfulltrúar tóku vel í tillögur ungmennaráðs og fögnuðu því að vera boðin á fund til ráðsins.

 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir