Óhrćdd ađ prófa mig áfram

  • Fréttir
  • 22. mars 2016

Myndalistakonan Helga Kristjánsdóttir hefur verið útnefnd bæjarlistamaður Grindavíkur 2016 en þetta er í annað sinn sem þessi nafnbót er veitt. Helga er fædd og uppalin í Grindavík en þrátt fyrir að hafa alltaf haft mikinn áhuga á listsköpun þá lá leið hennar ekki beint í málaralistina, en hún tók sér ýmislegt fyrir hendur áður en málverkin urðu hennar aðalstarf. 

Helga er fædd árið 1961 og uppalinn hér í Grindavík. Margir Grindavíkingar hafa eflaust farið í klippingu til Helgu en hún starfaði sem hárgreiðslukona í ein 17 ár og er raunar með kennsluréttindi í faginu. Þar áður starfaði hún í nokkur ár sem sjúkraliði. Hún hóf nám í myndlist árið 1995 í Myndlistarskóla Kópavogs en árið 2002 má segja að ferill hennar sem listmálara hafi loks hafist fyrir alvöru þegar hún flutti til Barcelona og lærði þar málaralistina í Escola Masssana centre d'Art Disseney.

Síðan hún útskrifaðist frá Barcelona hefur Helga helgað sig málaralistinni en hún hefur komið sér vel fyrir á vinnustofu sinni við Vörðusund 1. Þar er frábær aðstaða, hvort sem það er fyrir sýningar, námskeið og auðvitað vinnu. Þar hanga verk eftir Helgu á veggjum, mörg hver afar stór og glæsileg, en hún heldur reglulega sýningar á vinnustofunni og þá eru gestir alltaf velkomnir.

Helga hefur í gegnum tíðina haldið nokkur námskeið á vinnustofu sinni og hefur hún tekið á móti erlendum listmálurum sem dveljast þá í Grindavík til lengri eða skemmri tíma, mála, halda námskeið og sýningar. Þegar þessi grein var unnin var hinn úkraínski Serhiy Savchenko væntanlegur til Grindavíkur daginn eftir. Serhiy hefur komið reglulega til Grindavíkur um árabil og myndað góð tengsl við Grindavík, Grindvíkinga og raunar fólk um allt land. Í fyrra fór Helga með 14 konur á námskeið hjá honum í Slóvenínu þar sem unnið var með grafík og í kjölfarið var henni boðið að koma og sýna á sýningunni International Art Symposium, en þetta var 22. árið sem sýningin er haldin og þátttakendur voru frá 16 mismunandi löndum.

Þeir sem hafa fylgst með ferli Helgu hafa veitt því eftirtekt hvernig stíllinn hennar hefur þróast og breyst en Helga segir sjálf að það sé vegna þess að hún sé alltaf að læra nýjar aðferðir og hún er óhrædd við að prufa sig áfram. Hún sækir innblásturinn í myndirnar sínar mest í náttúruna í kringum Grindavík, sem og náttúruöflin. Á vinnustofu hennar tók á móti blaðamanni gríðarstór hundur sem var þó ljúfur sem lamb, Rómeó að nafni. Helga segist fara mikið í göngur með Rómeó og fær þá mikinn innblástur úr umhverfinu, en hún segir bæði landslagið og veðrið í Grindavík vera endalausar uppsprettur hugmynda.

Helga segir það mikinn heiður að vera valinn bæjarlistamaður Grindavíkur og er mjög þakklát fyrir þann áhuga sem bæjarbúar hafa sýnt verkum hennar. Aðspurð um hvað sé svo framundan hjá henni segist Helga alltaf vera með nokkur verk í vinnslu, af ýmsum stærðum og gerðum. Hún málar helst alla daga. Helga hefur verið að vinna svolítið með grafík undanfarið og næsta skref er að eignast eigin grafíkpressu. Helga hefur nýlokið sýningu í Domus Medica og var einnig með sýningu á Ljósanótt í Reykjanesbæ sem var mjög vel sótt. Næsta skipulagða sýning verður svo á Dýrfirðinga-dögum á Þingeyri í sumar. 

 Greinin birtist fyrst í 1. tbl. Járngerðar 2016, fréttabréfi Grindavíkurbæjar.

Helga var með opna vinnustofu í Menningravikunni. Hér er hún á spjalli við Arnfríði og Margréti.

 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 10. apríl 2024

NIE ZAPOMINAJMY O OKAZJACH DO RADOSCI

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!

Fréttir / 2. apríl 2024

Ađstođ viđ fjármál

Fréttir / 27. mars 2024

Loftgćđi og mengun