Menningarvikan 2016: Suđupottur sýninga, tónleika, viđburđa, námskeiđa, leikrita og handverkshátíđar

  • Fréttir
  • 8. mars 2016

„Þetta er í áttunda sinn sem Menningarvika Grindavíkur er haldin og að vanda hefur mikill metnaður verið lagður í dagskrána og líklega aldrei meiri en núna. Menningarvikan verður haldin 12. til 20. mars næstkomandi þannig að Safnahelgin er einnig hluti af henni og verður ókeypis aðgangur að Kvikunni. Undirbúningur er á lokastigi, meðal annars er búið að velja bæjarlistamann Grindavíkur, undirbúa fjölmörg námskeið í febrúar, mars og apríl og bóka ýmsa viðburði í Menningarvikunni sjálfri og þá verður stór og mikil Handverkshátíð í Gjánni. Ég myndi segja að fjölbreytileikinn væri í hávegum í ár," segir Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkurbæjar í samtali við Víkurfréttir.

Menningarvikunni hefur vaxið ásmegin og viðburðir hafa aldrei verið fleiri en í ár. Á meðal tónleika sem búið er að bóka er hópur tónlistarfólks í Grindavík undir stjórn Sólnýjar Pálsdóttur sem ætlar að spila klassísk rokklög, á meðal flytjenda eru Ellert Heiðar Jóhannsson úr The Voice og Bergur Ingólfsson leikari. Eyjahópurinn Blítt og létt kemur og leikur öll Eyjalögin í þjóðhátíðarstíl, tónleikar verða til heiðurs Sigvalda Kaldalóns, Norræna félagið verður með danska dagskrá þar sem leik- og söngkonan Charlotte Böving og Rósa Signý Baldursdóttir kennari verða gestir, bókasafnið verður með Grindavíkurkvöld þar Vísiskórinn og ýmsir hagyrtir heimamenn munu meðal annars troða upp og þá verða Sigga Beinteins, Guðrún Gunnars og Jógvan Hansen með tónleika undir yfirskriftinni Við eigum samleið. Óp-hópurinn mun flytja fallega tónlist á Galatónleikum í sal tónlistarskóla Grindavíkur. Þá verður vegleg setningarhátíð í Grindavíkurkirkju þar sem barnakór Grindavíkur frá árunum 1977 til 1981 mun meðal annars koma fram ásamt núverandi barnakór og nemendum tónlistarskólans. Þá verða ýmsar sýningar, þar á meðal safnsýning úr listasafni Grindavíkurbæjar. Þá verða fimm konur frá Handverksfélaginu Greip með málverkasýningu. Á meðal annarra sem sýna eru Fannar Þór Bergsson leirlistamaður, Hjalti Parelíus popplistamaður, Rúnar Þór Þórðarson málari, Guðni Már Henningsson útvarpsmaður og málari, Halldór Ingi Emilsson málari. Nemendur leikskóla bæjarins og grunnskólans verða með sýningar í verslunarmiðstöðinni.

„Jafnframt frumsýnir unglingastig Grunnskólans Grindavík tvö leikrit og þá verður ljóðakvöld, fjölmörg námskeið, fyrirlestrar, myndasýningar í Miðgarði og fyrirlestrar til dæmis um Strandminjar í hættu í Grindavík. Þá munu leikskólarnir, grunnskólinn og fjölmargir aðrir aðilar verða með ýmsa viðburði í Menningarvikunni sem of langt mál er að telja upp hér," segir Þorsteinn.

Í tengslum við undirbúning Menningarvikunnar í ár standa ýmsir aðilar standa fyrir námskeiðum í febrúar, mars og apríl. Þar er að finna fjölbreytt framboð af námskeiðum fyrir alla aldurshópa, meðal annars í handverki, sköpun, listum og matreiðslu, sem Suðurnesjamenn eru hvattir til að kynna sér vel og endilega nýta tækifærið og taka þátt. Menningarvikan niðurgreiðir námskeiðin og því eru þau á hagstæðu verði. Bent er á möguleika á styrkjum frá stéttarfélögum.

Rétt er að minna á Handverkshátíð í Gjánni sem verður í Menningarvikunni, sunnudaginn 13. mars en þar verður að finna rjómann af grindvísku handverki, í sem víðasta skilningi þess orðs, auk þess sem aðilar víðar á Reykjanesinu munu sýna og selja handverk sitt.

Helga Kristjánsdóttir listmálari var nýlega útnefnd Bæjarlistamaður Grindavíkur 2016 af frístunda- og menningarnefnd. Verðlaunin verða afhent við setningu Menningarviku Grindavíkur.

„Menningarvikan hefur mikla þýðingu fyrir Grindvíkinga. Grindavík er í 3. sæti á lista sveitarfélaga yfir ánægju bæjarbúa með menningarmál samkvæmt þjónustukönnun Capacent og það er ekki vafi í mínum huga að Menningarvikan á sinn þátt í því. Dagskrána má finna á heimasíðu bæjarins og í nýju Grindavíkurappi," sagði Þorsteinn að endingu.

 


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!

Fréttir / 2. apríl 2024

Ađstođ viđ fjármál