Minningartónleikar um Möggu og Palla í Vísi á Sjóaranum síkáta
Minningartónleikar um Möggu og Palla í Vísi á Sjóaranum síkáta

Næsta sjómannahelgi er eigendum Vísis í Grindavík, börnum Páls og Margrétar, merkileg að mörgu leyti. Fyrirtæki þeirra fagnar 50 ára starfsafmæli á árinu og af því tilefni verður opið hús í báðum fiskvinnslum fyrirtækisins í Grindavík á milli klukkan tvö og fimm á sjómannadaginn - sunnudag. Taka eigendur og starfsfólk á móti gestum með tónlist og veitingum um leið og starfsemin í húsunum verður kynnt. Djassband Vilhjálms Guðjónssonar spilar í frystihúsinu á Miðgarði en Reynir Jónasson spilar á harmónikku í salthúsinu að Hafnargötu og með honum verður Edwin Kaaber. Einnig mun hinn fjölþjóðlegi Vísiskór syngja nokkur lög á báðum stöðum á milli þrjú og fjögur undir stjórn Margrétar Pálsdóttur.

En það er fleira sem gerir þessa helgi sérstaka í þeirra huga. Í febrúar á þessu ári lést Páll H. Pálsson, faðir þeirra og stofnandi Vísis, aðeins þremur árum eftir að Margrét Sighvatsdóttir móðir þeirra lést. Þau hjónin hefður átt 60 ára brúðkaupsafmæli um þessa helgi. Af því tilefni gefa börn þeirra út sjómannadiskinn „Lögin hans pabba" en í tilefni af 80 ára afmæli Margrétar fyrir fimm árum gáfu þau út hljómdiskinn „Lögin hennar mömmu" með hennar eigin lögum.

Til að minnast foreldra sinna halda þau minningartónleika um þau í kirkjunni í Grindavík klukkan átta á sunnudagskvöld undir stjórn Jóns Ólafssonar tónlistarmanns. Þar munu þau ásamt börnum sínum og barnabörnum flytja lög af báðum hljómdiskunum. Með þeim eru valinkunnir hjóðfæraleikarar undir stjórn Vilhjálms Guðjónssonar og meðal gestasöngvara er enginn annar en Ragnar Bjarnason, konungur íslenskra sjómannalaga. Báðir hljómdiskarnir verða til sölu í kirkjunni og víðar um helgina og mun allt andvirðið renna til kirkjunnar í Grindavík. Inn á tónleikana sjálfa er hins vegar frítt og allir velkomnir.

Á hljómdiskana sjálfa rita þau systkinin eftirfarandi texta:

„Lögin hans pabba":

Árið 2010 gáfum við systkinin út hljómdisk í tilefni af áttræðisafmæli móður okkar, Margrétar Sighvatsdóttur. Við nefndum diskinn „Lögin hennar mömmu" og á honum voru lög og textar eftir hana.

Pabbi naut þessara laga eins og við. Hann var meiri músíkant en við gerðum okkur grein fyrir í æsku og það kom best fram í því hversu góður dansari hann var.

En lögin hennar mömmu voru ekki eina tónlistin sem við systkinin ólumst upp við. Sjómannalögin skipuðu þar einnig drjúgan sess. Þau eru þar að auki stór þáttur í sögu þjóðarinnar og mikill áhrifavaldur á hegðun fólks og tilfinningalíf. Hver vill ekki vera hetja hafsins og hrókur alls fagnaðar eða upplifa hárómantíska stund með ástinni sinni?

Hann pabbi, Páll Hreinn Pálsson, fæddist 3. júní 1932 og dó 16. febrúar 2015. Hann fylgdi þar með móður okkar, Margréti Sighvatsdóttur, sem var fædd 23. maí 1930 og dó 3. febrúar 2012.

Til að minnast pabba með sama hætti og við minntumst mömmu ákváðum við systkinin að gefa út hljómdisk með sjómannalögum honum til heiðurs. Sjómannalögin eru samofin baráttu Íslendinga fyrir þeim lífsgæðum sem við njótum í dag og við erum stolt af þætti pabba í þeirri baráttu. Fyrir valinu urðu lög og textar sem fjalla um ástina og rómantíkina og eru táknræn fyrir tíðarandann.
Þótt lögin á diskinum séu tileinkuð pabba vitum við að mamma elskar þau ekki síður en hann. Við trúum því að á meðan þau bíða okkar muni þau dansa sinn rómantíska ástardans undir söng og leik okkar systkina.

Börnin hans pabba.
............


„Lögin hennar mömmu":

Margrét Sighvatsdóttir fæddist 23. maí árið 1930. Hún ólst upp í stórum hópi systkina sem öll höfðu áhuga á tónlist. Mamma var ellefu ára þegar hún fór að læra á píanó og seinna á lífsleiðinni fór hún í söngnám. Hún lék svo einnig á gítar og harmónikku og hafði gaman af að semja lög.
Lögin hennar mömmu urðu til við ýmis tækifæri en eru flest samin í Grindavík, þar sem hún og pabbi bjuggu í fjóra áratugi. „Söngur sjómannskonunnar" er saminn til pabba, sem þá var á síld á Siglufirði, og „Tunglskinsnótt" varð til þegar hún var síðla nætur að bera út Morgunblaðið og lét sig dreyma um ferðalög til framandi landa.

Mamma samdi barnasöngleiki sem nefndust „Lóan kemur" og „Vordraumur" og setti þá upp í Festi. Hún sá um allt sjálf. Hún samdi lögin og textana, málaði leiktjöld, hannaði búninga, samdi dansa og leikstýrði svo öllu og lék undir á píanó. Texti barnaleikritanna lýsir einkar vel þeirri bjartsýni og því jákvæða hugarfari sem alla tíð einkenndi mömmu.

Tónlistin var líf hennar og yndi og það var gott að alast upp hjá móður sem lét ekkert stoppa sig í að gera lífið skemmtilegt. Mamma kom víða við í söngnum og tónlistinni og má fá meiri upplýsingar um það á vefsíðu hennar, https://www.facebook.com/Margret.Sighvatsdottir

Í tilefni af áttræðisafmæli mömmu 2010 tókum við systkinin saman þrettán af lögum hennar á þennan hljómdisk. Við fengum frábæra hljóðfæraleikara til að spila lögin og yndislegan upptökustjóra sem sýndi okkur ómælda þolinmæði. Við systkinin sáum svo sjálf um sönginn ásamt barnabörnunum Björgu og Þórdísi, dætrum Margrétar.

Mamma kvaddi þennan heim 3. febrúar 2012 og veitti diskurinn henni mikla gleði þau tvö ár sem hún gat notið hans. Þar sem hann seldist fljótlega upp ákváðum við systkinin að gefa hann út aftur með textum laganna. Við vonum að fleiri fái nú tækifæri til að njóta þeirra og syngja með.

Hjartans þakkir fyrir allt, elsku mamma.

Börnin hennar mömmu
.......

Nýlegar fréttir

fös. 20. okt. 2017    Tveir fulltrúar Grindavíkur í Kórum Íslands á sunnudaginn
fös. 20. okt. 2017    Grindavík tapađi í Keflavík í hörkuleik
fös. 20. okt. 2017    Lestrarátak á yngsta stigi
fös. 20. okt. 2017    Kennsla í tónlistarskólanum 23. október
fös. 20. okt. 2017    Starfsdagur í Grunnskólanum
fim. 19. okt. 2017    Opiđ sviđ á Bryggjunni á föstudaginn
fim. 19. okt. 2017    DJ Heiđar Austmann á Fish House á laugardaginn
fim. 19. okt. 2017    Tónfundur í sal tónlistarskólans 23. október
miđ. 18. okt. 2017    Skráning félagsmanna UMFG - ert ţú félagi?
miđ. 18. okt. 2017    Vinadeild Grindavíkurkirkju fyrir börn í 2.-4. bekk
ţri. 17. okt. 2017    Dregiđ í Maltbikarnum, Suđurnesjaslagir framundan
ţri. 17. okt. 2017    Grindavík áfram í bikarnum
ţri. 17. okt. 2017    Haustmót JSÍ í Grindavík 21. október
ţri. 17. okt. 2017    Píanó, slagverk, ţverflautu- og söng kynning fyrir krakkana á Laut
mán. 16. okt. 2017    Kynning og kaffi í Kvikunni á afmćlisdegi Guđbergs Bergssonar
mán. 16. okt. 2017    Grindavíkurkonur einar á toppnum eftir sigur á ÍR
mán. 16. okt. 2017    Stjörnuhópur frá Laut heimsćkir tónlistarskólan
mán. 16. okt. 2017    Max's Restaurant auglýsir eftir ţjónum
mán. 16. okt. 2017    Andri Rúnar ađ öllum líkindum á förum frá Grindavík
mán. 16. okt. 2017    Óli Stefán Flóventsson áfram međ Grindavík
mán. 16. okt. 2017    Grindavík lagđi Hauka
fös. 13. okt. 2017    Fimmtánda svćđisţing tónlistarskóla á Suđurlandi og Suđurnesjum
fim. 12. okt. 2017    Kynning og kaffi í kvikunni á afmćlisdegi Guđbergs Bergssonar
fim. 12. okt. 2017    Ađalfundur Hestamannafélagsins Brimfaxa verđur 26. október
fim. 12. okt. 2017    Leikjaskrá körfuknattleiksdeildarinnar komin út
Grindavík.is fótur