Enn syrtir í álinn hjá strákunum, úr leik í bikarnum

  • Körfubolti
  • 9. desember 2014

Enn verður einhver bið eftir næsta sigri hjá okkar mönnum í körfunni. Eftir tæpan ósigur gegn Tindastóli á dögunum vonuðust eflaust margir eftir því að strákarnir myndu reka af sér sliðruorðið gegn Keflvíkingum, en ekki gekk sá draumur eftir. Þó voru enn margir bjartsýnir á að halda mætti bikardraumnum lifandi á Sauðárkróki en Tindastólsmenn voru ákveðnir í að kæfa þann draum í fæðingu.

Leikurinn gegn Keflvíkingum var mjög jafn framan af en Keflvíkingar þó með undirtökin og nauma forystu. Grindvíkingar börðust vel og um miðjan 3. leikhluta komust þeir yfir og fór nú að sjást bros á vörum jafnvel svartsýnustu stuðningsmanna. En á síðustu 5 mínútunum leiksins hrundi sóknarleikur Grindvíkinga. Keflvíkingar skoruðu 13 stig sem var aðeins svarað með 1 stigi og enn eitt tapið staðreynd. Nánari umfjöllun má lesa á karfan.is.

Á sunnudagskvöldið héldu okkar menn svo norður í Skagafjörð og freistuðu þess að leggja spútnik lið Tindastóls að velli. Liðin höfðu eins og áður sagði mæst í Grindavík skömmu áður og sýndu Grindvíkingar þar að þeir áttu í fullu tré við Sauðkrækinga. Framan af þessum leik leit út fyrir að þarna yrði á ferðinni svipaður baráttuleikur en eftir því sem á leið kom bersýnilega í ljós hversu mikinn toll meiðsli eru að taka af liðinu. Engin leikstjórandi var í hópnum þetta kvöldið og var sú staða því leyst af Magga Gunn og öðrum leikmönnum sem vanari eru að spila sem skotbakverðir. Nánar á karfan.is.

Það er í raun lítið hægt að gera en að bíða og vona og hugsa með hlýhug til þess tíma sem allir okkar leikmenn verða vonandi aftur heilir. En það eru víst enn þó nokkrir mánuðir í það og vonandi að einhverjir sigrar safnist í sarpinn þangað til. Á meðan safnast í það minnsta mikil reynsla hjá yngri leikmönnum sem hafa þurft að takast á við stærri hlutverk en þeir áttu von á fyrir tímabilið.

Næsti leikur Grindvíkinga er útileikur gegn Fjölni á föstudaginn.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir