Akur dregur ađ ferđamenn

  • Fréttir
  • 31. október 2014

Í krúttlegu litlu rauðu húsi niðri við fjöru býr Þórdís Ásmundsdóttir, oftast kölluð Dísa. Dísa er fædd og uppalinn á Teigagerðisklöpp í Reyðarfirði árið 1930 en til Grindavíkur fluttist hún árið 1993 og hefur allar götur síðan búið í sama húsinu, Akri, sem staðið hefur við fjöruborðið frá 1920 en hefur þó sennilega aldrei litið betur út en núna þegar 100 ára afmælið nálgast.

Þegar komið er að Akri er margt í garðinum sem vekur athygli manns. Þar eru margir áhugaverðir og skrautlegir skúlptúrar áberandi, en einnig eru stór hvalbein áberandi og þegar betur er að gáð leynist inn á milli steina hauskúpa úr hesti sem Dísa fékk að gjöf frá frönskum ferðamanni. Hún skildi lítið sem hann sagði en hauskúpan varð eftir. Þetta er ekki eina hauskúpan sem Dísa geymir því einnig hafa henni verið færðir tveir hausar af ferhyrndum kindum.

Og þannig hefur þetta litla safn hennar í raun undið upp á sig. Fólk veit að hún safnar hinu og þessu og alltaf er verið að færa henni hina og þessa muni héðan og þaðan. Heimili Dísu er hægt og rólega að breytast í byggðasafn en þar inni má finna ýmsa muni sem eru síðan á 19. öld. Má þar nefna strokk, skildvindu, snældur, straubolta, kaffikönnur, kaffikvarnir, ullarkamba, brennimerki og marga fleiri muni. Margir þeirra eru upprunin úr búi afa hennar en svo bætist alltaf við af munum sem fólk færir Dísu og biður hana um að varðveita fyrir sig. Sjálf safnar Dísa pennum og í dag eru að minnsta kosti 9.632 pennar í safninu, vandlega merktir og bókfærðir. Þá á hún einnig myndarlegt safn af lyklakippum og barmmerkjum en hún ætlaði aldrei að safna þeim hlutum og hefur aldrei gert. En fólk hefur fært henni þetta og og nú skipta lyklakippur í safni hennar hundruðum. 

Fyrirferðamestu safngripirnir og þeir sem Dísa hefur sjálf lagt mesta vinnu í að safna eru þó steinarnir. Dísa bjó í 33 ár á Stöðvarfirði þar sem hún og Petra vinkona hennar söfnuðu fögrum steinum og byggðu báðar upp glæsileg söfn. Safn Petru er fyrir löngu orðið landsfrægt en safn Dísu er síst ómerkilegra. Þegar Dísa flutti suður kom hún alls með sjö tonn af grjóti með sér suður, og skildi eflaust annað eins eftir fyrir austan. 

Sjálf hefur Dísa þó ekki gert mikið í því að sýna safnið sitt en það eru alltaf einhverjir ferðamenn sem stoppa á Akri og skoða steinana og kaupa jafnvel einn og einn stein. Áhugasamir geta heimsótt Dísu og fengið að skoða steinasafnið og einnig alla munina sem hún geymir inni. Aðgangseyrir að safninu eru litlar 500 krónur og það er opið þegar hún hefur heilsu og nennu til að taka á móti gestum.


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 10. apríl 2024

NIE ZAPOMINAJMY O OKAZJACH DO RADOSCI

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir

Fréttir / 3. apríl 2024

Höfum gleđina međ!