Hjólreiđabćrinn Grindavík

  • Fréttir
  • 25. september 2013

Í Járngerði sem kemur út í dag er sagt frá Hjólreiðabænum Grindavík: Hjólreiðar eru að öllu jöfnu skemmtilegur samgöngumáti. Aðstæður í Grindavík eru þannig að tiltölulega stutt er á milli staða og ekki er miklum brekkum eða hæðum fyrir að fara. Mikið átak hefur verið unnið í gerð göngustíga, t.d. upp að Þorbirni, út í Þórkötlustaðahverfi og niður við höfn. Þessir stígar nýtast hjólreiðafólki jafnvel og þeim sem ganga sér til heilsubótar. Einnig hefur verið gert átak í því að auka öryggi í umferðinni og sérstaklega í kringum skólastofnanir og íþróttamannvirki. Allt er þetta liður í því að bæta umhverfis- og eða samgöngumál fyrir íbúa Grindavíkur. 

Í tillögum að aðalskipulagi Grindavíkurbæjar 2010 - 2030 er unnið að því að breyta legu gatna þar sem tengibrautirnar Austurvegur, Ránargata og Víkurbraut mætast. Með því að breyta legu vegarins léttir á umferðinni og með byggingum styttast sjónlínur sem dregur úr umferðarhraða sem eykur umferðaröryggi í miðbænum. Með þessari breytingu verður gangandi og hjólandi vegfarendum gert hærra undir höfði. Jafnframt er stefnt að vistvænum ferðamáta með góðu neti göngu- og hjólreiðastíga milli íbúðabyggðar, atvinnusvæða, skóla- og íþróttasvæða.

Líkt og sjá má á yfirlitsmyndinni af Grindavík eru leiðir til og frá miðbæjarkjarna bæjaris að ystu bæjarmörkum mjög stuttar (í beinni sjónlínu). Lengst er að fara út í Þórkötlustaðahverfi eða rétt rúmir 2 km. Niður í Fornuvör eru tæpir 900 m. og tæpir 800 m. að Skipastíg svo dæmi séu tekin. Meðalskokkari hleypur kílómeter á fimm (5) mínútum og því ætti hjólreiðamaður að fara töluvert hraðar yfir til að gefa smá vísbendingu um hversu stuttar vegalengdirnar í raun og veru eru o.þ.a.l. tíminn sem fer í það að hjóla á milli staða.

Hjólreiðar eru vistvænn, hagkvæmur og heilsubætandi samgöngumáti

Á vefunum www.hjolreidar.is er að finna margvíslegan fróðleik um hjólreiðar og þar eru taldir upp kostir þess að hjóla og sem þáttur í lausn þeirra vandamála sem nútímasamfélag glímir við:

Heilsufarslegir: Dagleg líkamsrækt stuðlar að bættri líkamlegri og andlegri heilsu. Dagleg hreyfing heldur einnig aukakílóunum í skefjum. Þá styrkir dagleg hreyfing hjarta- og æðakerfi.

Fjárhagslegir: Hjól kosta peninga en mun minna en bíll. Rekstarkostnaður er brotabrot af rekstri bíls og það þarf aldrei að taka bensín. Þjóðarbúið þarf ekki að nota gjaldeyri til eldsneytiskaupa og slit á umferðarmannvirkjum er hverfandi.

Umhverfismál: Enginn útblástur, mun minna af auðlindum jarðar fer í smíði hjóls en bíls. Fullvaxinn einstaklingur þarf aðeins eitt stell. Aðra hluti hjólsins má endurnýja í samræmi við slit. Reiðhjól þurfa minni samgöngumannvirki en bílar, s.s. bílastæði og götur.

Félagslegir: Þú ert meira úti við. Nálægð þín við aðra samborgara er meiri og stemningin í umferðinni er huggulegri, líkt og almenningur þekkir á göngustígum.

Andlegir: Hjólreiðafólk segir oft sögur af því hvernig það nýtir heimferð að loknum vinnu-degi til að hreinsa hugsanir tengdar vinnu úr huganum og skipta yfir í heimagír á leiðinni.

Tengsl við landið og árstíðirnar: Árstíðir og veður hefur áhrif á hjólreiðamanninn. Öll veður má klæða af sér. Hver árstíð hefur sinn sjarma á hjólinu. Aðalatriðið er að búa sig eftir aðstæðum hverju sinni, gefa sér góðan tíma og njóta ferðarinnar. Það er einstök tilfinning að þjóta áfram í góðum meðvindi.

Gleðin: Það kannast flestir við barnslegar gleðitilfinningar tengdar hjólreiðum. Sækjum þær, stillum hjólin og gefum tilfinningunum endurnýjað líf sem hluta af fullorðinslífi okkar.

Aðgengi - Samgöngusamningur.

Ein af forsendum þess að fólki hjóli til og frá vinnu er að aðgengi sé gott. Bæjaryfirvöld í Grindavík hafa fullan hug á því að auka möguleika fólks á því að ferðast til og frá vinnu innan bæjarmarkanna með gerð fleiri stíga og með því að auka umferðaröryggi. Eitt sem þarf að skoða er hvar hægt er að lækka gangstéttarbrúnir. Fyrirtæki geta einnig komið til móts við þetta með því að hvetja starfsmenn sína til þess að nota hjól og jafnframt með því að umbuna þeim starfsmönnum sem koma hjólandi eða gangandi til og frá vinnu. Markmið fyrirtækja með slíku er að sýna samfélagslega ábyrgð og leggja sitt af mörkum til þess að bæta umhverfið og heilsu starfsmanna sinna og annarra. Vitað er um nokkur fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu sem greiða andvirði mánaðarkorts í strætó til þeirra starfsmanna sem að jafnaði taka strætó, ganga, hjóla, eða koma með öðrum í bíl til vinnu.

Í maí sl. birtist frétt þess efnis að Seðlabankinn hafi hvatt starfsfólk sitt til að velja vistvæna, hagkvæma og heilsusamlega ferðamáta til og frá vinnu. Í þeim tilgangi hefur verið gerður sérstakur samgöngusamningur við þá starfsmenn sem vilja. Í samningnum fellst að starfsmenn mæta ekki á eigin bíl til vinnu, heldur ganga, hjóla eða fara með strætisvagni í vinn-una og fá þá dálítið framlag upp í kostnað. Með þessu vill Seðlabankinn leggja sitt af mörkum til að bæta umhverfi borgarbúa með minni umferð og minni þörf fyrir bílastæði, en bæta um leið heilsu starfsfólks, sýna gott fordæmi og efla vitund fólks um vistvænar samgöngur. Þetta er eitthvað sem fyrirtæki í Grindavík ættu að skoða. Hátt eldneytisverð ætti nú eitt og sér að vekja fólk til umhugsunar um að hvíla bílinn og ganga eða hjóla í staðinn.

Samgöngustyrkir - samgöngugreiðslur

Á heimasíðu Ríkisskattstjóra www.rsk.is er að finna upplýsingar um samgöngustyrki eða samgöngugreiðslur. Samkvæmt reglum í skattmati skal ekki telja til skattskyldra hlunninda greiðslu launagreiðanda á kostnaði launþega vegna ferða milli heimilis og vinnustaðar og/eða vegna ferða í þágu launagreiðanda, ef nýttar eru almenningssamgöngur eða vistvænn samgöngumáti að hámarki samtals 7.000 kr. á mánuði og að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

1. Undirritaður sé formlegur samningur milli launagreiðanda og launþega um nýtingu á almenningssamgöngum eða vistvænum ferðamáta vegna ferða launþegans til og frá vinnu sinnar og/eða vegna ferða í þágu launagreiðanda. 

2. Með vistvænum samgöngumáta er átt við að nýttur sé annar ferðamáti en með vélknúnum ökutækjum samkvæmt skilgreiningu umferðarlaga, t.d. reiðhjól eða ganga. 

3. Séu framangreind skilyrði ekki uppfyllt er alltaf um að ræða skattskyld hlunnindi án frádráttar ef greiðsla er vegna ferða launþega til og frá vinnu.

Ef greiddir eru samgöngustyrkir sem ætlaðir eru til að greiða kostnað manna við ferðir sem ekki eru í þágu launagreiðanda er um að ræða skattskyldar tekjur hjá móttakanda án nokkurs frádráttar nema ef um er að ræða greiðslur sem uppfylla framangreind skilyrði.

Af öllu þessu sögðu er ljóst að ágóðinn af aukinni hjólreiðanotkun skilar sér út í samfélagið en hvergi betur en til notandans.

Aðbúnaður

Aðbúnaður fyrir fólk til að leggja hjólum sínum fyrir utan vinnustaðinn sinn hjálpar til og nauðsynlegt að hjólastatíf séu til staðar. Auðveldlega er hægt að setja upp smá keppni innan fyrirtækja um það hver kemur oftast á hjóli yfir ákveðið tímabil og verðlauna hjólreiðamann mánaðarins eða ársins. Að hjóla eða ganga til og frá vinnu er allra hagur. Hvort sem hjólað er úr eða í vinnu eða í eigin frítíma er mikilvægt að huga að ýmsum þáttum sem snerta velferð allra sem hjóla.

Hugaðu að höfðinu - notaðu hjálm!

Börn eru sérstaklega hvött til þess að nota hjálm enda hafa rannsóknir sýnt að hann dreg-ur úr hættu á höfuðáverkum. Og hjálmar hjálpa ekki bara börnum heldur fólki á öllum aldri! 

Aðlagaðu hjólið að þér

Er hnakkurinn of hár? Er stýrið of langt frá þér? Er hjólið of stórt eða of lítið?
Mikilvægt er að huga að þessum þáttum til þess að þér líði vel á hjólinu, til að aflið sem þú beitir nýtist sem best og til að draga úr hættu á álagsmeiðslum. 

Getur þú stoppað þig? - Skoðaðu bremsubúnaðinn!

Farðu vel yfir bremsubúnað hjólsins áður en þú leggur í‘ann. Ef þú getur ekki dregið
úr hraða á skömmum tíma þá er ekki í lagi með bremsurnar. 

Minna loft meira viðnám

Með réttan loftþrýsting í dekkjum rennur hjólið betur og aflið sem þú beitir við hjólreiðarnar nýtist betur. Sé loftþrýstingurinn of lítill eða of mikill getur það haft í för með sér aukna slysahættu. 

Vertu sýnileg(ur)

Veldu fatnað og búnað sem gerir þig sýnilega(n) á hjólinu. Þetta á ekki síst við í skammdeginu. 

Vertu vakandi...með augun opin

Kantar, steinar, lausamöl og misfellur ýmiskonar geta torveldað för. Horfðu fram á veginn og fylgstu vel með því sem framundan er. 

Fylgdu umferðarlögum

Sé hjólað í umferð er mikilvægt að fylgja umferðarlögum. Þú þarft að hafa góða stjórn á hjólinu, hafa skilning á því hvernig umferðin hegðar sér og hvernig reiðhjólið passar inn í hana. Samvinna akandi og hjólandi er lykilatriði - báðir aðilar þurfa aðtaka tillit! 

Haltu þig hægra megin

Haltu þig hægra megin þannig að þú fylgir sömu stefnu og önnur ökutæki. Þetta á einnig við sé hjólað á gangstígum. 

Sem akandi taktu tillit til þeirra sem hjóla 

Flestir þeirra sem hjóla og hafa bílpróf eru einnig ökumenn. Reiðhjól er hluti af umferð og hér á landi er „hjólreiðarmenning" í uppbygg-ingu. Verum öll virkir þátttakendur í því verkefni. 

Kristinn Reimarsson
sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs


Deildu ţessari frétt

AĐRAR FRÉTTIR

Fréttir / 9. apríl 2024

Pistill bćjarstjórnar 9. apríl

Fréttir / 5. apríl 2024

Zimna woda w Grindavík

Fréttir / 3. apríl 2024

Hlúum ađ heilsunni. Ókeypis kostir