Grunnskóli Grindavíkur

Byrjendalćsi í Grunnskóla Grindavíkur
Byrjendalćsi í Grunnskóla Grindavíkur

Síðastliðið vor fóru nokkrir kennarar af yngsta stigi Grunnskóla Grindavíkur á kynningu á kennsluaðferðinni Byrjendalæsi.  Eftir þessa kynningu og samræður var ákvörðun tekin um að gerast Byrjendalæsisskóli og var það ekki síst vegna þess að kennarar og stjórnendur skólans sáu að margt í kennsluaðferðinni samræmdist vel breyttum vinnubrögðum á yngsta stigi, kennarar gætu betur mætt ólíkum þörfum nemenda og gætu betur nálgast markmið aðalnámskrár.

Í haust fór svo þróunarverkefnið Byrjendalæsi af stað og er Grunnskóli Grindavíkur orðinn einn af rúmlega 90 skólum á landinu sem kennir læsi samkvæmt þessari kennsluaðferð. Þátttakendur í verkefninu eru umsjónarkennar í 1.- 3. bekk ásamt sérkennurum á stiginu. 

Verkefnið er leitt af miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og fá kennarar námskeið og ráðgjöf þaðan. Um er að ræða tveggja ára þróunarstarf. Einn leiðtogi er í skólanum en hann leiðir þróunarstarfið þar.

Hvað er Byrjendalæsi?

Byrjendalæsi er kennsluaðferð sem beinist að kennslu læsis í 1. og 2. bekk grunnskólans en getur fallið að kennslu og námi í næstu bekkjum þar fyrir ofan. Kennsluaðferðin hefur verið mótuð og þróuð við miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri undir forystu Rósu Eggertsdóttur.Meginmarkmið Byrjendalæsis er að börn nái góðum árangri í læsi sem fyrst á skólagöngu sinni. Unnið er með lestur, ritun, tal og hlustun á heildstæðan hátt. Það er gengið út frá því að börn þurfi lesefni sem kveikir áhuga þeirra, ýtir undir ímyndunaraflið, hvetur þau til gagnrýninnar hugsunar og gefur þeim færi á að tengja við eigin upplifanir og líf. Því er fjölbreyttur gæðatexti lagður til grundvallar lestrarkennslunni og hann síðan notaður í vinnu með stafi og hljóð, sem og vinnu með orðaforða, skilning og ritun. Í Byrjendalæsi er lögð áhersla á samvinnu nemenda í námi og samskipti þeirra á milli. Kennslan á að vera einstaklingsmiðuð og stuðningur kennara við nám nemenda miðar að því að hver og einn nái sem mestum mögulegum þroska. Í Byrjendalæsi er rík áhersla er lögð á að kenna nemendum markvisst aðferðir sem styðja við lesskilning og fjölbreytta ritun (Birna Svanbergsdóttir, 2012)

Svona gerum við í Byrjendalæsi

Kennarar útbúa kennsluáætlanir í Byrjendalæsinu sem venjulega ná yfir eina viku, þar sem fram koma markmið kennslunnar, skipulag, innihald verkefna og mat. Vinnulotan hefst á því að kennari les texta, sögu eða ljóð fyrir nemendur. Rætt er um innihaldið og blæbrigði málsins skoðuð.

Eftir lesturinn tekur við sundurgreinandi vinna. Þar er unnið með staf og hljóð, réttritun, málfræði, uppbyggingu texta og fleira sem þarf. Alltaf er valið eitt orð úr textanum sem kallast lykilorð og er það orð fulltrúi þess sem kenna á. Ef kenna á t.d. stafina s og u, er valið orð með þeim stöfum t.d. sumar. Byrjað er á að finna orðin í lykilorðinu t.d. sumarfrí > suma, sum , um, mar, frí. Svo má rugla stöfunum og búa til ný orð úr þeim, t.d. mas, rum, far, ís, rím. Kennari kennir sérstaklega hljóð og form stafanna s, u og útbýr fjölbreytt verkefni til að þjálfa nýja færni. Mikil áhersla er lögð á leiki og spil.

Lokastig vinnurnnar er svokölluð enduruppbygging og byrjar sú vinna samhliða tæknivinnunni. Á þessu stigi semja nemendur frá eigin brjósti ýmislegt sem tengist orðaforða og/eða efni textans sem lesinn var í upphafi. Þessa vinnu er hægt að nálgast á ólíkan hátt t.d. með því að nýta ritun, munnlega frásögn og leikræna tjáningu (Birna Svanbergsdóttir, 2012).

Að lokum

Framundan er tími breytinga, breytinga sem vonandi leiða okkur að því að skapa aðstæður til að auka áhuga nemenda á lestri, til að ná bættum árangri í læsi og festa í sessi vinnubrögð sem efla samskipti og samvinnu ekki bara nemenda heldur líka kennara. Kennarar og nemendur eru að tileinka sér nýja áhugaverða hluti, við tökum lítil skref í einu og leggjum okkur fram við að vinna saman að því að framgangur þessa verkefnis verði sem bestur og sú hugsun og þau vinnubrögð sem lögð eru til grundvallar í Byrjendalæsi nái að festast í sessi í okkar skóla því við teljum það vera nemendum okkar og okkur öllum til hagsbóta.

 

María Eir Magnúsdóttir,
kennari og Byrjendalæsisleiðtogi í Grunnskóla Grindavíkur

Heimildaskrá
Birna Svanbergsdóttir. (2012). Byrjendalæsi - upplýsingar til foreldra. Byrjendalæsi, 3(3). 1-4.

Þessi grein birtist upphaflega í 2. tbl. Járngerðar 2017