Grunnskóli Grindavíkur

Útskrift 10. bekkjar í dag
Útskrift 10. bekkjar í dag

„Þannig týnist tíminn" sagði Halldóra Kristín Magnúsdóttir skólastjóri á útskrift 10. bekkjar í dag. Börnin í árgangi 2001 byrjuðu í 1. bekk Grunnskóla Grindavíkur haustið 2007 og í dag útskrifast úr 10. bekk 41 nemandi. Ýmislegt hafa þau nú brallað í þessi 10 ár og skólastarfið með þeim verið farsælt, gjöfult, líflegt og skemmtilegt.
Þau eru upp til hópa miklar félagsverur, hópur sem stendur saman og eru góð hvert við annað. Í hópunum eru fjölmargir einstaklingar sem hafa tekið virkan þátt í leiklistarlífi skólans, fjölmargir íþróttamenn, - keppendur í skólahreysti, ötulir námsmenn, öflugir liðsmenn í stuðboltunum, nemendaráði og ungmennaráði, Þau eru öll sigurvegarar hvert og eitt, hvert á sinn hátt.

Halldóra minnti þau á að nú standa þau á tímamótum, eru að stíga skref inn í framtíðina með vitnisburð frá Grunnskóla Grindavíkur og þá skiptir mestu máli að þau þekki veikleika sinn og styrkleika. Hún sagðist bera þá von í brjósti að þau hafi færni til að þekkja mun á réttu og röngu, kunni að meta aðstæður, bjarga sér í hinu daglega amstri og að nýtið tækifærin sem þeim bjóðast. Það felast tækifæri í því að hefja nám á nýjum stað og velja sér starfsvettvang út frá áhugasviði og styrkleikum. Stundum lenda þau í því að eiga að leysa verkefni sem geta verið mjög erfið og virðast jafnvel óyfirstíganleg, þá er mikilvægt að staldra við og gera sér grein fyrir að það felast yfirleitt tækifæri í öllum erfiðum stöðum/verkefnum.

Halldóra sagði frá því að nemendur úr þessum hópi hafa útskrifast samtals með 16 áfanga í framhaldsskóla eða 48 einingar. Þessir áfangar skiptast þannig: 13 áfangar í ensku, 2 í stærðfræði og 1 í íslensku. Helga Björg Frímannsdóttir er þar fremst í flokki en hún útskrifast úr grunnskóla með 12 framhaldsskólaeiningar, 3 í íslensku, 3 í stærðfræði og 6 í ensku, glæsilegur árangur það. Það að nemendur fái tækifæri til þess að takast á við nám á framhaldsskólastigi í grunnskólanum er mjög mikilvægt til að viðhalda námsáhuga og tryggja nemendum nám við hæfi.

Guðbjörg Sveinsdóttir aðstoðarskólastjóri stýrði síðan afhendingu viðurkenninga og síðan afhentu umsjónakennarar bekkjanna þeir Alexander Veigar Þórarinsson og Páll Erlingsson ásamt þeim Halldóru og Guðbjörgu nemendum vitnisburð vetrarins, rósir, gjafir og hrós. 

Að lokum sagði Halldóra frá því að hún muni láta af störfum sem skólastjóri í sumar og muni Guðbjörg Sveinsdóttir hennar nánasti samstarfsmaður til 5 ára taka við keflinu. Halldóra færði Guðbjörgu blómvönd sem þakklætisvott fyrir samstarfið og óskaði henni góðs gengis í nýja starfinu. Halldóra færði síðan öllum þeim sem komið hafa að starfi skólans þakkir og hún og Guðbjörg færðu öllu starfsfólkinu rós í þakklætisskyni fyrir gott samstarf. 

Starfsfólk Grunnskóla Grindavíkur óskar hópnum sem útskrifaðist í dag hjartanlega til hamingju með áfangann og óskar þeim jafnframt velfarnaðar í framtíðinni. 

Meðfylgjandi myndir eru frá útskriftinni.

Halldóra Kristín Magnúsdóttir skólastjóri 

Veigar Gauti Bjarkason fráfarandi formaður nemendaráðsins fór yfir helstu verkefni ráðsins í vetur

Þessir drengir úr 10.bekk voru í  fyrsta sæti  í stuttmyndasamkeppni í ensku með myndina Golden Dragon

Þessar stúlkur úr 10.bekk og ein úr 9.bekk hlutu önnur verðlaun fyrir myndina Snowwhite and the 5 dwarfs  

Guðbjörg Sveinsdóttir aðstoðarskólastjóri afhendir formanni nemendaráðs Veigari Gauta Bjarkasyni 10.A viðurkenningu fyrir vel unnin störf í þágu nemenda en Veigar Gauti hefur setið í nemendaráði frá því hann var í 7.bekk.

Fyrir góðan árangur í íþróttum pilta og stúlkna veitir Ungmennafélag Grindavíkur farandbikar og skjöld til eignar. Íþróttakona Grunnskóla Grindvíkur skólaárið 2016 - 2017 er Elísabet María Magnúsdóttir 10.A og 
Íþróttamaður skólans er Ásgeir Þór Elmarsson 10.P

Ásgeir Þór og Elísabet María hafa bæði mætt vel í íþróttir og sund, öflugir íþróttamenn og góðar fyrirmyndir fyrir yngri nemendur skólans.

Landsbanki Íslands veitir viðurkenningu fyrir góðan árangur í stærðfærði. Að þessu sinni var það Elínborg Adda Eiríksdóttir 10.P sem fékk þessa viðurkenningu. Irmý Rós Þorsteinsdóttir fulltrúi bankans afhenti verðlaunin sem voru grafísk reiknivél og viðurkenningarskjal frá Landsbankanum.

Elínborg Adda Eiríksdóttir 10.P fékk einnig viðurkenningu frá danska sendiráðinu fyrir besta árangri í dönsku við lok grunnskóla. Hún fékk bókina Politikens retskrivnings og betydnings ordbog.

Fyrir góðan árangur í ensku fær Katla Sif Gylfadóttir 10.A viðurkenningu. Katla Sif hefur einnig lokið tveimur enskuáföngum á framhaldskólastigi, 203 og 303.

Helga Björg Frímannsdóttir 10.P hefur skilað afbragðs góðum árangri í íslensku á grunnskólaprófi og lauk auk þess íslensku 203 á framhaldsskólastigi. Hún fékk bókina  Íslenskir málshættir og Íslensk orðtök eftir Sölva Sveinsson.

Einnig hlaut Helga Björg bókina kvæðasafn Þórarins Eldjárns sem viðurkenningu frá skólanum fyrir góðan námsárangur í 10. bekk skólaárið 2016-2017. Helga Björg sem auk þess að ljúka grunnskólaprófi með glæslegum árangri, lauk  í vetur fjórum áföngum á framhaldsskólastigi. Hún kláraði ísl. 203, stæ 203 og ensku 203 og 303. 

 

Ásrún Kristinsdóttir kennari afhenti Halldóru skólastjóra málverk að gjöf frá kennurum skólans með þakklæti fyrir samstarfið á síðustu 5 árum.   Mynd þessi er af Reykjanesvita og máluð af Pálmari Guðmundssyni kennara við skólann.   

Umsjónakennarar bekkjanna þeir Alexander Veigar Þórarinsson og Páll Erlingsson afhentu ásamt þeim Halldóru og Guðbjörgu nemendum vitnisburð vetrarins, rósir, gjafir og hrós.

10.A

10.P